Fækkum sýslumannsembættum

#1 - 31-10-2003

Að undanförnu hafa verið viðraðar skoðanir um fækkun sýslumannsembætta. Sýslumannsembætti landsins eru alls 26 sem verður að teljast þónokkur fjöldi. Af hverju eru þau svona mörg? Er einhver rökræn skýring á því eða eru aðrir þættir sem spila þar inn í?
Sýslumenn gegna veigamiklu hlutverki í íslenska stjórnkerfinu, sérstaklega utan Reykjavíkur þar sem þeir fara með lögreglu- og ákæruvald auk tollamála.


Önnur mál þar sem sýslumenn koma við sögu eru m.a. sifja- og erfðaréttarmál, þinglýsingar, aðför, kyrrsetning, lögbann, nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti.
Ekki verður efast um mikilvægi sýslumanna í íslensku stjórnkerfi. Þeir gegna veigamiklu hlutverki sem fulltrúar ríkisvaldsins í héraði, sjálfsagt er sá maður ekki til sem aldrei hefur haft samskipti við sýslumannsembætti á sinni lífstíð.
Fyrir fyrsta júlí 1992 var hlutverk sýslumanna enn stærra en það er í dag. Þá fóru þeir með dómsvald í héraði, Reykjavík var eina undantekningin í þeim málum. Ef við horfum enn lengra til baka hafa sýslumenn sjálfsagt gegnt miklu stærra hlutverki. Sýslumenn voru etv. eini fulltrúi ríkisvaldsins sem borgararnir höfðu samskipti við á lífsleiðinni og voru nokkurs konar leiðtogar í sínum héröðum sem þeir eru etv. í smærri byggðarlögum í dag. Saga sýslumannsembætta er löng og samofin sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir mikilvægi þeirra og sögulegri hefð embættanna er tími kominn til breytinga.
Í dag eru samgöngur aðrar og betri en fyrir nokkrum áratugum síðan, rafræn stjórnsýsla hefur rutt sér til rúms og fólk flýr af landsbyggðinni á mölina. Því spyr undirritaður: „Hvers vegna eru sýslumannsembættin svona mörg?“ Er ekki hægt að fækka þeim? Ef undirritaður man rétt þá eru níu sýslumannsembætti í Noregi en eins og menn vita þá er Noregur stærra og fjölmennara ríki.
Undirritaður var í starfsþjálfun hjá Sýslumanninum á Akureyri síðasta sumar. Það embætti hefur um þrjátíu starfsmenn og hefur sýslumaðurinn fjóra fulltrúa sem eru sérhæfðir, þ.e. þeir sjá um vissa málaflokka þannig að viss sérfræðiþekking skapast. Sýslumaðurinn á Akureyri sér einnig um Dalvík sem hefur í kringum 1300-1400 íbúa. Á Dalvík er útibú frá sýslumanninum sem tekur við skjölum og sér um önnur léttari mál, það útibú verður þó sennilega einn daginn lagt niður. Frá Sýslumanninum á Akureyri er sendur einn fulltrúi í viku, eftir hádegi á miðvikudögum, til að sjá um málefni Dalvíkinga, nægir það þeim.
Í næsta „stóra” byggðarlagi, Ólafsfirði, er sýslumaður!!! Íbúar Ólafsfjarðar eru í kringum 900, landfræðilegt umdæmi embættisins er hlægilegt og það eru ekki nema u.þ.b. 20 km. til Dalvíkur frá Ólafsfirði. Hvaða rök búa að baki þessari skipan? Undirrituðum dettur engin góð rök í hug fyrir því hvers vegna Sýslumaðurinn á Akureyri tekur ekki yfir Ólafsfjörð eins og hugmyndir voru uppi um. Fyrir nokkrum áratugum var hægt að réttlæta tilvist Sýslumannsins á Ólafsfirði með tilvísun til landfræðilegrar einangrun staðarins. Sjóleiðin var eina leiðin sem fær var. Samgöngumálin löguðust þó nokkuð mikið þegar Ólafsfjarðarmúlinn kom, hvað þá þegar Ólafsfjarðargöngin voru opnuð. Í dag eru engin landfræðileg rök að baki tilvist sýslumannsembættisins á Ólafsfirði. Einu hvatarnir sem hljóta að liggja að baki þessari skipun mála eru einhvers konar annarlegar atkvæðasmölunarkenndir.
Sýslumaðurinn á Ólafsfirði er gott dæmi um galla kjördæmisfyrirkomulagsins við Alþingiskosningar og dæmi um peningasóun í opinberri stjórnsýslu. Einnig má spyrja sig hvers vegna er sýslumaður á Bolungarvík? Er ekki Bolungarvík örfáa kílómetra frá Ísafirði? Svo mætti lengi telja.
Ekki má gleyma sérfræðiþekkingunni í þessu samhengi. Getur einhver sérfræðiþekking skapast hjá svona litlum embættum? Það hlýtur að liggja í augum uppi að borgarinn fær að meginstefnu til betri þjónustu hjá stærri og öflugum sýslumannsembættum.
Að þessu sögðu ætlar undirritaður að skora á Björn Bjarnason að fækka sýslumönnum um a.m.k helming.Rauði krossinn

#2 - 09-11-2003

Henry Dunant var merkilegur maður. Þessi bankamaður sem var með allt niðrum sig setti fram hugmynd að félagi sem hvert einasta mannsbarn ætti að þekkja. Félagið nefnist Rauði krossinn.


Stofnun rauða krossins er rakin til rits fyrrnefnds Dunants, Souvenir de Solferino, sem kom út árið 1862. Það rit fjallar um þær hörmungar sem Dunant varð vitni að í orrustunni við Solferino á Norður-Ítalíu árið 1859. Í því riti setti Dunant fram hugmyndir um einhvers konar mannúðarfélag sem annaðist ummönnun særðra á stríðstímum. Lögfræðingurinn Gustave Moynier las rit þetta og var djúpt snortinn, útfærði hann hugmyndina um mannúðarfélag þetta. Fyrsti fundur þess var haldinn í febrúarmánuði 1863 að viðstöddum Dunant, sem varð ritari félagsins.
Það er ekki nóg með að Dunant setti fram hugmynd að mannúðarfélagi heldur setti hann einnig fram hugmyndir um hvort ríki Evrópu gætu ekki komið sér saman um sameiginlegar reglur um meðferð særðra í stríðum sem væru bakkaðar upp með einhvers konar viðurlögum. Genfarasáttmálarnir eru arfleifð þessarar hugsunar. Tveir fyrstu sáttmálarnir fjalla einmitt um meðferð særðra á vígvellinum. Ljóst er því að hugsun Dunants og arfleifð hennar er ómetanleg fyrir alþjóðasamfélagið og hefur haft djúpstæð áhrif á mannúðarhluta stríðsréttarins.
Í dag er Rauði krossinn gríðarlega öflugt og vel skipulagt félag með starfsemi út um allan heim. Tilgangur hans er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hann vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða. Hann gerir engan mun á milli manna eftir þjóðerni þeirra, kynþætti, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Hann reynir að draga úr þjáningum einstaklinga og tekur þá eingöngu tillit til þarfa hvers og eins en veitir forgang þeim sem verst eru staddir. Hann gætir hlutleysis í ófriði og tekur aldrei þátt í deilum vegna stjórnmála, kynþátta, trúarbragða eða hugmyndafræði.


Hann er borinn uppi af sjálfboðnu hjálparstarfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon.
Um daginn var gerð hryðjuverkaárás á höfuðstöðvar Rauða krossins í Baghdad. Tveir starfsmenn létu lífið og tíu óbreyttir borgarar. Árás þessi hlýtur að vekja undrun og viðbjóð allra hugsandi manna hvar sem þeir í flokki standa. Að gera árás á samtök sem hefur það að yfirlýstu markmiði að vernda líf og heilsu manna er ekkert annað en árás á sjálfa mannúðarhugsjónina. Árás þessi er reyndar einnig brot á alþjóðalögum en Rauði krossinn nýtur verndar skv. Genfarsáttmálunum og þjóðréttarvenju. Hvað sem líður reiði íraskra andspyrnuhreyfinga yfir veru erlends herliðs í landi þeirra þá er ekki rétta leiðin að gera árás á hjálparsamtök sem reyna að stuðla að betri ástandi í heimalandi þeirra og njóta þar að auki verndar í hvívetna skv. alþjóðalögum.
Er árás þessi hér með fordæmd af hálfu Deiglunnar.Inngangur að mannréttindum

#3 - 20-11-2003

french_revolution.jpgHugtakið mannréttindi heyrist oft á tíðum í umræðunni. Hinir og þessir aðilar slengja hugtakinu fram líkt og það sé tromp í spilum. Virðist svo vera að þessir sömu aðilar hafi oft á tíðum takmarkaða hugmynd um hvað þeir eru að segja. Verður hér á eftir reynt að útskýra hugtakið í örstuttu máli.
french_revolution.jpgHugtakið mannréttindi heyrist oft á tíðum í umræðunni. Hinir og þessir aðilar slengja hugtakinu fram líkt og það sé tromp í spilum. Virðist svo vera að þessir sömu aðilar hafi oft á tíðum takmarkaða hugmynd um hvað þeir eru að segja.
Verður hér á eftir reynt að útskýra hugtakið í örstuttu máli.Rekja má hugmyndina um mannréttindi til forn-grískra náttúruréttarhugmynda um að einstaklingurinn fæðist með viss réttindi sem verða ekki frá honum tekin. Í upplýsingunni fóru menn að gæla við þessar hugmyndir á nýjan leik með þekktum afleiðingum. Á alþjóðavettvangi varð sprenging eftir seinni heimsstyrjöldina í þessum málaflokki aðallega fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna.
Greina má mannréttindi niður í þrjá flokka.
Fyrsta stigs mannréttindi. Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eða svokölluð neikvæð mannréttindi. Þessi tegund mannréttinda kalla á aðgerðarleysi af hálfu ríkisins. Borgararnir eru sem sagt frjálsir frá ríkinu, dæmi um slík réttindi eru rétturinn til lífs, meginreglan um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, reglan um að menn skuli teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð, tjáningarfrelsi, vernd eignaréttins og félagafrelsi. Reyndar eru dæmi um vissar tegundir fyrsta stigs réttinda sem kalla á aðgerðir ríkisvaldsins t.d. verður ríkið að skipuleggja og kosta réttarkerfi til að einstaklingar geti notað réttlátrar málsmeðferðar. Í 63-74. gr. íslensku stjórnarskrárinnar eru ákvæði sem flokkast sem fyrsta stigs mannréttindi.
Annars stigs mannréttindi. Efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi eða svokölluð jákvæð réttindi. Þessi tegund mannréttinda kalla á aðgerðir af hálfu ríkisins og oft á tíðum mikil fjárútlát. Gott dæmi um slík réttindi birtast í 76. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Þar kemur fram að öllum sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, enn fremur að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi og að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Slík réttindi eru í 75.-77. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Stundum eru réttindi þessi nefnd lúxus vesturlanda.
Þriðja stigs réttindi. Hópréttindi. Þessi tegund hefur verið að ryðja sér rúms síðustu áratugina. Dæmi um slík réttindi eru sjálfsákvörðunarréttur þjóða og umhverfisréttindi. Engin dæmi eru um slík réttindi í íslensku stjórnarskránni.
Eins og áður segir hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt sitt af mörkum til þróunar á þessu sviði. Eitt fyrst verk Sameinuðu þjóðanna eftir seinna stríð var að setja fram mannréttindayfirlýsing, betur þekkt sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Sú yfirlýsing er gríðarlega merkilegt plagg þó hún sé ekki lagalega bindandi. Má segja að yfirlýsingin hafi markað stefnu mannréttindastarfs Sameinuðu þjóðanna. Aðrir helstu alþjóðasamningar er varða mannréttindi eru: Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, Alþjóðasamningurinn um afnám alls kynþáttamisréttis, Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Alþjóðasamningurinn um stöðu flóttamanna.
Sá mannréttindasáttmáli sem ber höfuð og herðar yfir aðra sáttmála er Mannréttindasáttmáli Evrópu, geta verður þó þess að hann er svæðisbundinn. Það sem er sérstakt við hann er að sáttmálinn er bakkaður upp af dómstóli sem borgarar aðildarríkja samningsins, að vissum skilyrðum uppfylltum, geta kært úrlausnir dómstóla aðildarríkjanna til hans. Aðildarríki samnigsins geta reyndar klagað önnur aðildarríki en það hefur sárasjaldan gerst.
Tekið skal fram að mannréttindi og mannúðarréttur eru ekki það sama þó um skyld réttarsvið séu að ræða. Skilyrði fyrir því að reglur mannúðarréttarins séu gangsettur eru þau að vopnuð átök hafi brotist út þ.e. styrjöld milli ríkja eða borgarastyrjöld.
Vonast undirritaður til að lesendur séu einhverju nær og ætlar sá hinn sami að gera brot úr inngangsorðum Mannréttindasáttmála Evrópu að lokaorðum sínum:


Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa samning þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu, lýsa á ný eindreginni trú sinni á það mannfrelsi, sem er undirstaða réttlætis og friðar í heiminum og best er tryggt, annars vegar með virku, lýðræðislegu stjórnarfari og, hins vegar, almennum skilningi og varðveislu þeirra mannréttinda, sem eru grundvöllur frelsisins.Stjórnarskrárbreytingar

#4 - 22-02-2004

Skjaldamerki2.jpgBreytingar á stjórnarskrá Íslands hafa komið til tals að undanförnu. Hafa þær hugmyndir einkum snúist um hlutverk Forsetans og skemmtanafrelsi. Hins vegar hefur ekki komið til tals að undanförnu að bæta við tveimur ákvæðum sem hafa yfir sér alþjóðlegt yfirbragð og löngu er tímabært að bæta við. Fyrra ákvæðið er um beinar heimildir til framsals ríkisvalds við gerð þjóðréttarsamninga og hið síðara um skerðingu mannréttinda á hættutímum.
Skjaldamerki2.jpg Breytingar á stjórnarskrá Íslands hafa komið til tals að undanförnu. Hafa þær hugmyndir einkum snúist um hlutverk Forsetans og skemmtanafrelsi. Hins vegar hefur ekki komið til tals að undanförnu að bæta við tveimur ákvæðum sem hafa yfir sér alþjóðlegt yfirbragð og löngu er tímabært að bæta við. Fyrra ákvæðið er um beinar heimildir til framsals ríkisvalds við gerð þjóðréttarsamninga og hið síðara um skerðingu mannréttinda á hættutímum.
Stjórnarskráin er æðsta réttarheimild íslensks réttar. Hún trompar allar aðrar réttarheimildir t.d. sett lög frá Alþingi. Erfiðara er að breyta henni heldur en almennum lögum. Ef tillaga til breytingar á henni nær fram að ganga skal rjúfa þing þá þegar og boða til kosninga. Ef næsta þing staðfestir tillöguna óbreytta öðlast hún gildi. Stjórnarskrárgjafinn er því tvö þing. Af ofangreindum orsökum er ljóst að menn eru ekkert að breyta stjórnarskránni að gamni sínu. Þær reglur sem settar eru í hana eru hugsaðar til langframa. Stjórnarskráin er því augljóslega ekki ætluð undir stundarflipp og glens ráðamanna.


Bein heimild til framsals ríkisvalds við gerð þjóðréttarsamningaAlþjóðalög hafa verið að blása út í alþjóðlegri heimi enda eiga lögin að endurspegla raunveruleikann. Alþjóðleg samvinna verður sífellt viðameiri, fólk ferðast meira á milli ríkja, viðskipti milli ríkja verða sífellt meiri, alþjóðlegum stofnunum fer sífellt fjölgandi o.s.frv. Alþjóðlegar stofnanir hafa fengið æ meiri völd, sumar jafnvel yfirþjóðlegt vald t.d. ESB.
Íslenska ríkið aðhyllist svokallaða tvíeðliskenningu þ.e. að landsréttur sé eitt og alþjóðalög annað. Til að alþjóðalög hafa eitthvert vægi í landsrétti þarf að innleiða þau, þ.e. þýða þau á íslensku og gera að lögum, hvort sem er að heildstæðum lagabálki líkt og gert var við Mannréttindasáttmála Evrópu eða setja ákvæði inn í lagabálka. Önnur kenning nefnist eineðliskenningin. Sú kenning gengur út á að alþjóðalög og landsréttur séu eitt. Hollenska ríkið aðhyllist hana t.a.m.
21. gr. stjórnarskrárinnar er í samræmi við tvíeðiskenninguna en þar segir: „Forseti lýðveldisins [utanríkisráðherra] gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“


Í íslensku stjórnarskránni er hins vegar ekkert ákvæði um beina heimild til framsals ríkisvalds til erlendra eða alþjóðlegra aðila eins og er í stjórnarskrám nágrannaríkja okkar sbr. 33. gr. finnsku stjórnarskrárinnar, 93. gr. norsku grunnlaganna, 5. gr. 10. kafla sænsku stjórnarskrárinnar. Ákvæði þessi fjalla um það þegar ríkið lætur einhvern annan aðila hafa völd, t.d. löggjafarvald, sem síðan sá aðili notar og getur knúið framseljandann til að fara eftir. Samkvæmt þessum ákvæðum þarf mikill meirihluti þingheims að samþykkja framsal ríkisvaldsins. Fyrrnefnd ákvæði komu inn í stjórnarskrá frændþjóða okkar löngu áður en þarlendir ráðamenn fóru að huga að inngöngu í ESB.
Íslenska ríkið hefur oft á tíðum framselt talsvert ríkisvald til alþjóðlegra aðila, t.a.m. Sameinuðu Þjóðanna en skv. 25. gr. stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna verða aðildarríkin að fara eftir ákvörðun Öryggisráðsins. EES samningurinn var mikið hitamál m.a. hvort að aðild Íslands færi í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um þrígreiningu ríkisvaldsins. Við fullgildingu EES-samningsins hjá fyrrnefndum frændþjóðum voru fyrrnefnd stjórnarskrárákvæði nýtt. Af einhverjum ástæðum töldu íslensk stjórnvöld og flestir ráðgjafar íslensku ríkisstjórnarinnar samninginn standast 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þó heyrðust aðrar raddir.
Hugmynd þessi að stjórnarskrárbreytingu felur ekki í sér fullveldisskerðingu heldur felur hún í sér umhyggja fyrir fullveldinu. Í dag getur einfaldur meirihluti þingmanna framselt ríkisvaldið hingað og þangað. Yrði það torveldað með þessari breytingu.


Skerðing mannréttinda á hættutímumNauðsynlegt getur verið að skerða mannréttindi á hættutímum, t.d. skerðing á tjáningarfrelsi fjölmiðla sökum öryggissjónarmiða. Slík ákvæði eru í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum t.a.m. 15. gr. Mannréttindassáttmála Evrópu og 4. gr. Alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er ekkert slíkt ákvæði. Eins og áður segir er stjórnarskrárin æðsta réttarheimild íslensks réttar. Geta því aðrar réttarheimildir ekki skert hana, þ.a.l. geta þessir samningar ekki skert þau réttindi sem getið er um í stjórnarskránni. Til stóð að setja ákvæði um skerðingu mannréttinda í íslensku stjórnarskránna við síðustu breytingu á henni en úr því varð ekki. T.a.m. beitti Íslandsdeild Amnesty International sér einhverja hluta vegna gegn slíku ákvæði.
Í íslenskum stjórnskipunarrétti er til svokallaður stjórnskipulegur neyðarréttur sem hægt er að grípa til þegar ríkið er að fara fjandans til. Felur þetta óljósa hugtak í sér m.a. skerðingu á mannréttindum. Ófært er að línur séu óskýrar í íslensku stjórnarskránni hvaða mannréttindi má skerða á hættutímum og hver ekki. Grundvallarreglur ríkja verða að vera skýrar sérstaklega þær reglur sem lúta að grunnréttindum borgaranna. Því hlýtur að teljast nauðsynlegt að festa ákvæði um skerðingu mannréttinda á hættutímum í stjórnarskránna. Líklegt er að fyrrnefnd ákvæði fyrrnefndra alþjóðasáttmála verði höfð að leiðarljósi. Sem dæmi þá segir í 15. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu:
1. Á tímum styrjaldar eða annars almenns neyðarástands, sem ógnar tilveru þjóðarinnar, getur samningsaðili tekið til ráðstafana sem víkja frá skyldum hans samkvæmt samningi þessum að því marki sem ýtrasta nauðsyn krefur til þess að firra áföllum, enda séu slíkar ráðstafanir eigi í ósamræmi við aðrar skyldur hans að þjóðarétti.


2. Ákvæði þetta skal þó í engu rýra gildi 2. gr.(Rétturinn til lífs), nema þegar mannslát verða vegna löglegra hernaðaraðgerða, né heldur gildi 3. gr. (Bann við pyndingum), 4. gr. (1. mgr.) (Bann við þrældómi og þrælkun) og 7. gr.( Engin refsing án laga)


3. Hver sá samningsaðili, sem neytir þessa réttar til undansláttar, skal láta aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs í té fulla vitneskju um þær ráðstafanir sem tekið hefur verið til svo og ástæður þeirra. Einnig skal hann tilkynna aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs um það þegar beitingu slíkra ráðstafana linnir og ákvæðum samningsins er á ný framfylgt að fullu.Hægt er að færa rök fyrir því að slíkt ákvæði í stjórnarskránni myndi auka mannréttindi þegnanna, þ.e. skýra óskýrar línur. Slíkt ákvæði myndi leiða til þess að ráðamenn geta ekki boycutað öll mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, pyntað og líflátið þegnanna án dóms og laga.
Ef til vill kann sumum að finnast að þetta ákvæði sé gjörsamlega óþarft. Það sé ekkert í náinni framtíð sem bendi til þess að allt fari fjandans til. Þeim er hægt að svara þannig, eins og hefur komið fram áður, að stjórnarskráin er hugsuð sem grundvallarplagg til langframa. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er, hvað þá þjóðríki.Getur forseti Íslands skuldbundið íslenska ríkið að þjóðarétti?

#5 - 20-06-2004

Mikið hefur verið rætt um hver völd forsetans séu að undanförnu. Hefur sú umræða aðallega snúist um heimild hans til að synja lögum frá Alþingi staðfestingu. Í næstu setningum verður kastljósinu beint frá áhrifum forsetans á innanríkismálum að mögulegum áhrifum forsetans á alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.
Mikið hefur verið rætt um hver völd forsetans séu að undanförnu. Hefur sú umræða aðallega snúist um heimild hans til að synja lögum frá Alþingi staðfestingu. Í næstu setningum verður kastljósinu beint frá áhrifum forsetans á innanríkismálum að mögulegum áhrifum forsetans á alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.
Ef 21. gr. og 1. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar eru lesnar og skýrðar saman er nokkuð ljóst að í íslenskum stjórnskipunarrétti er forsetanum ekki ætlað að hafa frumkvæði að samningum við erlend ríki. Í 21. gr. segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Tekið er þó fram að hann geti enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. Í 1. mgr. 13. gr. segir að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt. Ef 14. gr. reglugerðar um stjórnarráð Íslands og 2. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu eru skoðaðar er ljóst að utanríkisráðherra fer með vald það er kveðið er á um í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Í 2. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands segir að utanríkisþjónustan annast í umboði forseta samningagerðir við önnur ríki, nema þar frá sé gerð undantekning í lögum eða forsetaúrskurði. Í 14. gr. reglugerðar um stjórnarráð Íslands er m.a. tekið fram að utanríkisráðuneytið fari með mál, er varða skipti forseta Íslands og annarra þjóðhöfðingja, skipti við erlend ríki, samninga við önnur ríki og gerð þeirra og aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum, er varða opinbera hagsmuni og eigi ber undir annað ráðuneyti, samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar eða eðli máls.
Í 2. mgr. 7. gr. Vínarsamningsins um milliríkjasamninga frá 1969 sem íslendingar eru ekki aðilar að en er talin endurspegla þjóðréttarvenju sem íslendingar verða því að fylgja er kveðið á um hvaða aðilar sem fram koma fyrir hönd ríkis eru taldir hafa formlegt samningahæfi til þess að vera í fyrirsvari fyrir ríki án sérstaks heimildabréfs. Þeir sem taldir eru fyrst upp eru þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi. Er því hægt að ætla að forsetinn hafi samningshæfi að þjóðarétti. Þar sem að þeir sem hafa samningshæfi að þjóðarétti geta skuldbindið ríki skriflega sem og munnlega, sbr. dómur Fasta alþjóðadómstólsins í svonefndu Austur Grænlandsmáli frá 1933 (Danmörk gegn Noregi) og dómur Alþjóðadómstólsins í Haag í svokölluðu kjarnorkutilraunamáli frá 1974 (Ástralía og Nýja Sjáland gegn Frakklandi), getur forseti Íslands skuldbundið íslenska ríkið að þjóðarétti með yfirlýsingum sínum og undirskriftum.
Í þessu samhengi er þó ekki nóg að líta til 2. mgr. 7. gr. Huga verður að 46. gr. samningsins en þar segir að ríki geti ekki krafist ógildingar á samþykki sínu við samningsgerð á þeim grundvelli að það sé andstætt landslögum nema slíkt sé augljóst og varði grundvallarreglu þess. Samningur sem gerður er andstætt stjórnarskrá myndi falla innan ramma þessa ákvæðis enda eru grundvallarreglur bundnar í stjórnarskrám. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að forseti Íslands getur skuldbundið íslenska ríkið að þjóðarétti, hins vegar ættu raunverulegir valdhafar skv. íslenskum stjórnskipunarrétti að geta krafist ógildingar. Getur því sú undarlega staða komið upp að íslenska ríkið verði skuldbundið að þjóðarétti án þess að samningsgerðin standist íslensku stjórnarskrána ef ríkið krefst ekki ógildingar á samningnum.
Forseti Íslands getur skapað mikil vandræði fyrir íslenska ríkið ef hann fer að gefa yfirlýsingar um hitt og þetta og fer að skrifa undir hina og þessa samninga. Það hlýtur að teljast til álitshnekkis ef grípa þarf til ógildingarreglna vegna gjörninga þjóðkjörins þjóðhöfðingja.
Mikil ábyrgð fylgir því að taka þátt í kosningum. Hér að ofan hefur verið sýnt hvernig forsetinn getur skandaliserað með eftiminnilegum hætti á alþjóðavettvangi. Hvetur undirritaður því alla sem lesa þessar línur að hafa þetta dæmi í huga og vanda valið á laugardaginn næstkomandi þegar þjóðhöfðingi verður kjörinn.Frískur og fjörugur með Hemma Gunn

