Framtíðarvika á Deiglan.com

Framtíð Íslands á Deiglan.com

Deiglan hefur í ljósi þeirra atburða sem íslenskt þjóðfélag hefur farið í gegnum undanfarnar vikur ákveðið að efna til framtíðarviku Deiglunnar. Að mati Deiglunnar er nauðsynlegt að horfa með gagnrýnum augum á þá stöðu sem nú er uppi og læra af liðnum atburðum, en fyrst og fremst horfa til framtíðar og leita lausna. Því hefur Deiglan fengið nokkra einstaklinga úr ólíkum áttum þjóðfélagsins til að svara nokkrum spurningum um þeirra framtíðarsýn. Deiglugestirnir eru þau Andri Snær Magnason, rithöfundur, Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur og Deiglupenni, Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík. Smellið á spurningarnar til að sjá svörin.

1. Hver er þín sýn á framtíð Íslands og tækifæri þjóðarinnar?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Framtíð og tækifæri þjóðarinnar liggja í því að fólk vilji búa hér. Að landið okkar, menning, tungumál og samfélag hafi á einhvern hátt aðdráttarafl og gildi í sjálfu sér burtséð frá því hvort við séum í síldarævintýri, netbólu, bankabólu eða kreppu. Ef fólk vill vera hér og setjast að með sína menntun þá verður framtíð og tækifæri í réttu hlutfalli við það sem menn hafa menntað sig til að gera . Niðurrif á sögufrægum húsum, sífellt aðför að náttúruverðmætum eða uppbygging á vanhugsuðum og ljótum hverfum sem enginn - ekki einusinni verktakarnir bera taugar til eru aðför að byggð í landinu. Vegna þess að það er síldaræðismódelið - Raufarhafnarmódelið - og eftir slíkt ævintýri stendur ekkert nema eyðilegging og rusl. Við þurfum að horfa mjög vel á öll mistökin og leiðrétta þau. Ef við gerum það er ég mjög bjartsýnn. Héðan þarf að koma mesta krítíkin og greiningarnar, hún má ekki aðeins vera í erlendu stórblöðunum og við megum ekki halda að með því að lesa þau ekki - verði hægt að búa til hugmynd um að allt verði í lagi.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Tækifæri þjóðarinnar í framtíðinni munu vera í öfugu hlutfalli við þann tíma sem það tekur að koma viðskiptabönkunum úr ríkiseigu. Því fyrr sem við náum að tryggja eðlilega bankastarfsemi því fyrr mun hagkerfið ná sér á skrið á nýjan leik. Rekstur allra fyrirtækja og flestra heimila eiga snertiflöt við bankastarfsemi – bankarnir eru smurolían í markaðshagkerfinu.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Framtíðin er björt þó svo að við verðum án efa nokkur ár að sigla gegnum þennan brimgarð sem efnahagsþrengingarnar eru. Íslendingar eru ekki fátæk þjóð þó við verðum blönk um stundarsakir og tækifærin eru fjölmörg! Við eigum náttúruauðlindir og dýrmæta reynslu en mestan auð eigum við í okkur sjálfum; vel menntaðri, hörkuduglegri og áræðinni þjóð sem þarf að endurheimta sjálfstraustið og kjarkinn.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Mikilvægt er að missa ekki kjarkinn til að skapa ný atvinnutækifæri og leita nýrra leiða þrátt fyrir hamfarirnar. Lykilatriði er að ágjöfin hreki ekki úr landi mikilvægar starfsstéttir og aldurshópa sem knúið geta hjól atvinnulífsins til framtíðar.

 

 

 

2. Hverjar telur þú að verði helstu undirstöður hagkerfisins eftir 10-20 ár?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Þegar ég var 13 ára urðu Kiddi, Tóti og Finnur ásamt þeim sem voru ári eldri en ég í Fylki Íslandsmeistarar í 3. flokki. Þá hugsaði ég - ef þeir verða áfram jafn góðir eftir 10 ár þá verður Fylkir ekki í þriðju deild heldur í fyrstu og jafnvel Íslandsmeistarar. Þeir urðu það - næstum því - ekki síst vegna þess að þeir voru mjög ungir teknir upp í meistaraflokk og þeir freistuðust ekki til að skipta um lið. Með því einu að horfa á meistaraflokkinn þá voru engar vísbeningar um neinn framtíðarárangur liðsins. Núna er mikil reiði í garð ,,bankakrakkanna" og menn eru beygðir, margir gjaldþrota. En þetta eru margir klárustu krakkarnir úr sínum árangri, með mestu tungumálakunnáttunna, mestu alþjóðlegu reynsluna og bestu samböndin.

