Álitsgjafar um jafnréttismál

Jafnréttismál á Deiglunni

Deiglan setur jafnréttismál í öndvegi í dag, 19. júní sem gjarnan er kallaður kvennadagurinn því þennan dag árið 1915 fengu íslenskar konur fyrst kosningarétt. Nokkrar spurningar voru lagðar fyrir fjórar málsmetandi konur um jafnréttismál þær Guðfinnu S. Bjarnadóttur, alþingismann Sjálfstæðisflokks, Katrínu Jakobsdóttur, varaformann Vinstri grænna, Margréti Pálu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar og Sigríði Á. Andersen, lögmann og varaþingmann fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Smellið á spurningarnar til að sjá svörin.

1. Hvernig myndir þú lýsa stöðu jafnréttismála á Íslandi í dag?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Staðan er þokkaleg í stóru myndinni en óásættanleg í nokkrum mikilvægum atriðum. Mikil þróun hefur orðið í jafnréttismálum undanfarna áratugi, má í því samhengi nefna atvinnuþátttöku kvenna hér á landi, feðraorlofið og hátt hlutfall kvenna í háskólanámi. Stórt skref var stigið þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands og sífellt fleiri konur láta til sín taka í stjórnmálum, menningar- og atvinnulífi þjóðarinnar. Þessi þróun er sérstaklega merkileg þegar hún er skoðuð í ljósi síðustu alda og í samanburði við stöðu jafnréttismála víða um heim. Þó eru vissir þættir alls ekki í lagi. Enn stöndum við frammi fyrir ólíðandi launamisrétti og vanvirðingu gagnvart mörgum þeim störfum sem konur sinna. Konur eru í minnihluta þegar kemur að því að stjórna fyrirtækjum og stofnunum, þær eru ekki eftirsóttar í stjórnum fyrirtækja og í stjórnmálum eru mun fleiri karlar en konur í áberandi stöðum.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Ég tel að töluvert hafi áunnist í jafnréttismálum á sumum sviðum. Nægir að nefna aukna menntun kvenna, almennt fæðingar- og foreldraorlof fyrir bæði kynin og viðhorfsbreytingar á ýmsum sviðum sem og talsverðar lagalegar úrbætur í jafnréttismálum. Hins vegar er ekki hægt að tala um að jafnrétti hafi náðst – hér er talsverður launamunur kynjanna, konur hafa almennt minni völd en karlar, bæði í stjórnmálum eða atvinnulífi, að ógleymdri þeirri staðreynd að ábyrgð á heimilishaldi hvílir enn að stórum hluta á konum. Þá er það áhyggjuefni að kynjamisrétti er viðhaldið með staðalímyndum kynjanna sem eru sterkari en nokkru sinni fyrr. Rannsóknir á viðhorfum grunnskólabarna gefa tilefni til að ætla að enn sé langt í land með að fólk sé metið útfrá hæfileikum en ekki kyni.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Stórt er spurt … en í einu orði sagt; afneitun! Mikil afneitun á því að alvarlegt kynjamisrétti er enn fyrir hendi og minna hefur breyst en við viljum stundum trúa. Bein mismunun á grundvelli kynferðis er stórfellt vandamál svo ekki sé talað um það misrétti sem fjölmargir hópar eru beittir; bæði af hálfu hins opinbera og á óformlegri sviðum þjóðlífsins. Ef ég horfi eingöngu til kynjamisréttisins, finnst mér sem samfélagið láti oft eins og við séum miklu lengra komin en við erum í raun og veru. Trúlega er þessi falska öryggiskennd að hluta til komin til vegna þess að lagaleg réttindi eru í höfn og femókratsiminn hefur skilað sínu. Þannig er misréttið dulbúnara nú en áður og auðveldara að afneita því. Eins er mjög sársaukafullt að horfast í augu við rífandi misrétti og skynja það á eigin skinni – þá er auðveldara að láta eins og ekkert sé og ástandið svo sem ekki svo slæmt!!! En afneitun er alltaf hættuleg; gleymum því ekki að mæður okkar og ömmur fæddust án kosningaréttar og án réttmæts arfshlutar og við búum við að samfélagið getur ekki einu sinni talið krónurnar rétt ofan í launaumslögin. Hvernig er þá staðan með minna áþreifanlega þætti eins og athyglissviptingu stúlkna í skólum eða kynniðrandi hlutverk stúlkna og kvenna í fjölmiðlum!!!