#6 - 25-06-2004

Hermann Gunnarson eða Hemmi Gunn er líklega þekktari fyrir kúnstir með bolta og þáttastjórnun heldur en listsköpun. Hemmi Gunn hefur hins vegar gefið út hljómplötur. Önnur þeirra er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Ber hún nafnið Frískur og fjörugur og er til marks um dúndrandi snilli mannsins á listasviðinu.
Hermann Gunnarson eða Hemmi Gunn er líklega þekktari fyrir kúnstir með bolta og þáttastjórnun en listsköpun. Hemmi Gunn hefur hins vegar gefið út hljómplötur. Önnur þeirra er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Ber hún nafnið Frískur og fjörugur og er til marks um dúndrandi snilli mannsins á listasviðinu.
Hemmi Gunn hefur ætíð verið mér hugleikinn. Má rekja það til þess að ég var svo heppinn á níunda aldursári að vera meðal áhorfanda hjá Hemma í þætti hans Á tali sem sýndur var á Ríkissjónvarpinu. Er sú reynsla greypt í miningunni enda frekar sérstakir gestir hjá Hemma það kvöldið t.a.m. tók feitasta hljómsveit í heimi lagið, Mammoth, og frægasta Michael Jackson eftirherma í heimi sýndi nokkur dansspor.
Það var svo ekki fyrr en á síðasta ári að leiðir okkar Hemma lágu saman aftur þegar ég komst í kynni við hljómplötu Hemma Frískur og fjörugur í teiti hjá félaga mínum.
Hljómplatan Frískur og fjörugur var gefin út árið 1984 og endurútgefin 1999 á geisladisk af útgáfufyrirtækinu Geimsteini. Rúnar Júlíusson kemur mikið að plötunni eða eins og Hemmi lýsir með eigin orðum: „Einn af æðstu prestum popptónlistar á Íslandi í áratugi Rúnar Júlíusson lék á mig eins og síamsköttur að kartöflumús, líkt og í knattspyrnunni og við reynum að gera gott úr öllu líkt og framleiðendur sælgætis.“
Hægt er að gagnrýna rýrt nýsköpunargildi plötunnar enda í raun einungis um endurvinnslu að ræða. En þvílík endurvinnsla. Það er einhvað rosalegt súrleikastuð yfirbragð yfir henni allri sem gerir hana ógleymanlega þeim sem á hlýða. Þetta er án efa ein allra undarlegasta plata sem undirritaður hefur heyrt. Hver var ásetningurinn með útgáfunni? Hvað voru Hemmi og Rúnni Júl að pæla? Hvers vegna gaf maður sem kann ekkert að syngja út sólóplötu? Hvað með að nota fleiri hljóðfæri en gítar, skemmtara og trommuheila? Hvers vegna er ekkert frumsamið efni á plötunni? Hvað er þetta með Gylfa Ægis? Spurningarnar eru óteljandi sem kvikna í huga manns við hlustun skífunnar. Hvað sem líður spurningunum fagna ég að platan skyldi koma út.
Umslagið á hljómplötunni er afar sérstakt. Framan á því er Hemmi hoppandi í fáránlegum gulum samfestingi með litaklessum og í bakgrunni er lítil stelpa sem horfir í átt til Hemma skælbrosandi. Bakhliðin er svipuð nema þar snýr Hemmi baki og gömul brosandi kona komin í bakgrunninn. Á þetta hulstur að vera til heiðurs dyggustu aðdáendum Hemma. Ekki má gleyma lesningunni sem fylgir disknum, dæmi:


„Listin (lystin) er hverful, sagði gömul kona í Keflavík einu sinni og bætti við, að þetta væri ágæt plata, en roskinn maður á Reyðarfirði sagði, að þetta væri lélegt. Svona er smekkur fólks misjafn, ef ekki er borðað með hnífapörum.“
Þorsteinn Eggertssonar snarar tveimur erlendum textum yfir á íslensku. Þýðingarnar eru tær snilli. Tökum dæmi af laginu Einn dans við mig:
Ég kom klukkan tólf


einn á ballið, til í skrallið,


fór inn á bar og settist þar.


Drakk og drakk, fór á flakk.


Það kostar puð


að koma sér í stuð.


„Ég er einn í kvöld.


Einn dans við mig?“
Klukkan eitt fylltist gólf.


Siggi, Kalli, Gummi, Njalli, Valli, Jósef (það matargat)


og fleiri komu en ég sat.


Ég reynd’ að drekka í mig kjark


í píuhark.


Það var minn tilgangur og mark.
Einn dans við mig


Einn dans við mig.


Einn dans við mig, mig, mig, mig, mig.


Einn dans við mig.
Á mig sveif; lalala!


Sigga, Magga, Rut og Ragga, Dagga, Svala, Jónína


Um allan sal...


Ég skal, ég skal...


Og svo var klukkan orðin tvö


-og þá fer ég í stuð.


Ég fæ mér einn og öskra Mööö!
Einn dans við mig?
Inn’ á bar


Tómt mas og þras


við að ná í glas.


„Halló beibí hvar er kallinn þinn í kvöld?


Kemur’ oft hingað?


Ertu ein?


Við skulum kýl’ á soldið gas.“
Einn dans við mig... o.s.frv.
Klukkan kortér í þrjú


stend ég upp – spá í frú.


Ég er fær í flestan sjó;


Hef drukkið nóg.


Markmiðið er


Að fá píu heim með mér.
Einn dans við mig... o.s.frv
Þetta er eitt af fáum lögum sem undirritaður hefur séð fólk hreinlega ganga af göflunum, dansa á borðum, hanga í ljósakrónum og fækka fötum svo eitthvað sé nefnt.
Svo virðist vera sem að afar erfitt sé að nálgast skífuna í höfuðborginni. Þau þrjú eintök sem ég hef keypt fundust í skúmaskotum Leifsstöðvar í búðinni sem selur íslenskar matvörur. Skora ég á Hemma og Rúnna að gefa fleiri eintök út af skífunni. Er ég sannfærður um að hún myndi rokseljast enda skífan löngu orðin sígild.
Áfram Hemmi!!!Góð og gild rök Björns Inga varðandi Íraksstríðið

#7 - 27-06-2004

Í marsmánuði fór fram málstofa í lagadeild Íslands þar sem umræðuefnið var framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Framsögumenn voru Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.
Í marsmánuði fór fram málstofa í lagadeild Íslands þar sem umræðuefnið var framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Framsögumenn voru Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.
Eftir framsögu var mælendaskrá opnuð. Þar spurði greinarhöfundur hvort það væri ekki sérstakt af íslenska ríkinu að sækjast eftir aðild að stofnun sem Íslendingar hafa hundsað í tvígang, þ.e. stutt innrásina í Írak án samþykkis öryggisráðsins auk loftárása NATO á Kosovo 1999 án samþykkis öryggisráðsins.
Man ég nú ekki nákvæmlega hvert svar Björns Inga var en ég man þó að hann fullyrti að innrásin í Írak ætti við góð og gild þjóðréttarleg rök að styðjast, án þess að útskýra þau ummæli nánar. Ég skal taka undir með Birni Inga að innrásin var studd með rökum en hvort þau voru góð og gild er annað mál.
Í stofnsamþykkt Sameinuðu þjóðanna (UN Charter) birtast þær meginreglur er gilda um stríð. Eru þær taldar þjóðréttarvenja, þannig að öll ríki þurfa að fara eftir þeim. Ekki nóg með að reglurnar séu taldar þjóðréttarvenja heldur eru þær taldar meðal þeirra reglna er teljast grundvallarreglur þjóðaréttar (jus cogens). Þær reglur eru ófrávíkjanlegar og binda öll ríki hvort sem þau eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum eða ekki.
Af lestri ákvæða stofnsamþykktarinnar er ljóst að meginreglan er sú að óheimilt er að hefja stríð. Tvær undantekningar eru gerðar. Annars vegar er sjálfsvörn leyfð og hins vegar er heimilt að beita vopnavaldi ef Öryggisráðið heimilar beitingu þess.
Skoðum þetta nánar.
Sjálfsvörn
Í 4. mgr. 2. gr. stofnsamþykktarinnar kemur fram að allir meðlimir skulu í milliríkjasamskiptum varast hótanir um valdbeitingu eða beitingu valds gegn landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði nokkurs ríkis eða á neinn annan hátt, sem brýtur í bága við markmið hinna sameinuðu þjóða. Eitt af þessum markmiðum er tekið fram í 1. tl. 1. gr. og er að varðveita heimsfrið og öryggi og gera í því skyni virkar, sameiginlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir og eyða hættu á friðrofi og til að bæla niður árásaraðgerðir eða friðrof og til á friðsamlegan hátt og í samræmi við grundvallarreglur réttvísi og þjóðaréttar að koma á sættum eða lausn milliríkja deilumála eða ástands, sem leiða kann til friðrofs.
Í 51. gr. samþykktarinnar er tekið fram hvenær heimilt er að beita vopnavaldi í milliríkjasamskiptum. Þar segir: „Engin ákvæði þessa sáttmála skulu takmarka hinn órjúfanlega rétt ríkis til sjálfsvarnar, eitt sér eða með öðrum ríkjum, ef ráðist er með hervaldi á meðlim hinna sameinuðu þjóða, þangað til öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir, gerðar af meðlimum við framkvæmd þessa sjálfsvarnarréttar, skulu undireins tilkynntar öryggisráðinu, og skulu þær á engan hátt skerða vald og ábyrgð öryggisráðsins samkv. þessum sáttmála til að hefja, hvenær sem er, þær aðgerðir, sem það álítur nauðsynlegar til að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.“
Nú vitum við að sjálfsvörn er heimil. Þá er bara að svara spurningunni um hvenær heimilt er að beita henni. Þegar þeirri spurningu er svarað er hægt að hverfa aftur í tímann, nánar til tekið til ársins 1842, og skoða bréfaskipti ríkisstjórna Kanada og Bretlands eftir hið svokallaða Caroline mál. Það mál fjallaði um skipið Caroline sem Bretar töldu sig hafa sökkt í sjálfsvörn. Sjónarmiðin sem birtast í bréfi Breta eru enn talin í fullu gildi. Lögðu Bretar á það sérstaka áherslu á að sjálfvörnin hefði verið nauðsynleg. Til að sjálfsvörn teljist nauðsynleg þarf þörfin fyrir hana að vera brýn, yfirþyrmandi, aðkallandi og það mega engin önnur raunhæf úrræði hafa verið til staðar. Í máli Nikvaragúa gegn Bandaríkjunum frá 1984 staðfesti Alþjóðadómstóllinn í Haag að þessi sjónarmið eru enn í fullu gildi. Nokkuð ljóst er að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra geta ekki byggt innrásina á sjálfsvarnarrökum enda vofði engin innrás Íraka inn í Bandaríkin auk þess sem engin tengsl virðast hafa verið milli Al-queda hryðjuverkasamtakanna og ríkisstjórnar Saddams Hussein eins og George Bush hélt fram og heldur reyndar ennþá fram.
En eru þá fyrirbyggjandi innrásir leyfilegar eins og George Bush og félagar hans halda fram? 51. gr. stofnsamþykktarinnar minnist ekkert á fyrirbyggjandi árásir. Slíkar árásir geta þó verið leyfilegar skv. þjóðréttarvenju en þá einungis að uppfylltum vissum ströngum skilyrðum. Þau eru:


1. Ríki er skotmark óvinveittra aðgerða annars ríkis.


2. Ríkinu sem ógnað er hefur þurrausið öll möguleg varnarúrræði.


3. Ógnin er yfirvofandi.