Ef við horfum 10 ár fram í tímann þá hafa krakkarnir ,,okkar" margir hverjir meiri reynslu en jafnaldrar þeirra í bönkum og stofnunum erlendis. Á meðan þeir sem nú lenda í kreppunni erlendis eru farnir á eftirlaun eftir 10 ár er okkar fólk aðeins um fertugt með mikla reynslu. Þótt ævintýrið hafi reyndar endað í þjóðargjaldþroti og ég sjái illa hvernig úr henni rætist þá er eina von okkar sú að mönnum beri gæfa til að breyta reynslunni í þroska og þekkingu þá er það bara staðreynd að upp úr því hljóta að spretta nýjar stofnanir, fyrirtæki og hugmyndir - ef mönnum ber gæfa til að skoða það sem gerðist á krítískan hátt og búa til fjarlægð við þetta tímabil í stað réttlætingar og yfirhylmingar. Þá munu menn sjá innan fárra ára að við búum að mikilvægri reynslu sem má ekki afskrifa í allsherjar reiðikasti. Það er ekki þjóðernisleg skoðun á ágæti fólks heldur einfaldlega það sem raunverulega situr eftir útrásina. Það er mikilvægt að hvatningarkerfi fyrirtækja breyti mönnum ekki í spilasjúklinga og lúxusskrímsli sem brjóta niður jöfnuð á landinu.

Ef reynslan nýtist og fólk vill búa hér þá verður hlutfallslega meiri bankastarfsemi hér en í flestum löndum eftir 20 ár, ferðamennskan og orkan eru mikilvæg - ekki síst hitaveitan og við þurfum hærra verð fyrir raforkuna í stað þess að virkja meira, fiskurinn verður mikilvægur en allt þetta er fyrirsjáanlegt. Fegurðin er mikilvæg vegna þess að hennar vegna vill fólk vilja búa hérna. Eftir 20 ár verða fyrirtæki á sviðum einhversstaðar á milli gerfilima og fiskflökunarvéla mikilvægust. Ég held að við verðum farin að taka meiri þátt í heilbrigðiskerfum beggja vegna Atlantshafsins með því að byggja upp deildir sem verða sterkar á einhverjum tilteknum sviðum - þar eigum við mikið af vel menntuðum en vannýttum kröftum og tækifærum. Við getum notað tungumálið, söguna og menninguna til að laða til landsins ungt fólk utan úr heimi. Við þurfum ekki svo marga þannig að það er ekki óraunsætt.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Undirstöður hagkerfisins verða áþekkar á næstu áratugum. Sjávarútvegur og ál verða væntanlega stærstu útflutningsgreinarnar og þjónustuviðskipti munu aukast hægt en bítandi. Þess vegna er mikilvægt að skapa þessum greinum góð skilyrði.

Að sama skapi geri ég ráð fyrir að fjármálaþjónusta muni verða veigamikil undirstaða þjóðarbúsins á nýjan leik. Slík þróun hefur átt sér stað í öðrum löndum sem hafa gengið í gegnum bankahrun. Engin ástæða er til að ætla það verði öðruvísi hér á landi, jafnvel þótt erfitt sé að sjá það fyrir sér í dag.