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Hvaða mál eru það eiginlega sem eru jafnréttismál? Ef átt er við stöðu kvenna sérstaklega, og þá andspænis stöðu karla, þá tel ég hana afar góða. Mér dettur ekkert annað land í hug þar sem einstaklingsfrelsi kvenna, félagslegt frelsi myndu sumir kalla það, er jafnmikið og hér á landi. Ég hef á tilfinningunni að hvergi sé jafnmikil samkennd með lífsviðhorfum kvenna og á Íslandi. Einstæðar mæður, útvinnandi mæður, mæður í námi og einstæðar, útvinnandi mæður í námi eru dæmi um konur í aðstæðum sem þekkjast jafnvel ekki að neinu marki í öðrum löndum. Íslensk kona, einhleyp eða ekki, hefur enga ástæðu til að láta nokkuð stoppa sig í að ná settu marki, og gerir það sjaldnast.

Ég veit hins vegar ekki hvort að íslenskar konur eru endilega hamingjusamastar allra kvenna. Ekki ætla ég að halda því fram að frelsi felist í helsi en sá á vissulega kvölina sem á völina. Allir vegir eru íslensku konunni færir. Ég vona að konur telji sér ekki trú um að þær þurfi að fara um þá alla.

2. Töluvert hefur verið kvartað undan ójöfnu hlutfalli kvenna og karla í stjórnmálum á Íslandi. Telur þú nauðsynlegt að þetta hlutfall sé sem jafnast og ef svo hvernig á að jafna þetta hlutfall?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Í stjórnmálum snúast stóru spurningarnar um þróun samfélagsins, um það hvernig við viljum sjá Ísland framtíðarinnar og hvernig við tryggjum sem best góðan hag okkar sem þjóðar og sem Jarðarbúa. Þessum spurningum þurfa bæði konur og karlar að svara og því á hlutfall kynjanna að vera sem jafnast í stjórnmálum. Ekki nægir kosningarétturinn einn og sér til að tryggja að sjónarmið kvenna skili sér, heldur þurfa konur að gefa kost á sér til jafns við karla í stjórnmálum, ástæðuna fyrir því að svo er ekki þurfum við að skoða nánar. Vera má að heimur stjórnmálanna sé nokkuð staðnaður og höfði ekki nægilega vel til kvenna og að það geti að einhverju leiti skýrt ójafnt hlutfall kynjanna. Góðu fréttirnar eru að tími endurnýjunar í stjórnmálastarfsemi er kominn því við verðum að þróast í takt við tímann, hrista af okkur þær venjur í stjórnmálum sem ekki skila árangri og kalla af krafti til kvenna sem vilja sjá breytingar og láta til sín taka.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Ég tel æskilegt að þetta hlutfall sé sem jafnast. Sem stendur eru konur þriðjungur kjörinna fulltrúa á alþingi og þeim þarf því að fjölga. Hlutfallið er svipað í sveitarstjórnum. Það er hagur samfélagsins að sjónarmið beggja kynja séu álíka sterk þegar kemur að ákvörðunum um framtíð samfélagsins. Að mínu mati liggur ábyrgðin hjá flokkunum – þeir geta farið ýmsar leiðir til að tryggja þetta hlutfall við uppröðun á lista, hvort sem stillt er upp á listana af sérstökum nefndum eða farið í prófkjör. Hjá okkur í Vinstri-grænum settum við sérstakar prófkjörsreglur fyrir prófkjör á höfuðborgarsvæðinu sem allir þátttakendur samþykktu og mæltu fyrir um fléttulista. Velta má því fyrir sér hvort ná mætti enn meiri árangri t.d. með því að gera allt landið að einu kjördæmi. Þá yrði hlutur kynjanna á listum gegnsærri en nú er.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Svarið er einfaldlega bæði já og nei! Vitaskuld er algjörlega mikilvægt að bæði kyn komi að samfélagslegum ákvörðunum og að hið pólitíska vald sé ekki á hendi annars kynsins. Það er hins vegar varasamt að setja klárt samasemmerki milli magns og raunverulegra áhrifa og þó svo að konum hafi fjölgað í stjórnmálum, vitum við að valdið getur flutt sig um set og er núna fremur í viðskiptaheiminum en á Alþingi! Það breytir því þó ekki að pólitískir flokkar verða að axla ábyrgð á að bæði kyn veljist til ábyrgðar; tímabundinn kynjakvóti er heiðarleg tilraun og slík formbreyting gæti gagnast ágætlega næstu árin. Svo étur byltingin börnin sín og þá er bara að leita að næsta leiðarvísi.