4. Varnaraðgerðirnar sem gripið er til eru í samræmi við hina yfirvofandi ógn.
Án þess að skoða hvert og eitt einstakt atriði hljótum við að sjá að innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra uppfyllir ekki þessi skilyrði. Reyndar hafa nokkrir hægrisinnaðir Bandaríkjamenn verið að gæla við ansi framsæknar hugmyndir í þessum efnum sem George Bush virðist aðhyllast. Þær teljast þó ekki þjóðréttarvenja og hægt er að halda því fram að þær stangist á við reglur Sameinuðu þjóðanna t.d. fyrrnefnda 4. mgr. 2.gr.
Ljóst hlýtur því að vera að innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra var ekki hægt að réttlæta með sjálfsvarnarrökum.
Ályktanir Öryggisráðsins
Í 1. mgr. 24. gr. samþykktarinnar segir að til þess að tryggja skjótar og haldgóðar aðgerðir af hálfu hinna sameinuðu þjóða, fela meðlimir þeirra öryggisráðinu aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis og eru ásáttir um, að öryggisráðið starfi fyrir þeirra hönd, þegar það framkvæmir skyldustörf sín í samræmi við þessa ábyrgð. Í 39. gr. samþykktarinnar segir að öryggisráðið skuli úrskurða, hvort fyrir hendi sé ófriðarhætta, friðrof eða árás, og skal gera tillögur um eða ákveða, hvaða ráðstafanir skuli gerðar í samræmi við 41. og 42. gr. til þess að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.


Í 42. gr. samþykktarinnar segir: Nú álítur öryggisráðið, að ráðstafanir þær, sem um getur í 41. gr. (léttvægari úrræði en í 42. gr.), mundu vera ónógar eða hafa reynst ófullnægjandi, og getur ráðið þá gripið til hernaðaraðgerða með lofther, flota eða landher, eftir því sem nauðsyn krefur, til að varðveita eða koma aftur á heimsfriði og öryggi. Slíkar aðgerðir megar vera fólgnar í ögrun, hafnbanni og öðrum aðgerðum lofthers, flota eða landhers meðlima hinna sameinuðu þjóða. Þar sem her Sameinuðu þjóðanna sem getið er um í 43. gr. hefur aldrei verið stofnaður, biðja Sameinuðu þjóðirnar ríki heims að ljá hermenn og tækjabúnað til vopnaskaksins.
Öryggisráðið hafði ekki heimilað innrás inn í Írak. Ráðið hafði hins vegar lýst yfir áhyggjum með nokkrum ályktunum vegna framferði íraska ríkisins í hinum og þesum málum og hótað að gripið yrði til harðari aðgerða ef Írakar færu ekki eftir fyrri ályktunum. Hver hugsandi maður hlýtur að sjá það að hótun um að grípa til harðari aðgerða felur ekki í sér heimild til beitingu vopnavalds.


Til þess að sýna þetta með dæmi þá er ályktun nr. 678 dæmi um heimild til beitingu vopnavalds en sú ályktun heimilaði m.a. ríkjum heims að hrekja Íraka frá Kúvæt. Í ályktun nr. 678 sagði m.a.: The Security Council ... Acting under Chapter VII of the Charter ... Authorizes Member States co-operating with the the Government of Kuwait, unless Iraq on or before 15 January 1991 fully implements, as set forth in paragraph 1 above, the foregoing resolutions, to use all necessary means to uphold and implement resolution 660 (1990) and all subsequent relevant resolutions and to restore international peace and security in the area.


Engin álíka ályktun lá fyrir frá Öryggisráðinu áður en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra héldu inn í Írak.
Til að lesendur átti sig á því hvaða meginhlutverki öryggisráðið á að gegna í alþjóðakerfinu og hvert vægi ályktanir öryggisráðsins hafa þá er rétt að geta 25. gr. og 103. gr. samþykktarinnar. Í 25. gr. kemur fram að meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við ákvæði þessa sáttmála. Í 103. gr. segir ef svo ber til, að árekstur verði milli kvaða meðlima hinna sameinuðu þjóða samkvæmt þessum sáttmála og kvaða þeirra samkvæmt einhverjum öðrum alþjóðasamningi, skulu kvaðir þeirra samkvæmt þessum sáttmála sitja í fyrirrúmi. Af þesum tveimur greinum leiðir að ályktanir öryggisráðsins trompa aðrar þjóðréttarlegar skyldur og ríkjum er skylt að hlíta þeim hvort sem þau eru sammála þeim eður ei.
Það er því gríðarlega alvarlegt að Bandaríkjamenn og bandamenn hafi ráðist á Írak án samþykkis öryggisráðsins.
Mannúðaríhlutun
Eftir því sem leitin að gjöreyðingarvopnum leit verr og verr út fóru Bandaríkjamenn að benda á hversu gott það væri fyrir írösku þjóðina að vera laus við illmennið Saddam Hussein. Hugtakið mannúðaríhlutun hefur verið að ryðja sér rúms í þjóðarétti. Inntak hugtaksins er hins vegar óskýrt og auðvelt að misnota það, t.d. notaði Hitler mannúðaríhlutun til að réttlæta hernám Bæheims og Moravíu. Það þurfa að vera gríðarlega öfgafullar aðstæður svo að mannúðaríhlutun sé réttlætanleg, t.d. telja stuðningsmenn mannúðaríhlutunar að hópmorð (genocide) og aðrir stórfelldir mannúðarglæpir (crimes against humanity) réttlæti hana. Þó svo að Saddam Hussein hafi verið algjört ómenni þá var ástandið ekki svo slæmt í Írak að innrás væri réttlætanleg. Eins þarf ákvörðun um mannúðaríhlutun eins og aðrar ákvarðanir um beitingu vopnavalds að fara í gegnum öryggisráðið hverju svo sem Norður-Atlantshafsbandalagið heldur fram.
Niðurstaðan hlýtur því að vera að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra fóru gegn reglum þjóðaréttarins um stríð. Engin gild þjóðréttarleg rök réttlætu árásina. Er það niðurstaða mín að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra gerðust sekir um glæp allra glæpa, eins og Nürnbergdómstóllinn orðaði það, árásarstríð og maðurinn sem Björn Ingi aðstoðar, studdi það.Skáldaðir dómstólar í fjölmiðlum

#8 - 19-07-2004

Alþjóðlegir dómstólar eru oft og tíðum viðfangsefni fjölmiðla. Þrátt fyrir það virðast heiti þeirra vera á reiki meðal margra fjölmiðlamanna sem og hvert hlutverk þeirra sé.
Oft og tíðum greina fjölmiðlar frá gangi mála fyrir alþjóðlegum dómstólum sem hvergi virðast vera til nema í undraheimi fjölmiðlanna. Svo virðist vera sem að fjölmiðlafólk viti eitt um tilvist og staðsetningu þessara dómstóla. Þetta eru dómstólar á borð við Mannréttindadómstólinn í Haag, Mannréttindadómstól Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag. Hefur greinarhöfundur setið nokkra kúrsa í þjóðarétti við lagadeild Háskóla Íslands og lagadeild Kaupmannahafnarháskóla en aldrei heyrt þeirra getið. Það er heldur ekkert undarlegt þar sem þessir dómstólar eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Kannski er ekkert skrýtið að blaðamenn ruglist á öllum þessum alþjóðlegu dómstólum enda hafa ansi margir bæst við alþjóðakerfið á síðusta áratug. Hins vegar eru þeir ekki það margir að ekki sé hægt að hafa á reiðum höndum heiti þeirra og nokkurn veginn hvað þeir fást við enda gefa nöfn þeirra það oft til kynna.
Hér á eftir verða taldir upp helstu alþjóðlegu dómstólarnir sem minnst er á fjölmiðlum á Íslandi og þeir kynntir örlítið.
Það er alla veganna ljóst að fjölmiðlar eru með það á hreinu að einhverjir alþjóðlegir dómstólar eru staðsettir í Haag enda er það alveg hárrétt hjá þeim. Það eru meira að segja þrír alþjóðlegir dómstólar í Haag og ekki nema smá spölur á milli þeirra. Geri aðrar borgir betur!
Fyrst ber að nefna Alþjóðadómstólinn í Haag, arftaki Varanlega alþjóðdómstólsins sem Þjóðabandalagið setti á laggirnar. Þjóðaréttur er viðfangsefni dómstólsins. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru aðilar að samþykkt alþjóðadómstólsins. Alþjóðadómstóllinn er aðaldómstóll Sameinuðu þjóðanna. Aðildarríki SÞ eru aðilar máls fyrir dómnum. Önnur ríki sem ekki eru aðilar að SÞ geta verið aðilar ef þau veita samþykki sitt fyrir slíku. Auk dóma getur Alþjóðadómstóllinn gefið út álit ef þar til bærir aðilar biðja um það, ríki eða aðalstofnanir SÞ. Íslenska ríkinu hefur tvisvar sinnum verið stefnt þangað annars vegar af Bretum og hins vegar Vestur-Þjóðverjum út af útfærslu fiskveiðilögsögu íslenska ríkisins í 50 sjómílur.
Annar dómstóll í Haag er Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn. Dómstóllinn byggir á svokölluðum Rómarsáttmála. Dómstóllinn ákærir einstaklinga fyrir hópmorð, mannúðarglæpi, stríðsglæpi og árásárstríð (það á eftir að útfæra nánar hvernig fara skuli með árásarstríð). Í framtíðinni mun hann líklega hafa fleiri málaflokka á sinni könnu. Dómstóllinn hefur ekki enn gefið út ákæru. Bandaríkjamenn hafa verið með mikil læti í kringum þennan dómstól á afar hæpnum forsendum.
Þriðji dómstóllinn í Haag er Alþjóðadómstóllinn sem fjallar um stríðsglæp í fyrrum Júgóslavíu. Dómstóllinn er stofnaður með ályktun öryggisráðsins. Hann er einskorðaður við hópmorð, mannúðarglæpi, stríðsglæpi og alvarleg brot á Genfarsáttmálanum í fyrrum Júgóslavíu frá árinu 1991. Þannig að í raun og veru fjallar hann um fleiri tegundir afbrota en stríðsglæpi. Hann ákærir einstaklinga, frægastur sakborning er Slobodan Milosevic.
Segja má að Lúxembourg sé næsta vígi Evrópuréttarins á eftir Brussel. Þar eru tveir dómstólar, Reyndar misþekktir á alþjóðavettvangi.
-Evrópudómstóllinn. Aðaldómstóll Evrópusambandsins. Hann fæst við reglur Evrópusambandsins. Íslendingar geta ekki farið með mál þangað.
-EFTA dómstóllinn fæst við EES samninginn. Þangað geta þeir leitað sem telja að Ísland, Noregur eða Lichtenstein brjóti á sér þau réttindi sem þeim eru tryggð í EES samningnum. Dómstólar þessara þriggja aðildarríkja geta einnig leitað ráðgefandi álits hjá honum áður en þeir dæma í málum.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassbourg. Eins og nafnið gefur til kynna fæst sá dómstóll við þau réttindi sem fjallað er um í Mannréttindasáttmála Evrópu. Evrópuráðið heldur utan um hann. Mannréttindadómstóllinn er klárinn sem dregur þróun mannréttinda áfram í heiminum að miklu leyti. Þangað geta einstaklingar, hópar einstaklinga og samtök leitað réttar síns gagnvart aðildarríkjum manréttindasáttmálans. Ríki geta einnig höfðað mál gagnvart öðrum ríkjum, það er afar sjaldgæft. Davíð Þór Björgvinsson er að taka við af Gauki Jörundssyni sem dómari íslendinga hjá dómstólnum.
Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna í Hamborg. Hann fæst eins og nafnið gefur til kynna við Hafréttarmál. Íslendingar hafa átt einn dómara þar, Guðmund Eiríksson fyrrverandi meðlim alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna (ILC). Með Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna voru settar á laggirnar þrjár stofnanir svo að fullvíst væri að farið væri eftir samningnum. Dómstóllinn er ein af þessum stofnunum.
Hægt er að telja upp fleiri dómstóla og stofnanir sem fjalla um alþjóðalög, t.d. Mannréttindadómstól Ameríku, Mannréttinda- og hópréttindadómstól Afríku og Alþjóðsakmáladómstólinn fyrir Rúanda, það yrði hins vegar dágott uppflettirit. Verður hér því staðar numið og þess vænst að fjölmiðlar fjalla einungis um þá alþjóðlegu dómstóla sem til eru í raun og veru í framtíðinni.Við skulum kýl’ á soldið gas

#9 - 29-10-2004

Í texta lagsins Einn dans við mig af sólóplötu Hermanns Gunnarssonar Frískur og fjörugur... er hugtakið gas notað í óvenjulegri merkingu.
Í texta lagsins Einn dans við mig af sólóplötu Hermanns Gunnarssonar Frískur og fjörugur... er hugtakið gas notað í óvenjulegri merkingu.
Í fjórða erindi kvæðisins segir:
Inn’ á bar


Tómt mas og þras


Við að ná í glas.