Þegar eðlilegar markaðsaðstæður myndast á nýjan leik þá munu spretta fram nýjar atvinnugreinar og fyrirtæki sem enginn getur séð fyrir í dag – allra síst ríkið.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Allt sem við getum öðrum fremur gert vel í ljósi reynslu okkar og aðstæðna. Fiskur sem við höfum vit á að vinna meira; gæði fremur en magn til að mæta aðild annarra þjóða að miðunum í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu. Áframhaldandi ferðamennska, vistvænn og mannúðlegur landbúnaður sem mun rísa úr öskustónni (þarf mögulega meira en 10-20 ár), orkusala í margbreytilegu formi og svo hátækniiðnaður og annar iðnaður sem gerir okkur sjálfbærari en verið hefur.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Ísland á að geta orðið þekkt fyrir sjálfbæra nýsköpun í atvinnulífinu þar sem við byggjum á traustum grunni frumatvinnugreinanna og höfum jafnframt nýtt góða menntun þjóðarinnar, sköpunarkraft og náttúruauðlindir okkar á ábyrgan hátt. Mikilvægast af öllu er að tryggja fjölbreytta flóru atvinnulífsins bæði hvað varðar eignarhald og fjölda atvinnugreina sem við byggjum afkomu okkar á.

 

 

3. Sérðu fyrir þér breytta heimsmynd að 10 árum liðnum og ef svo er, hvaða skref þurfa Íslendingar að taka til að búa sig undir þær breytingar?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Ég sá ekki fyrir hrun Sóvétríkjanna, fall bankanna eða 11. september. Ég veit ekki hvort Kína rís eða fellur, hvort Arabía muni loga eftir 5 ár eða hvort olían sé raunverulega að verða búin eða ekki. Ég held að við förum í Evrópusambandið - ég var ekki mjög hrifinn af því vegna þess að ég taldi að það myndi draga úr okkur kraft og frumkvæði og ég sá kosti við krónuna þótt ég hafi stundum fundið sveifluna í mínum eigin litla útflutningi. Ég held að reynsla síðustu ára sýni að við þurfum óhjákvæmilega að tilheyra alþjóðlegum stofnunum, regluverki, mynt og aga - hér er allt svo persónulegt að það er farið að hamla okkur. Ætli Express verði ekki með fjögur flug á dag til Brussel eftir 5 ár. Samt er ég hræddur við oftrú á slíkri lausn og að við förum að skilgreina okkur sem jaðarsvæði og landsbyggð en ekki höfuðborg eða miðju - verstu atriðin í landsbyggðarhugsunin á Íslandi gæti þá færst yfir á þjóðina í heild sinni sem væri ekki gott. Eini undirbúningurinn er í því að rækta eigið lýðræði, sambönd við aðrar þjóðir og tungumálakunnáttu og ræktun á okkar menntun og menningu.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Það er alltaf erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að forðast að draga of víðtækar ályktanir af núverandi hremmingum. Staðan er vissulega erfið. Því verður ekki neitað. En gengis- og fjármálakreppur eiga sér upphaf og enda. Það er nóg að líta til Noregs og Svíþjóðar í þeim efnum. Núverandi ástand verður ekki viðvarandi ástand og það mun birta til á nýjan leik.

Bankarnir hrundu. Heimsmyndin er hins vegar í stórum dráttum óbreytt og sömu lögmál eru áfram í gildi þótt umgjörð þeirra muni vafalítið taka breytingum. Vonandi verða þær breytingar skynsamlegar og vel útfærðar. Minna er oft meira í þessum efnum.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Auðvitað mun heimurinn breytast á næstu árum rétt eins og okkur óraði ekki fyrir þessu ástandi fyrir 10 árum. Vandinn er bara hversu oft hann breytist í aðra átt en við töldum. Ég trúi að sameiningarþörfin verði enn áleitnari og að Evrópa verði að vinna saman innan innan bandalags til að vera gjaldgeng gagnvart hinum vaxandi risum í austri, Kína og Indlandi. Ég trúi að Bandaríkin haldi áfram að víkja úr sæti leiðandi þjóðar í heiminum og að áhrif þeirra muni áfram minnka. Skynsamlegast er að fara í aðildarviðræður við Evrópubandalagið og byrja að tengja viðskipti okkar til austurs. Breytingarnar munu ekki aðeins taka til viðskiptalífsins; á heimavelli einkalífsins trúi ég að við eigum eftir að sjá stórfelldar breytingar þar sem öll þau verkefni sem heimilin hafa útvistað á síðustu áratugum, munu að einhverju leyti fara inn aftur. Útvistun á barnauppeldi og gæslu, umönnun sjúkra, aldraðra og fatlaðra og útvistun á matseld og þrifum og frítíma og samskiptum. Samfélagið gat ekki lengur tekið við þessari útvistun og stöðugur skortur var orðinn á fólki til að vinna verkin. Þessi þensla er búin og nú ríður á mestu að þessi endurheimt heimilisverkefna skapi okkur tækifæri en verði ekki þannig að konur verði sendar inn á heimilin óviljugar. Tækifærin felast í að margir (bæði konur og karlar) geta hugsað sér að velja meiri vinnu innan heimilis og fá þá t.d. auknar heimagreiðslur fyrir ákveðin verkefni og þá getur samfélagið betur annast þá útvistun sem áfram mun eiga sér stað.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Heimurinn verður ekki tvípóla í efnahagslegu tilliti heldur fjölpóla þar sem þær þjóðir munu skara fram úr sem best tekst að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran og fjölbreyttan hátt.Við þurfum að byggja á styrkleikum okkar og sérstöðu og auka nýsköpun og menntun sem tengir saman ólík fræðasvið annars vegar og hug og hönd hins vegar.