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Nei, ég tel ekki nauðsynlegt út af fyrir sig að hlutfall kynja í stjórnmálum sé sem jafnast. Ef ég ætti að velja á milli Katrínar Jakobsdóttur og Illuga Gunnarssonar sem fulltrúa minn á Alþingi kysi ég Illuga. Því skyldi ég þá ætla öðrum að kjósa Katrínu í þeim tilgangi að viðhalda jöfnu hlutfalli kynja á Alþingi? Ef ég stæði frammi fyrir vali á milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra Reykjavíkur veldi ég Hönnu Birnu. Nú kann einhver að segja að þessi dæmi séu hallærisleg því ég standi augljóslega með mínum flokkssystkinum. En það er einmitt lóðið, - ég, og vonandi aðrir kjósendur, stend með þeim stjórnmálamönnum sem standa mér næst í hugsjónum og hugmyndafræði. Láti menn önnur sjónarmið ráða för er hætt við að menn missi sjónar á eðli og markmiðum lýðræðisins.

3. Hver telur þú að sér skýringin á því að störfin sem lengi hafa verið talin hefðbundin kvennastörf, s.s. uppeldis og ummönnunarstörf séu meðal þeirra lægst launuðu í dag?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Ég held að við höfum enn ekki áttað okkur á og viðurkennt mikilvægi hefðbundinna kvennastarfa og að hluti af skýringunni felist í menningarlegu misræmi. Áður fyrr tengdist verðmætasköpun samfélagsins fyrst og fremst hráefnaöflun og nýtingu þeirra. Þeir sem bjuggu til fjármuni uppskáru í takt við það. Verðmætasköpunin hvíldi á körlunum sem voru sterkari en konur og ekki bundnir við heimili og uppeldi barna sem var verksvið kvennanna. Í dag fer mikilvægasta verðmætasköpunin fram í skólum og á heimilum landsins. Auðlindir þjóðarinnar eru fólgnar í fólkinu okkar og ekki síst börnunum. Hugvit, þekking og skapandi kraftur einstaklinganna eru þau hráefni og verðmæti sem við munum byggja á til lengri tíma því framfarir verða knúnar áfram af menntun, þekkingu, vísindum og rannsóknum. Við endurmat á kvennastörfum þurfum við að taka tillit til þessa. Við eigum að gera miklar kröfur til þeirra sem sinna þessum störfum og um leið að veita starfsmönnunum þann sess, þau laun og þá virðingu sem þeir eiga skilið. Í mínum augum eru t.d. góðir kennarar í dýrðlingatölu og ég trúi því að við berum gæfu til að meta störf þeirra að verðleikum í framtíðinni. Hitt er annað að störf í mennta- og heilbrigðismálum eru í miklum meirihluta á vegum hins opinbera. Kjarasamningar og opinberir launataxtar eru ósveigjanlegra kjaraform en einstaklingsbundnir samningar eins og tíðkast í einkageiranum. Við eigum að hugsa rekstarformið upp á nýtt og hvetja til aukinnar nýsköpunar á þessum sviðum. Í þriðja lagi má nefna að rannsóknir hafa sýnt að konur eru ekki eins kröfuharðar og karlar þegar kemur að því að semja um laun og hlunnindi.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Við búum við aldagamalt misrétti í samfélaginu þar sem vinnuframlag kvenna er minna metið en karla. Við búum líka í samfélagi sem virðist meta menntun barna og umönnun sjúkra mun minna en umsýslu fjármuna enda hafa hægristjórnir verið hér við völd megnið af lýðveldistímanum og sérstaklega á seinustu árum hafa gildi markaðarins verið í hávegum höfð á kostnað húmanískra gilda.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Einfalt mál; hrein og opinská afleiðing af kynjamisrétti! Bæði eru verk sem konur vinna, talin minna virði en verk piltanna og eins er allt sem tilheyrði hinu gamla kynhlutverki kvenna, álitið lítils virði – hver svo sem vinnur verkið. Að auki höfum við lent í nokkrum gryfjum með kvennastörfin. Ég hef starfað á þessum vettvangi í 30 ár og enn er sama þráteflið í gangi; alltaf rætt um að hækka launin og bæta kjör kvennastéttanna – en ekkert breytist. Ég hef líkt hlutskipti okkar í dag við vinnukonur fyrri tíma en við erum vinnukonur kerfisins og þar er hnútur sem má höggva á til að raska þráteflisjafnvæginu. Aukinn þátttaka kvenna í að reka sjálfar eigin störf í stað þess að vera settar undir hin stóru opinberu kerfi er að mínu mati gífurlega mikilvæg leið til að valdefla konur og kvennastörfin og getur orðið til þess að breyta verðmætamatinu á þeim. Vissulega ekki eina leiðin en svo sannarlega mikilvægur áfangi í kvenfrelsisbaráttunni.