„Halló beibí. Hvar er kallinn þinn í kvöld?


Kemur’ oft hingað?


Ertu ein?


Við skulum kýl’ á soldið gas.“
Ekki er fyllilega ljóst hvað átt er við með hugtakinu gas í þessu samhengi. Samkvæmt þriðju útgáfu íslensku orðabókarinnar í ritstjórn Marðar Árnasonar þá merkir hugtakið gas, gass, gös 1 efni í loftkenndu ástandi, loft. 2 eðlis/efnafr. Lofttegund, einn af fjórum fösum efnis, blanda eldfimra lofttegunda, notuð til brennslu í iðnaði og til heimilisnota › gasljós/gasleiðsla 3 eðlis/efnafr. eitruð lofttegund › eiturgas, táragas. 4 grisja, sárabindi.
Af lestri orðabókarinnar er ljóst að Mörður hefur klikkað á að kynna sér sólóplötu Hermanns Gunnarssonar við ritstjórn orðabókarinnar. Er sú vanræksla hörmuð og Merði bent á að botna Hemma í næsta teiti þingflokks Samfylkingarinnar.
Þar sem Mörður er ekki með sitt á hreinu verðum við að leita annað í leit okkar að merkingu hugtaksins gas í þessu samhengi. Ef setningin er lesin í samhengi við allan textann er augljóst að með hugtakinu gas er átt við einhvers konar fjör eða skemmtan. Eins er ljóst að fjögur orð í fjórða versi ríma, þ.e. orðin mas, þras, glas og gas. Etv. erum við strax búin að komast að niðurstöðu. Hugtakið gas er einungis notað til rímnagerðar auk þess sem að setningin „við skulum kýl’ á soldið gas“ hljómar ágætlega og fellur vel að stíl kvæðisins.
Með empírískri rannsókn á hugtakanotkun nokkurra lögfræðinga, viðskiptafræðinga og laganema hefur undirritaður komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið gas er notað yfir fyndin mannleg samskipti sem hafa einhvers konar fáránleikablæ yfir sér.
Dæmi um gott gas er að skella sér á skemmtistaðinn 22 um ellefuleytið á föstudagskvöldi þegar sárafáir eru inni á staðnum. Fara upp á aðra hæð þar sem dansgólfið er. Fara því næst út í horn og ná sér í nokkra stóla og byrja að fleygja þeim inn á dansgólfið. Ef plötusnúðurinn hefur einhverjar athugasemdir við þessa hegðun skal viðhafa þessi orð: „Far þú bara inn í búr og settu plötu á fóninn. Kallinn er að fleygja stólum.“ Annað dæmi um gott gas er að íklæðast jakkafötum og teipa á sér hausinn í samkvæmi og fá aðra til þess sama. Taka verður skýrt fram að hægt er að gasa á fleiri vegu.
Að lokum ætla ég að biðja sem flesta að kýl’ á soldið gas á börum og býlum landsins um helgina, fleygja nokkrum stólum í liðið og teipa á því hausinn.Af hverju öryggisráðið?

#10 - 30-11-2004

Hvers vegna sækist íslenska ríkið eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Er það vegna ástar íslenskra ráðamanna á velferð mannkyns eða vegna einhvers annars?
Hvers vegna sækist íslenska ríkið eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Er það vegna ástar íslenskra ráðamanna á velferð mannkyns eða vegna einhvers annars?
Um daginn hélt Hjálmar W. Hannesson sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum ræðu á allsherjarþinginu þar sem hann upplýsti um framlag Íslands í þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna á sviði hafréttar. Umrætt framlag íslenska ríkisins er væntanlega liður í að auka þróunarhjálp íslendinga svo að Ísland nálgist takmark Sameinuðu þjóðanna um að ríki heims láti af hendi rakna 0,7% af þjóðartekjum til þróunaraðstoðar.
Auðséð er að aukin framlög Íslands til þróunaraðstoðar snúast fyrst og fremst um að láta íslenska ríkið líta betur út í augum umheimsins, þó aðallega þriðja heimsins, í þeirri viðleitni ráðamanna að tryggja nógu mörg atkvæði til að bera sigur af hólmi í kosningum til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kjörtímabilið 2009–2010.
En til hvers vill Ísland í öryggisráðið? Ráðamenn hafa lýst því yfir að nauðsynlegt sé að Ísland axli ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Vissulega er það af hinu jákvæða að vilja axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og láta gott af sér leiða. En af hverju að axla þá ábyrgð í ráði sem hefur öryggismál á sinni könnu og af hverju núna?
Mín kenning er sú að til að átta sig á því er ekki hægt að líta einangrað á framboðið. Líta verður til þess sem hefur verið að gerast í varnarmálum Íslands undanfarin ár. Hvert einasta mannsbarn veit að bandaríski herinn hefur minnkað umsvif sín hérlendis og vill minnka þau enn meir. Eitt frumlegasta útspil íslendinga til að sporna við þeirri þróun eða mæta henni er að bjóða sig fram til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Með því að bjóða sig fram hafa íslendingar eitthvað bitastætt til að bjóða Bandaríkjunum, þ.e. atkvæði sitt hjá öryggisráðinu, gegn áframhaldandi veru bandaríska hersins hérlendis í einhvern tíma. Íslenskum ráðamönnum hlýtur hins vegar að vera ljóst að það er engin endanleg lausn. Ef Ísland kemst í öryggisráðið þá fá íslenskir embættismenn dýrmæta þjálfun í varnar- og öryggismálapólitík sem getur nýst þeim þegar íslenska ríkið byrjar að taka aukin þátt í vörnum landsins eða jafnvel stýra þeim alfarið.
Gallinn á þessari kenningu er sá að það eru Alþingiskosningar árið 2007. Afleiðing þeirra getur verið að núverandi valdhafar missi völd sín og ný ríkisstjórn mynduð með aðra áherslu í varnar- og öryggismálum. Annar galli á kenningunni er að Ísland gæti tapað kosningunni til öryggisráðsins.
Kenningunni til stuðnings má hins vegar benda á að ýmislegt hefur verið á seyði á undanförnum árum í öryggismálum íslendinga, t.d. hafa framlög til sérsveitar ríkislögreglustjóra verið stóraukin, íslendingar hafa eins og frægt er tekið þátt í friðargæslu og hugsanlegt er að íslensk leyniþjónusta komist á laggirnar.
Vel má vera að ég sé úti að aka með þessari kenningu minni og sé orðinn tæpur á geði í svartasta skammdeginu, hvað sem andlegri heilsu minni í skammdeginu líður þá er eitthvað einkennilegt við þetta framboð.


Réttarstaða ölvaðra á almannafæri

#11 - 04-02-2005

Á föstudögum hamra flestir landsmenn í sig 12-14 bjórum. Því er nauðsynlegt fyrir hvern íslending sem vettling getur valdið og á bjórglasi haldið að þekkja reglurnar um ölvun á almannafæri.

Ætli Árni og Palli fagni árangri liðinnar viku með því að hvor fái sér tylft bjóra á Players í kvöld?
Á föstudögum hamra flestir landsmenn í sig 12-14 bjórum. Því er nauðsynlegt fyrir hvern íslending sem vettling getur valdið og á bjórglasi haldið að þekkja reglurnar um ölvun á almannafæri.Það eru þó nokkuð margir íslendingar sem hafa verið handteknir fyrir ölvun á almannafæri. Sumir oftar en aðrir. Hvort sem fólk hefur verið handtekið fyrir ölvun á almannafæri eður ei er alltaf gott að þekkja réttarstöðu sína.Meginregla íslensks réttar um ölvun á almannafæri birtist í 21. gr. áfengislaga og er hún svohljóðandi:„Hver sá sem sökum ölvunar veldur óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum skal sæta ábyrgð samkvæmt lögum þessum.“Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. áfengislaga varða brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim sektum eða fangelsi allt að sex árum. Telja verður þó ólíklegt að menn fari í steininn einungis fyrir þær sakargiftir að fá sér of mikið.Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að áfengislögum nr. 33/1935, sem er að öllu verulegu leyti samhljóða núgildandi 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998, kemur fram um 19. gr. frumvarpsins, sem varð síðan 18. gr. laganna:„Ekki þykir ástæða til þess að refsa fyrir ölvun út af fyrir sig, geri hinn ölvaði sig ekki jafnframt sekan um óspektir á almannafæri eða aðra hneykslanlega framkomu.“Í áliti áfengisþyrsts lögfræðings út í bæ nr. 3461/2002 var einmitt ölvun á almannafæri til skoðunar. Í álitinu segir:Af forsögu og orðalagi 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998 verður dregin sú ályktun að til þess að ölvun á almannafæri, eða á öðrum þeim stöðum sem tilgreindir eru í ákvæðinu, verði talin falla undir ákvæðið verði að liggja fyrir að hinn ölvaði hafi valdið óspektum, hættu eða hneyksli með hátterni sínu. Ölvun á almannafæri verður því ekki talin refsinæm háttsemi, sbr. 21. og 27. gr. áfengislaga, ein og sér, þ.e. án þess að staðreynt sé að a.m.k. ein tegund slíkra afleiðinga hafi leitt af ölvun viðkomandi í því tilviki sem um ræðir. Þá verður að hafa í huga að ákvæðið er takmarkað við þau tilvik þegar ölvaður maður veldur óspektum, hættu eða hneyksli á „almannafæri, á opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum“.Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála og a-liður 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga er skoðaðar. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að handhafa lögregluvalds sé heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum.Niðurstaðan er því að lögreglan getur ekki handtekið mann nema maður sé til ama. Það er sem sagt ekki refsivert eitt og sér að vera alveg smellkexblekaður.Ráðlegging mín, að teknu tilliti til framgreinds, til þeirra sem eru að fara hamra í sig er að það er betra að halda sig sem næst barnum á kenderíum og einbeita sér að drykkjunni í stað þess að taka þátt í einhverjum ærslum og fíflalátum sem leitt getur til handtöku og skemmt fyrir manni kvöldið. Skál í botn.Eignarréttur að saur í salernum