 

 

4. Hver er þín sýn á gjaldeyrismál þjóðarinnar?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Ég gerði 10.000 dollara samning við fyrirtæki úti í USA árið 2003. Það var um milljón krónur á þávirði. Þegar ég fékk greiddan samninginn fékk ég 650.000 krónur. Það skipti mig ekki máli, þetta voru jaðartekjur, ég hafði ekki ,,unnið fyrir þeim" eða lagt út í beinan kostnað. Ef ég hefði hins vegar verið með starfsmann, ætlað honum 800.000 kall og mér 200.000 kall til að byggja upp fyrirtækið þá væri sama bisnessmódelið annarsvegar gjaldþrota - hins vegar bara skrambi fínt. Viðskiptamaður ársins og skúrkur eða auli ársins virðast stundum vera tvær hliðar á sama peningi - sömu krónunni.

Síðustu ár urðu margar mjög góðar hugmyndir undir þegar efnt var til stórframkvæmda og ofan á það hrúgað erlendum lánum á því falska gengi og vöxtum sem framkvæmdirnar mynduðu. Krónan hefði eflaust verið í lagi ef stjórnvöld kynnu að fara með peninga - eða mynt. En því er ekki að heilsa og eftir hrunið er erfitt að sjá að það sé hægt að endurvekja krónuna. Mér sýnist allt atvinnulífið æpa á Evru - þótt ég skilji alveg kosti krónunnar - launalækkun án blóðsúthellingar og allt það.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Núverandi peningamálastefna hefur gengið sér til húðar. Allir möguleikar eru uppi á borðum um framhaldið

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Einfalt svar; við eigum að ganga alla leið í Evrópusamvinnu eins og flestar þjóðir álfunnar og taka upp evruna í kjölfar inngöngu í bandalagið.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Við munum án efa taka upp nýja gjaldmiðil á næstu árum og þá er Evran líklegust. Því fylgir óumflýjanlega innganga í Evrópusambandið. Innganga hefur verið umdeild og er án efa ekki skyndilausn á þeim vanda sem við erum í en nýleg dæmi sanna svo ekki verður um villst að einangrun þjóðarinnar er mesta ógnin við lífskjör okkar og frelsi.

 

 