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Tvímælalaust má rekja það til þess að þessi störf eru á hendi hins opinbera. Stjórnmálamenn hafa líka gert það að sínu metnaðarmáli að tala niður þessi störf með endalausu staðhæfingum um að þessi þjónusta eigi að vera ókeypis. En hvað er ókeypis? Ekkert nema það sem er verðlaust. Þessi óraunhæfu tilboð stjórnmálamanna hafa leitt til þess að margir eru hættir að sjá hin fjárhagslegu verðmæti sem í þjónustunni eru fólgin. Fyrirheit um gjaldfrjálsan leikskóla er dæmi um þessa veruleikafirringu. Vilji konur í þessum störfum rétta sinn hlut, fjárhagslega, þurfa þær að setja merkimiða á vinnu sína og bjóða hana fleirum en einum kaupanda.

4. Finnst þér launamunur kynjanna eiga sér eðlilegar og ásættanlegar skýringar eða er munurinn óásættanlegur?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Munurinn er óásættanlegur. Hvergi er atvinnuþátttaka meiri meðal kvenna en á Íslandi, en um 80% kvenna vinna utan heimilis. Konur fá um 64% af tekjum karla og skýrist það m.a. af því að karlar vinna að jafnaði lengri vinnuviku utan heimilis og færri karlar eru í lægst launuðu störfunum. Ef tillit er tekið til þessara þátta þá er enn til staðar óútskýrður launamunur um 10-12% skv. flestum þeim rannsóknum sem birtar hafa verið undanfarin misseri. Auk þess eru hefðbundin kvennastörf ekki nógu hátt metin og það þurfum við að leiðrétta.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Munurinn er að sjálfsögðu óviðunandi með öllu. Hann byggir á aldagömlu misrétti sem tekur tíma að breyta en á honum eru engar náttúrulegar skýringar enda konur engu minni menn en karlar.Við tilheyrum öll þessu samfélagi þar sem ákveðið kynjakerfi er inngróið og þess vegna skiptir líka máli að samfélagið taki ábyrgð á að leiðrétta launamuninn en ábyrgðin sé ekki eingöngu lögð á herðar einstaklinga.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Vitaskuld er þessi kerfisbundna mismunun óásættanleg að öllu leyti sbr. svarið hér á undan. Margar skýringar eru til og auk þeirra sem ég hef þegar nefnt, skiptir líka máli að samfélagið lítur enn á laun kvenna sem aukalaun heimilisins og að karlarnir beri ábyrgðina á að skaffa aðallaunin. Konurnar njóta síðan bæði og gjalda fyrir að vera í aðalhlutverkinu við heimilishaldið og fjölskyldulífið en þá eru karlarnir í aukahlutverkinu. Þessi innbyggða kerfisvilla veldur alvarlegum afleiðingum!

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Mér sýnist að kjarakönnunum að kynbundinn launamunur eigi sér eðlilegar skýringar að mestu leyti, s.s. vinnutíma, starfsaldur, vinnu utan vinnutíma o.s.frv. Það er hins vegar afar villandi að halda því fram að með launakönnunum sé hægt að staðhæfa um einhvern mun í prósentum talið. Aldrei er hægt að taka tillit til allra þeirra þátta sem laun yfirleitt byggja á. Þeir þættir eru svo margvíslegir og mismunandi eftir störfum. Ég ætla nú samt ekki að útiloka að sá stjórnandi sé ekki til sem markvisst borgi starfsmönnum sínum laun eftir kyni og borgi konum lægri laun. En ég held að þeir séu fleiri stjórnendurnir sem falla í þá gryfju að mismuna starfsfólki sínu eftir öðrum annarlegum sjónarmiðum, s.s. frændsemi, útliti, áhugamálum og jafnvel stjórnmálaskoðunum. Markaðurinn, sem margir vinstri menn agnúast út í, sér hins vegar til þess að fyrirtæki slíkra stjórnenda dragast fljótt aftur úr.