#12 - 15-02-2005

Í landyfirréttardómi frá 1913 bls. 155 var fullyrt að salernasaur yrði tæplega talinn með eignum þeim, er féllu undir þáverandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sú fullyrðing er og var fræðilega röng.
Í landyfirréttardómi frá 1913 bls. 155 var fullyrt að salernasaur yrði tæplega talinn með eignum þeim, er féllu undir þáverandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sú fullyrðing er og var fræðilega röng.Málatvik voru þau að maður nokkur var krafinn um salernishreinsunargjald fyrir árið 1912 af húsi hans við Hverfisgötu. Með lögum nr. 42 frá 11. júlí 1911 um gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík hafði bæjarstjórn Reykjavíkur verið heimilað að taka að sér salernishreinsun í öllum bænum eða nokkrum hluta hans. Til þess að standa straum af kostnaði þeim, sem af þessu leiddi, mátti leggja gjald á hús þau, sem hreinsuð var fyrir. Maðurinn neitaði að greiða gjaldið, var því þess krafist að gjaldið væri tekið lögtaki. Fyrir fógetarétti Reykjavíkur var kveðinn upp úrskurður í þá átt, að hið umbeðna lögtak skyldi fara fram. Upp í lögtakið var tekið stofuborð mannsins. Að fengnu konunglegu leyfisbréfi skaut maðurinn dómnum til Landsyfirréttar.Í dómi Landsyfirréttar segir: „Áfrýjandi hefir ekki vefengt það, að hreinsunin hafi verið framkvæmd hjá honum, en hann heldur því fram, að hreinsunarfyrirkomulagið, eins og það er framkvæmt, byggist á ólöglegum grundvelli, þeim sé, að áburðurinn (saurinn úr salernunum) er tekinn frá eigendum leyfislaust og endurgjaldslaust og afhentur öðrum til eignar. Þetta fari enda í bága við 50. gr. stjórnarskrárinnar [nánast samhljóða 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar í dag], og að sjálfsögðu verði áfrýjandi eigi krafinn um gjaldið fyrir burtflutning áburðarins (saursins). En á þetta verður eigi fallist; vegna heilbrigðisástandsins í bæjarfélagi, sem Reykjavík er, má álíta það nauðsynlegt, að ráðstafanir séu til þess gerðar, að göturusl, óþverri og saur sé flutt úr bænum, svo að það spilli eigi heilsu almennings; þetta er og viðurkennt með lögunum nr. 42, 11. júlí 1911, eða það verður svo að líta á, að ákvæði þeirra byggi á þessari skoðun. Það þykir ekki vera neitt vafamál, að bæjarstjórnin hafi samkvæmt þessu lagaboði heimild til þess að láta hreinsa salerni bæjarbúa, og þá að sjálfsögðu jafnframt til þess, að láta taka saurinn og flytja hann burt, og það verður eigi á það fallist, að þetta komi að neinu leyti í bága við 50. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem líta verður svo á, eftir framansögðu, að almenningsþörf heimti áminstar hreinsunarráðstafanir, en salernasaur verður tæplega talinn með eignum þeim, er falla undir nefnda grein, en væri svo, þá leiddi það aðeins til þess, að áfrýjandi gæti heimtað endurgjald fyrir saurinn, en eigi til hins, að hann gæti skotið sér undan að greiða hreinsunargjaldið.“ Var tómthúsmaðurinn dæmdur til að greiða gjaldið auk málskostnaðar.Fullyrðingin um að saur verði tæplega talinn með eignum þeim er falla undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er röng. Það hefur verið talið megineinkenni fjárréttinda og fjármunaréttinda að þau hafi fjárhagslegt gildi, þ.e. þau verði metinn til fjár á peningalegum mælikvarða, og að þau séu færanleg frá einum aðila til annars, þ.e. aðilaskipti geti orðið að þeim. Í þessu tilfelli var augljóslega um eign að ræða sem hafði fjárhagslegt gildi, þ.e. áburður sem bera átti á tún, auk þess sem aðilaskipti gátu orðið á áburðinum.Ef þessi fullyrðing er skoðuð einangruð, þ.e. að saur verði tæplega talinn með eignum þeim er falla undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þá stenst hún ekki nánari skoðun. Hvað ef einhver aðili á salernissaur Elvis Presley eða John Lennon. Ég er nokkuð viss um að einhver brjálaður aðdáandi myndi vilja fjárfesta í honum.Saur hlýtur því að vera verndaður af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hvort sem það var árið 1913 af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 eða frá arinu 1944 með breytingunum sem gerðar voru árið 1995.

Réttarstaða geimfara I

#13 - 23-02-2005

Í mínum næstu átta greinum á Deiglunni ætla ég að fjalla um réttarstöðu geimfara og ýmis lagaleg vandamál sem tengjast geimferðum manna.

NAFNI ÚTÚRSPEISAÐUR
Í næstu átta greinum mínum á Deiglunni ætla ég að fjalla um réttarstöðu geimfara og ýmis lagaleg vandamál sem tengjast geimferðum manna.
Í þjóðréttarlegum skilningi tekur himingeimurinn við þar sem forráðasvæði ríkja enda í háloftunum, þ.e. þar sem lofthelgi ríkja endar. Aðilar þjóðaréttarins eru hins vegar ekki sammála um hvar þau mörk liggja. Því er hægt að draga þá ónákvæmu ályktun að þar sem lóðrétt lofthelgi ríkja endar tekur himingeimurinn við. Oft er miðað við að lóðrétt lofthelgi ríkja í háloftunum endi í þeirri lofthæð sem þær flugvélar sem hæst komast fljúga í, það er hins vegar breytilegur og óheppilegur mælikvarði þar sem tækninni fleygir fram og flugvélar komast hærra og hærra.
Ein af meginreglum geimréttarins er að himingeimurinn skuli vera sameign mannkyns. Af því leiðir að ekkert ríki hefur forráðasvæði í geimnum. Nú kunna einhverjir glöggir lesendur að spyrja sig hvernig lögsögureglur yfir geimförum eru háttaðar fyrst geimurinn er sameign mannkyns. Þeirri spurningu er svarað í 8. gr. samningsins um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum (Treaty on Principles Governing the Activities of States in the Exploration and Use of Outer Space, including the Moon and other Celestial Bodies). Í ákvæðinu, í lauslegri þýðingu undirritaðs, er kveðið á um að ríki sem sendir far út í himingeiminn skuli fara með lögsögu yfir því og áhafnarmeðlimum þess hvort sem þeir eru innanborðs eða á vappi um plánetur og tungl himingeimsins. Ljóst er af samningi þessum að lögsaga í geimskipum og á svokölluðum tunglgöngum er hjá skráningarríki geimskipsins. Eru það því lög þess ríkis þar sem farið er skráð sem gilda fyrir áhafnarmeðlimi hvort sem þeir eru um borð í geimskipinu eða á vappi um geiminn. Í samningnum um skráningu fara sem send er út í geim (Convention on Registration of Objects Launched into Outer Space), eru ítarlegar reglur um hvaða ríki skuli teljast skráningarríki fars.
Benda verður á að réttarstaða úthafsins og himingeimsins eru keimlík. Rétt er einnig að benda á að geimréttur og hafréttur eru náskyld fög. Því er sennilegt að hægt sé að nota ákvæði Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um lögsögu, sérstaklega þau sem eru þjóðréttarvenja, til skýringar og fyllingar á 8. gr. samningsins um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum en þau ákvæði eru mun ítarlegri en ákvæði geimréttarins.
Áhugaverður munur er á lögsögureglum yfir geimförum og yfir skipum en geimfarar sem eru í geimgöngu, eins og áður segir, eru undirorpnir lögsögu skráningarríkis geimskipsins. Stafar það af fyrrnefndri meginreglu geimréttarins um að himingeimurinn sé sameign mannkyns. Slíkt gildir ekki um farþega skipa. Um leið og þeir stíga fæti á erlendri grundu falla þeir undir lögsögu þess ríkis sem þeir eru staddir í enda landsvæði heims skipt á milli ríkja.
Í næsta pistli verður fjallað um skyldur geimfara í geimnum, m.a. gagnvart öðrum geimförum af öðrum geimskipum.
Biðið spennt þangað til!Réttarstaða geimfara II

#14 - 23-03-2005

Í fyrsta pistli mínum um réttarstöðu geimfara kom samningurinn um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum við sögu. Í þessum pistli verður fjallað nánar um efnisreglur samningsins.

Svarthöfði hefur margoft brotið reglur geimréttarins.
Í fyrsta pistli mínum um réttarstöðu geimfara kom samningurinn um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum við sögu. Í þessum pistli verður fjallað nánar um efnisreglur samningsins.

Efnisreglur samnigsins eru margar hverjar meginreglur geimréttarins. Þær hafa mótað efni annarra þjóðréttarsamninga á þessu sviði. Til gamans má geta að Íslendingar gerðust aðilar að samningnum árið 1969.


Hér á eftir fylgir stutt upptalning á helstu reglum samningsins.
Helstu reglur:
- Geimurinn er sameign mannkyns
- Öllum ríkjum er frjálst að kanna geiminn og stunda þar rannsóknir.
- Ríkjum er frjáls för um geiminn.
- Ekki er hægt að nema landssvæði í geimnum.
- Aðgerðir ríkja í geimnum skulu vera í samræmi við reglur þjóðaréttarins, m.a. í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, í þeirri viðleitni ríkja að tryggja frið og öryggi, skilning og samvinnu.
- Bannað er að koma fyrir kjarnorkuvopnum og öðrum gjöreyðingavopnum í geimnum. Hvort sem er á stjörnum, tungli eða á sporbraut í kringum jörðu.
- Tungl og stjörnur skulu notuð í friðsamlegum tilgangi.
- Bannað er að koma fyrir herstöðum eða stunda tilraunir með hernaðarlegu ívafi í geimnum.
- Geimfarar eru könnuðir alls mannkyns. Ríki skulu aðstoða þá ef eitthvað kemur upp á. Geimfarar skulu aðstoða aðra geimfara.
- Ríki bera ábyrgð á þeim sem þeir senda út í geim hvort sem þeir eru opinberir aðilar eða einkaaðilar. Ríki bera skaðabótaábyrgð ef önnur ríki verða fyrir tjóni vegna aðgerða þeirra í himingeimnum.
- Ríki fara með lögsögu yfir geimförum sínum, áhöfn þeirra hvort sem hún er í geimskipinu eða á vappi í geimnum.
- Ríki skulu aðstoða hvort annað og virða í geimnum.
- Ríki skulu upplýsa mannkynið um uppgötvanir sínar í geimnum að svo miklu leyti sem mögulegt er.
- Ríki hafa gagnkvæman rétt til að nota geimstöðvar, útbúnað og geimfarartæki annara ríkja.
Í næsta pistli verður fjallað um nokkur þjóðréttarleg vandamál sem upp gæti komið ef geimverur kæmi til jarðarinnar.Réttarstaða geimfara III

#15 - 19-04-2005

Undirritaður hefur stundum velt því fyrir sér hvernig alþjóðasamfélagið myndi bregðast við ef viti bornar verur úr geimnum myndu birtast á jörðinni.


Yoda væri tilvalinn aðalframkvæmdastjóri Space Trade Organisation
Undirritaður hefur stundum velt því fyrir sér hvernig alþjóðasamfélagið myndi bregðast við ef viti bornar verur úr geimnum myndu birtast á jörðinni. Þar sem að undirritaður er bjartsýnismaður að eðlisfari hefur hann iðulega gert ráð fyrir að þær vildu stofna til friðsamlegra kynna við jarðarbúa. Yrði slíkt afar ánægjulegt og gæti leitt til framþróunar á sviði tækni og vísinda og glætt menningarstarfsemi jarðarbúa. Þó svo að slík tíðindi væru afar ánægjuleg þá skapast viss vandamál í þessu samhengi á sviði þjóðaréttar. Verður hér á eftir nokkur vandamál greind í örstuttu máli.
Fyrsta vandamálið sem verður að finna lausn á er hver hefur umboð fyrir jarðarbúa til að semja við geimverurnar. Hefur undirritaður útfært lauslega eina hugmynd í þeim efnum, hljóðar hún svo:


Fjölmennustu og öflugustu ríki heims fengu sinn fulltrúa og síðan fengu stærstu ríkjabandalögin að útnefna sinn fulltrúa. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna væri nefndarmaður og færi fyrir henni. Nefndarmenn yrðu að hafa hagsmuni allra jarðarbúa að leiðarljósi í stað þess að einblína á hagsmuni einstakra ríkja.
Næsta vandamál sem jarðarbúar standa frammi fyrir er samskiptalegs eðlis. Grundvallaratriði samningsgerðar er tjáning. Samningsaðilar verða að geta tjáð sig með skiljanlegu móti til að ná samkomulagi. Ef geimverurnar skilja ekki tungumál jarðarbúa þyrftu málvísindamenn að taka höndum saman og ráða í tjáningarmáta geimveranna. Verkefnið gæti reynst snúið ef geimverurnar notast við hugsanalestur.
Mikilvægt er að útkljá hvaða réttarstöðu geimverur hafa á jörðinni. Ljóst er að gera verður greinarmun á geimverum með óhlutbundna hugsun á háu stigi og geimdýrum. Til bráðabirgða væri hægt að lögjafna réttarstöðu manna yfir á geimverur. Þannig að geimverur nytu sömu réttarstöðu og menn. Geimdýr myndu að sama skapi njóta verndar dýraverndunarlaga til bráðabirgða. Þegar fram í sækti væri hægt að semja sérreglur um réttarstöðu geimvera sem tækju mið af líkamsstarfsemi geimveranna og menningu þeirra, t.a.m. gæti Evrópuráðið samið Geimverusáttmála Evrópu með dómstól í MÍR geimstöðinni.
Jarðarbúar hafa verið svo óforskammaðir að lýsa því yfir að geimurinn sé þeirra eign og skuli nýttur í þeirra þágu. Þessu yrði að breyta. Hægt væri að notast við svipaðar hugmyndir og birtast í Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna til að redda málunum. Komið yrði á plánetulofthelgi og efnahagslögsögu í kringum plánetur, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Afgangurinn af geimnum yrði ekki á forræði neinnar plánetu. Útfæra yrði þessar hugmyndir með tilliti til viðfangsefnisins og setja svipaðar reglur og birtast í fyrrnefndum hafréttarsamningi m.a. um löggæslu og mengunarvarnir. Snjallt væri að heimila óslitna eftirför geimskipa ef geimskip eða áhafnarmeðlimir gerast brotlegir við lög og reglur þeirrar plánetu sem um ræðir.
Líklegt er að geimverur og jarðarbúar myndu vilja koma á viðskiptasambandi sín á milli. Góð hugmynd væri að stofna fríverslunar- eða tollabandalag. Einnig væri það góð hugmynd að stofna Geimviðskiptastofnun (Space Trade Organisation). Jarðarbúar og geimverur gætu svo sett á stofn samtök helstu iðnpláneta himingeimsins líkt og helstu iðnríki heims (G8) hafa gert á jörðinni.
Ekki má gleyma að upp geta komið einkaréttarleg vandamál, t.d. ef geimvera ætlar að taka bifreið á rekstrarleigu. Við þann gerning vaknar sú spurning við hvaða reglur eigi að styðjast. Líklegt er að stuðst yrði við reglur þeirrar plánetu sem tengist viðskiptunum hvað mest nema um annað sé samið. Þannig að ef geimvera myndi taka bifreið á rekstrarleigu yrði líklega stuðst við reglur jarðarbúa, þ.e. íslenskar reglur í þessu tilfelli.
Hægt væri að velta því fyrir sér hvað myndi gerast ef geimverurnar væru illskeyttir djöflar sem komnar væru til að hernema jörðina. Myndi þá kannski langþráður draumur margra um her Sameinuðu þjóðanna, sem kveðið er á um að skuli komið á laggirnar í 43. gr. Stofnsáttmála samtakanna, verða að veruleika.
Af ofansögðu er ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif á þjóðarétt ef viti bornar verur úr geimnum myndu ákveða á kíkja við á jörðinni. Vonar undirritaður að þær geimverur sem koma til jarðarinnar verði friðelskandi og taki menningu jarðarbúa opnum örmum þannig að ást, friður og kærleikur geti blómstrað í geimnum.
Réttarstaða geimfara I


Réttarstaða geimfara IITollar og gjöld

#16 - 30-05-2005

Á síðustu dögum liðins þings smaug frumvarp til nýrra tollalaga í gegn án teljandi umfjöllunar fjölmiðla. Ýmsar áhugaverðar upplýsingar koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu.

Hver hefur þróun vörugjalda verið síðustu áratugina?
Á síðustu dögum liðins þings smaug frumvarp til nýrra tollalaga í gegn án teljandi umfjöllunar fjölmiðla.Ýmsar áhugaverðar upplýsingar koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu.
Ný tollalög taka gildi þann 1. janúar næstkomandi. Ætlunin er þó ekki að fjalla um þau lög hér heldur áhugaverðar upplýsingar sem koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu.
Í greinargerðinni með frumvarpinu segir m.a.
„Frá því að gildandi tollalög tóku gildi hefur hlutfall tolla af skatttekjum ríkissjóðs farið lækkandi. Árið 1986 voru tollar 8% af skatttekjum ríkissjóðs. Tíu árum síðar hafði hlutfallið lækkað í 3% og árið 2003 var hlutfallið komið niður í 1%. Ástæða lækkunarinnar er að gjaldtaka í formi tolla hefur verið á undanhaldi, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.“
Sem hægrimaður hlýtur maður að fagna þessari þróun en brosið lekur af vörunum þegar næstu línur eu lesnar.
„Auk tolla eru ýmis gjöld lögð á og innheimt við tollafgreiðslu á innfluttum vörum. Þau eru eftirfarandi:


1. Tollar samkvæmt tollalögum, nr. 55/1987.


2. Virðisaukaskattur samkvæmt virðisaukaskattslögum, nr. 50/1988.


3. Almenn vörugjöld samkvæmt lögum um vörugjald, nr. 97/1987.


4. Vörugjöld af ökutækjum og eldsneyti samkvæmt lögum nr.


29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.


5. Áfengisgjald og tóbaksgjald samkvæmt lögum um gjald af áfengi


og tóbaki, nr. 96/1995.


6. Úrvinnslugjald samkvæmt lögum nr. 162/2002.


7. Skilagjald á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr


stáli, áli, gleri og plasti samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr.


52/1989.


8. Höfundarréttargjald á bönd, diska, plötur o.fl. samkvæmt


höfundalögum, nr. 73/1972,


9. Flutningsjöfnunargjald á olíuvörur samkvæmt lögum nr.


103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.


10. Eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum samkvæmt lögum


nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.


11. Eftirlitsgjald af fóðri, áburði og sáðvöru samkvæmt lögum nr.22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.


12. Eftirlitsgjald vegna innflutnings plantna samkvæmt lögum nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum.
Þau aðflutningsgjöld sem skila ríkissjóði mestum tekjum auk tolla eru margvísleg vörugjöld, einkum á bifreiðar og bensín, svo og áfengisgjald.“
Það þarf líklega ekki að taka það fram að ég er yfirhöfuð ekki hrifin af því að einstaklingar og fyrirtæki þurfi að greiða ríkinu toll eða gjöld í miklu mæli. Ég hlýt þó að vera ánægður með þróunina á sviði tollamála. Áhugavert væri að sjá sambærilegt yfirlit yfir þróun vörugjalda sem innheimt eru við tollafgreiðslu. Það eru sjálfsagt fáir sem gera skýran greinarmun á þeim og tollum enda verið að greiða sama aðilanum, ríkinu.
Ég ætla að enda á orðum Jóns Steinssonar sem ritaði ágætan pistil á Deiglunni nýlega: „Tilgangur flestra þeirra [tolla] er að vernda innlenda framleiðslu sem stenst ekki samkeppni við erlenda aðila á jafnréttisgrunvelli. Eins og svo oft eru þröngir hagsmunir framleiðenda teknir fram yfir mun stærri (en dreifðari) hagsmuni neytenda.“2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar

#17 - 04-07-2005

Undirrituðum hefur ævinlega fundist 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Ísland, l. nr. 33/1944, sbr. 3. gr. l. nr. 97/1995 um breytingar á henni, einkennilegt ákvæði þ.e. að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.

2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar er tilgangslaus
Það er höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar, að megindrættir stjórnskipulagsins og grundvallarréttindi borgaranna eru ákveðin í sérstakri stjórnarskrá, sem sett er með öðrum og vandaðri hætti en almenn lög. Stjórnarskráin er því aðalheimild um íslenska stjórnskipun og rétthærri öðrum réttarheimildum. Almennt er æskilegt að stjórnarskrá sé hnitmiðuð og skýr lesning sem taki ekki breytingum eftir því hverjir fara með völdin hverju sinni heldur sé klettur í ólgusjó stjórnmálanna sem almenn sátt ríkir um.Seinni málsgrein 65. gr. stjórnarskrárinna segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður árin 1994-1995 var ekki gert ráð fyrir 2. mgr. 65. gr. í frumvarpi til breytingar á stjórnskipunarlögum sem lagt var fram við fyrstu umræðu á Alþingi. Enda sagði í 65. gr. (sem nú er 1. mgr. 65. gr.) að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.Umræddri 2. mgr. var bætt við 65. gr. eftir að frumvarpið var lagt fram að því virðist án ítarlegrar umfjöllunar. Í nefndaráliti frá stjórnarskrárnefnd sem lagt var fram við 2. umræðu á Alþingi segir að nefndinni hafi borist gagnrýni um að það komi ekki fram í greininni (65. gr.) nægilega skýrt ákvæði um jafnrétti karla og kvenna. Þykir undirrituðum það sérstæð gagnrýni og reyndar út í hafsauga enda má lesa út úr greininni (núverandi 1. mgr. 65. gr.) að allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis.Ef skoðaðir eru tveir grundvallar mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að til samburðar, Mannréttindasáttmáli Evrópu (sem reyndar er lögfestur með lögum nr. 62/1994) og samning Sameinuðu þjóðanna um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi, er svipað ákvæði og 2. mgr. 65. gr. hvergi sjáanlegt.Í 14. gr. MSE segir:

Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.Í 26. gr. SBSR segir:

Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.Í þessum greinum er ekki spanderað sérstakri málsgrein til að impra á jafnrétti kynjanna enda augljóst af lesningu þeirra að óheimilt er að mismuna einstaklingum á grundvelli kynferðis. Það sama má segja eftir lesningu á 1. mgr. 65. gr. stjónarskrárinnar. 2. mgr. 65. gr. er fyrst og fremst pólitískt ákvæði sem ætlað er að sýna vilja stjórnarskrárgjafans til að jafna hlut karla og kvenna. Ákvæðið bætir í raun engu efnislega við þar sem allt sem segja þarf kemur fram í 1. mgr. 65. gr. Ákvæðið er að mati undirritaðs klassískt dæmi um pólitíska rétthugsun sem fáir hafa sjálfsagt þorað að fetta fingur út í af hræðslu við að vera úthrópaðir úrtölumenn og kvenníðingar.Vonar undirritaður að stjórnarskrárgjafinn hafi í huga við komandi stjórnarskrárbreytingar að ákvæði stjórnarskráa eiga að vera hnitmiðuð og skýr og þar á ekki að birtast pólitísk rétthugsun hans hversu virðingarverð og réttlát sem sú hugsun er nema einhverjar rökrænar ástæður búi þar að baki.Að lokum er rétt að taka fram að undirritaður er efnislega sammála 2. mgr. 65. gr. en er fyrst og fremst ósáttur við framsetninguna.Réttarstaða geimfara IV - Geimskiparán

#18 - 26-08-2005

Í geimnum gilda margvíslegar reglur. Engar settar reglur gilda þó um geimskiparán.