5. Þegar horft er til framtíðaruppbyggingar, hvaða lærdóm getum við dregið af áfalli síðustu mánaða?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Að setja ekki öll egginn í eina körfu. Að vera gagnrýnin og óhrædd við að tjá skoðanir sínar. Að líta ekki á peninga eða gróða sem markmið í sjálfu sér - heldur menntunina, verðmætin, þjónustuna eða hugmyndina sem á að framkvæma og gróðann þá sem afleiðingu. Að verða gegnsætt og heiðarlegt lýðræðissamfélag. Við erum á skiptispori. Kerfi hefur hrunið og margt misjafnt hefur komið í ljós. Núna eru stjórnvöld eins og stífla andspænis krafti fólks en ekki farvegur fyrir kraftana. Stjórnmálamenn segja ,,bíðið - við erum í björgunaraðgerðum" og sýna ekki þá sjálfsögðu kurteisi að biðja fólk afsökunar á afglöpum og beina kröftum þaðan í uppbyggilega farvegi. Fólki er gefin sú ranghugmynd að stjórnmálin ráði raunverulega úrslitum um hvort okkur verði bjargað eða ekki. Þannig lama stjórnmálamenn fólk um þessar mundir um leið og þeim tekst ekki að vekja með fólki kraft eða von. Það skiptir öllu máli að auka gegnsæi og sporna gegn spillingu og færa valdið nær fólki. Annars held ég að fólk nenni ekki að búa hérna. Það gerist ekki með hvelli eða yfirlýsingum, það gerist hljóðlega og jafnvel ómeðvitað - eins og sandur rennur manni úr greipum. Það hefur nánast mátt ganga að því vísu undanfarin ár að mikilvægar upplýsingar til almennings hafi verið dulkóðaðar af almannatenglum. Það gildir um skipulagsmál, viðskipti, málefni ríkisins. Þetta stakk mig þegar ég fór að fylgjast með stóriðjuumræðu - hvernig öllum meginstærðum hefur verið haldið frá almenningi. Síðan velja stórfyrirtæki tölur ofan í fólkið. Ný kynslóð verður að taka við völdum. Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna verða að koma saman og koma sér saman um sameiginleg gildi og leikreglur. Það verður að fela nýrri kynslóð sem á börn og skuldir völd og ábyrgð - ef ekki þá á hún þann einan kost að ,,flytja að heiman". Það er til útlanda.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Það skiptast á skin og skúrir. Eftir sem áður mun það reynast best að ríkið skapi almennan, gagnsæjan og fyrirsjáanlegan ramma um samfélagið. Okkur getur síðan greint á um hversu víðtækur sá rammi eigi að vera.

 

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Auðvitað þann að enginn er eyland og að við getum ekki lifað og starfað ein í heiminum án þess að afla okkur bandamanna með félagslegum hætti þar sem við bæði þiggjum og gefum. Jafnframt höfum við lært að áræðni er varasöm án fyrirhyggju og skýrra leikreglna sem tryggja okkur í ótryggum heimi. Við höfum líka lært að ofgnótt og ótakmörkuð efnisleg gæði eru ekki eftirsóknarverð í sjálfu sér og það er trúlega mikilvægasta lexían fyrir okkur; fyrrum afskaplega fátæka og einagraða nýlenduþjóð. Þannig sáum við að öll efnislegu gæðin höfðu ekki stutt við samhjálp og skilning fólks á meðal og græðgin náði til allra sviða; við urðum að fá allt. Græðgi í peninga, í metorð og frægð, græðgi í hærri stöðutitla og fleiri prófgráður, græðgi í reynslu, græðgi í fallegt útlit – listinn er endalaus.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Við megum ekki gleyma okkur í vímu velgengninnar þegar vel gengur né skella öllum hurðum í lás og loka heila þjóð inni í svartsýni og reiði þegar illa gengur. Við höfum gert mistök og atburðir undan farinna vikna eru þyngri en tárum taki að nefna. En við verðum að læra af mistökum okkar og halda svo ótrauð áfram til móts við nýja framtíð. Markaðshagkerfið og kapítalisminn þarf regluverk og eftirlit. Umbunarkerfi fjármálaheimsins þarf að endurskoða svo skynsemi og hvatning fari saman. Útrás má ekki byggja á pappírsgrunni en mikilvægt er þó að henda barninu ekki út með baðvatninu og gleyma því ekki að fjölmörg íslensk útrásarfyrirtæki hafa verið og eru enn til fyrirmyndar.

Mesti skaðinn verður ef úr grasi vex hér kynslóð sem dregur þann lærdóm einann af nýliðnum atburðum að best sé að setja markið ekki of hátt, reyna ekkert nýtt, og að öruggast sé að viðra ekki nýjar hugmyndir né hrinda þeim í framkvæmd heldur fela sig í skugga hópsins af ótta við að mistakast. Án frelsi til að skapa og tjá skoðanir sínar og hugrekkis til að dreyma og skapa verður engin uppbygging.