5. Telur þú nauðsynlegt að beita sértækum aðgerðum til að jafna laun kynjanna?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Já.  Margar hugmyndir hafa verið ræddar um hvernig eigi að jafna þennan launamun.  Ein er sú að endurskoðendur fyrirtækja veiti sérstaka vottun þeim fyrirtækjum sem ekki hafa óútskýrðan launamun. Þessi vottun gæti nýst fyrirtækjunum í keppni um góða starfsmenn og viðskiptavini.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Mjög lítið hefur þokast í þessum efnum.  Þegar allar breytur hafa verið reiknaðar inn í dæmið, t.d. að karlar vinna lengri vinnudag og eru almennt í störfum sem eru betur launuð (en það er ekki heldur neitt náttúrulögmál) stendur samt eftir að launamunurinn er á bilinu 7 til 18% og sá munur verður ekki skýrður með neinu öðru en kyni. Samkvæmt rannsóknum kemur þessi munur ekki síst fram í hlunnindum, fríðindum og óunninni yfirvinnu þannig að hann er að mörgu leyti dulinn. Í rannsókn sem félagsmálaráðuneytið lét gera árið 2006 þar sem tekið var tillit til starfsstéttar, aldurs, starfsaldurs og vinnutíma var óútskýrður munur á launum karla og kvenna  15,7%, þ.e. konur voru með 15,7% lægri laun en karlar, en munurinn var 16% árið 1994. Meðan hlutirnir þokast svona hægt áfram held ég að það sé full ástæða til að grípa til sértækra aðgerða, til dæmis með því að afnema launaleynd og gefa Jafnréttisstofu heimildir og mannafla til að tryggja það að fyrirtæki fylgi jafnréttislögum. Raunar má velta fyrir sér hvaða réttlæting sé yfirleitt á launaleynd; laun tengjast atvinnu manna en ekki einkalífi og varasamt að skilgreina þau sem einkamál hvers og eins. Í raun og veru er það ekki heldur þannig að enginn hafi aðgang að launum manns, valdaaðilar hafa hann ævinlega. Á meðan allir segjast vilja rétta launamuninn en lítið gerist raunverulega hljóta sértækar aðgerðir að koma til skoðunar þó þær séu aldrei fyrsti kostur.

 

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Það verður að ráðast á garðinn á öllum hugsanlegum stöðum og með öllum mögulegum áhöldum. Engin ein leið er einhlít og engin ein dugar – en það á ekki að halda okkur frá að reyna. Þetta er jafnmikið grundvallaratriði í kvenfrelsisbaráttunni og að auka styrk og þor stúlkna frá blautu barnsbeini. Ef þú getur ekki brauðfætt þig og þína, ertu í fjötrum!

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Nei.

6. Hver er þín skoðun á kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Umræða um kynjakvóta er í vissum skilningi andstæð hugmyndinni um frelsi einstaklingsins.  Hver og einn á að njóta verðleika sinna hvort sem viðkomandi er karl eða kona.  Á sama tíma þekki ég styrk kvenna og því er ástandið óásættanlegt. Fyrr í mánuðinum voru birtar niðurstöður þar sem fram kom að einungis 10% stjórnarsæta fyrirtækjanna í Kauphöllinni eru skipuð konum og í 120 stærstu fyrirtækjum landsins skipa konur 13% stjórnarsæta. Sjónarmið kvenna eru mikilvæg í stjórnun fyrirtækja og því þurfa þær að sitja við ákvarðanatökuborðið. Ef ekki þokast hratt í þessum málum í náinninn framtíð er ég tilbúin að endurskoða afstöðu mína til kynjakvóta í þessu samhengi.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Ég tel að þeir geti átt rétt á sér ef við viljum í raun tryggja völd kvenna í samfélaginu þó að æskilegast væri að fyrirtækin tækju sjálf við sér.  Reyndar tel ég að fyrirtæki myndu hagnast á því að fá fleiri konur í stjórnir sínar enda hlutfall þeirra núna allskýr vitnisburður um gamaldags hugarfar valdsmanna í atvinnulífinu. Þó hafa hlutirnir mjakast í rétta átt en í nýrri rannsókn frá Rannsóknasetri vinnuréttar í Háskólanum í Bifröst kemur fram að konur skipa heil 13% stjórnarsæta árið 2008 en hlutfall kvenna var 8% árið 2007. Þetta er auðvitað afar lágt hlutfall þó að þróunin sé upp á við.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Þetta er já og nei svar, rétt eins og með stjórnmálin. Vissulega getur gagnast tímabundið að setja slíkt á en getur þó reynst tvíeggja vopn. Bæði er ég alltaf efins um forræðislausnir þar sem verið er að þvinga fram niðurstöður og eins getur vopn af þessu tagi snúist gegn þeim sem síst skyldi. Eru konur t.d. til í að gangast undir kynjakvóta og fá karla inn í stjórnun þeirra fáu sviða sem enn eru á forræði kvenna? Hins vegar er ég sannfærð um gildi þess að halda uppi öflugri umræðu og að auka vitund okkar allra um að hverju fyrirtæki sé fyrir bestu að standa sig í jafnréttismálum. Neytendur ættu að athuga jafnréttisstöðu þeirra fyrirtækja sem þeir skipta við og láta siðlegar forsendur ráða fremur en einvörðungu verðlagnnguna!