6. > Hvernig má efla nýsköpun og styðja starfandi fyrirtæki sem búa við góðan rekstrargrundvöll?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Nýsköpun má efla með því að tengja betur saman háskólana, listaskólana og tækniskólana. Þetta er reyndar allt byrjað, bæði HR, nattura,info, HÍ og einstakir hópar eru byrjuð að leita. Það má gæta þess að tapa ekki menntuðu fólki úr landi. (Það má reyndar ekki vanmeta brottflutning úr landi vegna þess að þaðan koma öll okkar bestu sambönd og reynsla.) Það verður að halda fólki virku en ekki missa það heim í þunglyndi þegar það verður atvinnulaust að ósekju. Það er hægt að blanda saman gömlu og nýju í miklu meiri mæli, bændum og listaskólanemum, iðnhönnuðum og smiðum. Gamlsköpun er síðan annað mál - hvernig má koma í veg fyrir að hundrað ára gömul fyrirtæki deyji drottni sínum einmitt núna. Það hlýtur að felast í því að koma á jafnvægi og virkni eins fljótt og auðið er - að koma fólki í skilning um að með því að vera ekki áskrifandi að blaði, með því að fá sér ekki smið, með því að fara ekki út að borða eða í bíó er ekki verið að spara peninga - heldur að koma í veg fyrir að verðmæti verði til. Þess vegna ætla að ég að fá mér flatskjá sem táknræn mótmæli við sektarkenndina. Okkur er ekki betur borgið ef japaninn sem býr til flatskjá hætti við að kaupa sér fisk eða bók frá Íslandi og rækti kartöflur í staðinn - í ímyndaðri von um að báðir spari peninga þegar rauninn er sú að báðir kasta menntun sinni og þekkingu á glæ. Grundvallaratriðið er auðvitað jafnvægi. Mörg fyrirtæki hljóta að fara á hausinn og það verður sársaukafullt að koma aftur á jafnvægi - en við megum ekki hætta allri virkni.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Það þarf fyrst og fremst að efla verðmætasköpun í landinu. Ég hef ekki skoðun á því hvort hún eigi að byggja á nýjum eða gömlum hugmyndum. Nýsköpun þarf að fela í sér verðmætasköpun eins og allur annar arðbær fyrirtækjarekstur. Nýsköpunarfyrirtæki eru hvorki betri né verri en önnur fyrirtæki í mínum bókum.

Lykilatriðið verður áfram að tryggja það að arðbær fyrirtæki geti fjármagnað rekstur og vöxt með blöndu af lánum og eigin fé. Verkefni stjórnvalda er ekki að auka afskipti heldur að tryggja á ný almennan, traustan ramma sem fyrirtækin geta starfað innan. Höft, hömlur og sértækar aðgerðir eru hættulegar og sjaldan vænlegar til árangurs.

Svo hefur bjartsýni aldrei drepið neinn. Í öllum stöðum liggja tækifæri.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Byggja upp kjarkinn að nýju og forðast höft og skammtanir sem hamla þeim sem hafa burði til að skapa ný tækifæri inn í viðskiptalífið. Þannig þarf að tryggja aðgang að athafnafé (bæði lánsfé og auknum styrkjum; alvörupeningum) fyrir þá sem geta og þora og loks er rétt að styrkja menntakerfið á tímum sem þessum í stað niðurskurðar. Í fyrirtækjarekstri ber síðan að virkja auð kvenna til áhrifa en reynsla þeirra og lífssýn hefur auðvitað verið fáránlega lítið nýtt í forystu athafna- og viðskiptalífsins.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Með betri menntun á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfs og með því að tryggja sprotafyrirtækjum aðgengi að „þolinmóðu fjármagni“. Stjórnvöld þurfa bæði að hlúa að þeim fyrirtækjum sem nú berjast fyrir lífi sínu til að vermda störf tímabundið en og leggja jafnframt meiri áherslu en áður á sprotana sem mynda munu þá flóru fyrirtækja sem hér verður eftir 5-10 ár.