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Kjörstaða margra fyrirtækja væri að hafa hlutfall kynja í stjórn sem jafnast. Það er jafnvel hluti af markaðssetningu sumra fyrirtækja að skipa málum sínum þannig. Hjá öðrum fyrirtækjum skiptir það kannski engu máli. Ég tel mikilvægast að stjórn hvers fyrirtækis skipi fulltrúar eigenda með þekkingu á þeim sviðum sem fyrirtækið þarf á að halda.

7. Hvaða markmiðum ættum við að stefna að í jafnréttismálum fyrir árið 2015, þegar 100 ár verða liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi?

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks

Ég vil sjá Ísland taka forystu í jafnréttismálum á heimsvísu. Greina þarf þau atriði í jafnréttisbaráttunni sem betur mega fara og vinna markvisst í að leiðrétta þau með aðgerðaáætlun til ársins 2015. Til þess að ná árangri þurfum við að skoða undirliggjandi þætti sem gætu skýrt hvers vegna konur njóta enn ekki jafnréttis á við karla. Meðal þessara undirliggjandi þátta er hið flókna samspil mismunandi hlutverka sem þarf að sinna í samfélaginu. Sem dæmi má nefna að líklega sinna foreldrar á flestum heimilum a.m.k. þremur störfum, þ.e. hennar starfi, hans og þeirra. Það síðast nefnda felst í uppeldi, heimilisstörfum, aðhlynningu fjölskyldunnar og jafnvel stórfjölskyldunnar, samfélagsþjónustu, tómstundastarfi fjölskyldunnar, innkaupum og svo mætti lengi telja. Þessum verkþáttum er meira sinnt af konum en körlum. Við þurfum að nota aðferðir vísindanna til að skilja betur þetta samhengi og meta í því ljósi hvernig samfélagsþróun við viljum sjá. Mikilvægt er að við áttum okkur á þeim þáttum sem þarf að skipuleggja betur í umhverfinu til að hlúa að jafnrétti í víðum skilningi.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna

Að launamunur kynjanna verði liðin tíð og uppeldis- og umönnunarstörf verði meira metin í samfélaginu. Að valdahlutföll kynjanna í samfélaginu verði sem jöfnust, bæði hvað varðar formleg völd og í einkalífinu. Að líkami kvenna verði ekki álitin söluvara og við tökum fulla ábyrgð á baráttunni gegn mansali.

 

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Þessum öllum og miklu miklu fleirum! Hvað með uppeldi og menntun stúlkna, hvað með ofbeldið og kynniðrunina … Stefnum og vinnum að þúsund markmiðum með þúsund ólíkum lausnum og munum alltaf að jafnréttis- og kvenfrelsisbarátta er ekki bara kerfislausnir, heldur eldur sem heitast brennur á þeim sem reyna á eigin skinni og hver og ein verður að berjast sinni baráttu á sínu sviði – og svo hníga öll vötn að lokum í eina átt.

Sigríður Ásthildur Andersen

Sigríður Ásthildur Andersen, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Að staðalímyndir hinnar svokölluðu kvenréttindabaráttu, eða jafnréttisbaráttu, undanfarinna ára verði horfnar.