 

 

7. Hvernig á að draga úr þeim auknu áhrifum ríkisvaldsins í atvinnulífinu sem hafa komið fram að undanförnu?

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason, rithöfundur

Hvernig má fá fólk til að eignast húsnæði aftur en ekki bara skuldir? Hvernig á fyrirtæki að byggja upp eigið fé aftur eftir að það var skuldsett til andskotans? Eigum við að gefa bankana aftur? Úff þetta er erfið spurning. Líklega er eina vonin fólgin í nýrri kynslóð - sem eignast ódýrt húsnæði - stofnar skuldlaus fyrirtæki. Ráðherrar og ráðuneyti ráða ekki við þessi verkefni eða eftirlitið og það er ekki æskilegt að flokkar hafi þetta vald. Það verður að dreifa valdi en á meðan allt er í óvissu hljóta að vera til aðferðir til að mótivera fólk án græðgi, að skipa í ráð eða stjórnir án spillingar, að reka fyrirtæki án þess að hola þau að innan í eigin þágu. Starfsfólk - er það ekki yfirleitt gott fólk? Getur það tekið á sig ábyrgðina í stað þess að færa félögin aftur með afskrifaðar skuldir í hendur ólígarkanna? Aukið vald til allra starfsmanna - aukin ábyrgð - fullkomið gegnsæi - öll laun uppi á borðinu og hætta forstjóra og eigendadýrkun í bili? Við hljótum að geta fundið einhver kerfi. Ekki látum við Finn fá bankana aftur?

Halldór Benjamín Þorbergsson

Halldór Benjamin Þorbergsson, hagfræðingur

Aukin áhrif ríkisvaldsins í atvinnulífinu eru vonandi tímabundin en reynslan kennir okkur því miður að tímabundnar aðgerðir ríkisins eiga það til að vera varanlegar. Ríkið hefur nú þegar beitt inngripum. Það er hins vegar nauðsynlegt að tryggja að þau verði tímabundin en ekki varanleg. Í mínum huga er mikilvægt að það haldist eðlilegt jafnvægi á milli ríkis og einkaaðila. Í áranna rás hefur sú verkaskipting þróast í rétta átt – við megum ekki kasta henni á glæ.

Að sama skapi þurfum við að leggja áherslu á að hæfileikaríkt fólk finni kröftum sínum viðspyrnu á Íslandi og vilji búa í landinu. Með atorku og útsjónarsemi þessa fólks tryggjum við að menn leiti nýrra leiða til að gera sömu hluti og áður og að menn finni nýja hluti til að gera með gömlum og gildum aðferðum. Við eigum fullt af hæfileikafólki og það þurfum við að nýta okkur til fulls – bæði einkaaðilar og hið opinbera.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Bæði þarf að draga úr þeim sem aukist hafa en ekki síður að halda áfram að draga úr rekstri og einokun ríkis og sveitarfélaga þar sem slíkt hefur verið plagsiður um áratugaskeið svo sem uppeldiseinokunin og menntunareinokunin í leik- og grunnskólum landsins. Á tímum sem þessum getur verið erfitt að vera málsvari þess að sjálfstæði fólks til eigin athafna sé í forgrunni. Með aðgerðum sem miða að skýru eftirliti og afgerandi regluverki hvarvetna þar sem sjálfstæður rekstur er í gangi, byggist upp trú þjóðarinnar á að hver og einn eigi rétt á að njóta hugmynda sinna og athafnagetu en jafnframt sé félagslega hugsun í öndvegi.

Svafa Gronfeldt

Svafa Gronfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík

Það þarf að fara fram uppgjör á því hver var rót bankahrunsins og hvað má af því læra. Lausnin er ekki að taka upp höft, ríkisrekstur og einangrunarstefnu. Lausnin er ekki að Ísland eitt vestrænna ríkja hverfi áratugi aftur í tímann. Ríkið og ríkisfyrirtæki munu ekki koma okkur út úr vandanum. Hlutverk Ríkisins er að skilgreina leikreglur og framfylgja þeim en ekki síður að skapa frjóan jarðveg fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem móta framtíð þjóðarinnar. Tryggja þarf að Ísland verði áfram opið og alþjóðlegt og virkja dugnað og þekkingu þjóðarinnar. Fólkið og frumkvæði þess er okkar auðlind.