Geimskiparán eru líkleg plága í framtíðinni
Undirritaðum þykir gaman af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum þar sem sögusviðið er geimurinn. Stjörnustríðsmyndirnar eru í miklu uppáhaldi ásamt sjónvarpsþáttunum Star Trek. Fyrir þá sem ekki þekkja til þessara mynda og þátta, þá fjalla þær og þeir m.a. um valdabrölt og átök í geimnum. Oft á tíðum er mikill hasar, menn og geimverur fremja hin og þessi voðaverk í geimskipum og sumir stunda jafnvel geimskiparán.
Umfjöllunarefni geimpistilsins að þessu sinni er einmitt hvernig refsilögsögureglur eru háttaðar yfir einstaklingum sem fremja refsiverðan verknað í geimnum og hvernig þær ættu að vera háttaðar yfir þeim sem fremja geimskiparán í geimnum.
Áður en lengra er haldið verður að skýra hvað geimurinn merkir í þjóðréttarlegum skilningi. Sérhvert ríki hefur ákveðið forráðasvæði þar sem þau geta nokkurn veginn gert það sem þeim dettur í hug í samræmi við kenningar um fullveldi. Forráðasvæði ríkja eru hins vegar takmörkuð. Sú takmörkun er ekki einungis lárétt heldur einnig lóðrétt. Oft er miðað við hversu hátt flugvélar geta flogið. Þjóðir heims eru ekki sammála um hvar þau mörk eru. Hvað sem því líður þá er hægt að álykta að þar sem forráðasvæði ríkja í háloftinu og alþjóðlegt loftrými endar taki geimurinn við.
Lögsaga í geimnumNefnd Sameinuðu þjóðanna um friðsamleg afnot af geimnum hefur ályktað að geimurinn skuli vera notaður í friðsamlegum tilgangi og hann sé sameign mannkyns. Ríki heims eru almennt sátt við þessa ályktun. Ljóst er af ályktun þessari að ekkert ríki hefur forráðasvæði í geimnum. Vegna þessa má spyrja sig að því hvernig refsilögsögureglum skuli háttað í geimnum yfir geimskipum og áhöfnum þeirra. Spurningunum er svarað í samningnum um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum (Treaty on Principles Governing the Activities of States in the Exploration and Use of Outer Space, including the Moon and other Celestial Bodies), taka verður fram að ekki eru allir á eitt sáttir við efni samningsins. Geta má þess að íslenska ríkið er aðili að samningnum. Í 8. gr. samningsins er kveðið á um að ríki sem sendir far út í geim skuli fara með lögsögu yfir því og áhafnarmeðlimum þess hvort sem þeir eru innanborðs eða á vappi um plánetur og tungl himingeimsins. Ljóst er af samningi þessum að refsilögsaga vegna verknaðar sem framinn er um borð í geimskipum og á svokölluðum tunglgöngum er hjá því ríki sem sendir far út í geim. Eru það því hegningarlög þess ríkis sem sendir farið sem gilda fyrir áhafnarmeðlimi hvort sem þeir eru um borð í geimskipinu eða á vappi um geiminn. Í samningnum um skráningu fara sem send er út í geim (Convention on Registration of Objects Launched into Outer Space), eru ítarlegar reglur um hvaða ríki skuli teljast hafa sent far út í geim og hvernig skráningu geimfara skuli háttað, ekki verður farið nánar út í þann samning hér.
Geimskiparán í geimnumEkki eru til neinar reglur í þjóðarétti hvernig refsilögsögureglum yfir gerendum geimskiparána skuli háttaðar. Þykir undirrituðum það ekki skrýtið, enda eru fáir sem hafa geimför í fórum sínum, hvað þá að til séu þeir aðilar sem stunda geimskiparán að staðaldri. Reyndar telur undirrituðar ólíklegt að mögulegt sé tæknilega að fremja geimskiparán eins og staðan er í dag. Í fjarlægri framtíð gæti þó geimskiparán átt sér stað. Undirritaður ætlar þó engu að spá um hvenær slíkt rán geti átt sér stað, enda ekki spámaður. Ef ríki heims myndu taka sig til og ákvarða refsilögsögureglur vegna geimskiparána er líklegt að byggt yrði á svipuðum sjónarmiðum og þeim sem lýst eru í 100-107. gr. Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Fjalla þær greinar um sjórán. Í 105. gr. Hafréttarsamningsins er fjallað um lögsögureglur yfir sjóræningjum á úthafinu. Tekið skal fram til að forða misskilningi að réttarstaða úthafsins er lík réttarstöðu geimsins. Í áðurnefndri grein kemur m.a. fram að á úthafinu sé sérhverju ríki heimilt að leggja hald á sjóræningjaskip og skip sem tekið hefur verið af sjóræningjum eða sem er undir stjórn sjóræningja auk þess sem heimilt er að handtaka sjóræningja og leggja hald á verðmæti um borð. Einnig kemur fram að dómstólar þess ríkis sem handtekið hefur sjóræningjanna séu bærir til að ákvarða viðurlög vegna verknaðar sjóræningjanna. Leggur undirritaður til að svipuð regla verði notuð um geimskiparán, er hann reyndar ekki einn um það. Myndi hún hljóða nokkurn veginn á þann veg að þar til bær geimskip [geimherskip og tollgæslugeimskip] sérhvers ríkis geti stöðvað geimskip þar sem leikur grunur á að sé geimskiparæningjaskip eða sé undir stjórn þeirra, handtekið þá og lagt hald á góss þeirra. Yrði einnig kveðið á um að dómstólar þess ríkis sem handtekið hefur geimskiparæningja geti ákvarðað viðurlög þeirra.
Þrátt fyrir að hugmyndir þessar virðist ekki vera tímabærar þá skal minnast annarra hugmynda sem hafa ekki verið taldar tímabærar í gegnum tíðina og jafnvel hafa verið taldar fáránlegar en eru í dag taldar bera vott um mikla framsýni, gæti svo verið um hugmyndir þessar.
Þeim sem vilja kynna sér geimrétt frekar er bent á heimasíðu Geimstofnunar Sameinuðu þjóðannaÞið platið mig ekki, kveðja Jói

#19 - 06-09-2005

Kosningaréttur einstaklinga er eitt öflugasta tæki sem þeir hafa yfir að ráða til að fá breytingar í gegn á hinu pólitíska landslagi.

Notaðu atkvæðisrétt þinn Jói!!!
Í uppsiglingu eru hinar og þessar kosningar, t.d. innan Sjálfstæðisflokksins eru 3 mikilvægar kosningar, þ.e. kosningar til stjórnar Heimdallar, kosningar til formanns SUS og prófkjör í borginni. Undirritaður ætlar að taka þátt í öllum þessum kosningum og ætlar að nýta kosningaréttinn sinn vel.
Í sveitastjórnarkosningunum 2002 vann ég það stórskemmtilega starf að flokka atkvæði. Nánar tiltekið þá flokkaði ég atkvæði í borgarstjórnarkosningunum. Ég hafði það verkefni að flokka í sundur þau atkvæði sem voru etv. ógild og þau atkvæði sem minni flokkar fengu, t.a.m. Húmanistaflokkurinn og Frjálslyndiflokkurinn.
Ýmislegt skondið og sérstakt kom í ljós við skoðun mína á þessum atkvæðum, einkum þó þann flokk sem var etv. ógildur. Á u.þ.b. 20 kjörseðlum hafði verið skrifuð fúkyrði fyrir aftan nafn Björns Bjarnasonar. Einhverjir voru ekki nógu sáttir við Ingibjörgu Sólrúnu og létu það í ljós með lastmælum á kjörseðlinum. Enn aðrir myndskreyttu atkvæði sín eða úthúðuðu stjórnmálamönnum yfirhöfuð. Einn kjörseðill stóð þó upp úr en á honum hafði einfaldlega verið ritað með stórum stöfum: „Þið platið mig ekki, kveðja Jói.“
Við fyrstu sýn er þetta alveg bráðfyndið, þ.e. að einhver skuli vera svo útúrflippaður að eyða kosningarétti sínum í svona vitleysu. Ef maður hins vegar skoðar málið yfirvegað þá er þetta grafalvarlegt, þ.e. að einhver hafi eytt kosningarétti sínum í vitleysu. Kosningar innan flokka sem utan eru gríðarlega mikilvægt tæki fyrir hinn almenna félagsmann eða almenning að hafa áhrif á hvernig samfélag við viljum lifa í. Því er gríðarlega mikilvægt að nota atkvæðisrétt sinn vel. Því segi ég við Jóa. „Þú platar mig ekki, X-D, kveðja Bjarni.“Þjóðarmorð ekki refsiverð að íslenskum rétti

#20 - 08-01-2006

Ísland hefur ekki gert þjóðarmorð sérstaklega refsiverð að íslenskum rétti líkt og því er skylt að gera samkvæmt þjóðarétti þó að Ísland hafi haft rúmlega hálfa öld til þess.

„Íslandsvinurinn“ Arkan
Eftir lok síðari heimsstyrjaldar hófst viðamikið starf í alþjóðakerfinu við að finna ráð og aðferðir til að koma í veg fyrir álíka hörmungar og áttu sér stað í styrjöldinni. Sáttmálinn um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð (Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide) frá 1948 er dæmi um þá viðleitni. Sáttmálinn öðlaðist gildi þann 12. janúar 1951. Ísland undirritaði samninginn 14 maí 1949 og fullgilti 29. ágúst sama ár.
Í 5. gr. samningsins segir á engilsaxnesku: The Contracting Parties undertake to enact, in accordance with their respective Constitutions, the necessary legislation to give effect to the provisions of the present Convention, and, in particular, to provide effective penalties for persons guilty of genocide or any of the other acts enumerated in article III.
Þannig er mál með vexti að Ísland hefur ekki gert hópmorð, sem í daglegu tali eru kölluð þjóðarmorð, sérstaklega refsiverð að íslenskum rétti líkt og skylt er að gera samkvæmt fyrrnefndum sáttmála, þó að Ísland hafi haft rúmlega hálfa öld til þess. Danir, sem íslendingar bera sig oft saman við í tengslum lög og reglur, settu sér slíka löggjöf árið 1955 (Lov nr. 132 af 29.04.1955 om straf for folkedrab).
Í þessu samhengi verður þó að benda á þá augljósu staðreynd að slíkt athæfi, þ.e. að taka þátt í þjóðarmorði, er refsivert að íslenskum rétti enda óheimilt að fremja manndráp. Það er hins vegar refsivert sem manndráp en ekki þjóðarmorð. Ofangreind staðreynd réttlætir engan veginn þá vöntun sem er á slíkri löggjöf hérlendis. Í fyrsta lagi er það skylda íslenska ríkisins að þjóðarétti að setja sér slíka löggjöf. Í öðru lagi er það siðferðileg skylda Íslands að vera framarlega í þeirri fylkingu ríkja er berst gegn hræðilegum voðaverkum.
Er hér með skorað á löggjafann að kippa þessum svarta bletti á íslenskri löggjöf í lag. Það ætti ekki að vera sérlega flókið.Réttarstaða geimfara V

#21 - 20-01-2006

Margvísleg þjóðréttarleg vandmál gætu skapast ef viti bornar ójarðneskar verur myndu birtast jarðarbúum. Alþjóðakerfið þyrfti að bregðast við þessu vandamáli með víðsýnum og opnum hætti.

Eiríkur Tómasson prófessor út úr speisaður
Undirritaður hefur stundum velt því fyrir sér hvernig alþjóðakerfið myndi bregðast við ef viti bornar verur úr geimnum myndu birtast á jörðinni. Þar sem undirritaður er bjartsýnismaður að eðlisfari hefur hann iðulega gert ráð fyrir að þær vildu stofna til friðsamlegra kynna við jarðarbúa. Yrði slíkt afar ánægjulegt og gæti leitt til framþróunar á sviði tækni og vísinda og glætt menningarstarfsemi jarðarbúa. Þó svo að slík tíðindi væru afar ánægjuleg þá skapast viss vandamál í þessu samhengi á sviði alþjóðalaga. Verður hér á eftir nokkur vandamál greind í örstuttu máli.
Fyrsta vandamálið sem jarðarbúar standa frammi fyrir er samskiptalegs eðlis. Grundvallaratriði samningsgerðar er tjáning. Samningsaðilar verða að geta tjáð sig með skiljanlegu móti til að ná samkomulagi. Ef geimverurnar skilja ekki eitthvert tungumál jarðarbúa þyrftu málvísindamenn að taka höndum saman og ráða í tjáningarmáta geimveranna. Verkefnið gæti reynst snúið ef geimverurnar notast við hugsanalestur.
Næsta vandamál á dagskrá (og það ekkert smá vandamál) er hver hefur umboð fyrir jarðarbúa til að semja við geimverurnar. Hefur undirritaður útfært lauslega eina hugmynd í þeim efnum, hljóðar hún svo:


Fjölmennustu og öflugustu ríki heims fengu sinn fulltrúa og síðan fengu stærstu ríkjabandalögin að útnefna sinn fulltrúa. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna væri nefndarmaður og færi fyrir henni. Nefndarmenn yrðu að hafa hagsmuni allra jarðarbúa að leiðarljósi í stað þess að einblína einungis á hagsmuni einstakra ríkja.
Mikilvægt er að útkljá hvaða réttarstöðu geimverur hafa á jörðinni. Ljóst er að gera verður greinarmun á geimverum með óhlutbundna hugsun á háu stigi og geimdýrum. Til bráðabirgða væri hægt að lögjafna réttarstöðu manna yfir á geimverur. Þannig að geimverur nytu sömu réttarstöðu og menn. Geimdýr myndu að sama skapi njóta verndar dýraverndunarlaga til bráðabirgða. Þegar fram í sækti væri hægt að semja sérreglur um réttarstöðu geimvera sem tækju mið af líkamsstarfsemi geimveranna og menningu þeirra, t.a.m. gæti Evrópuráðið samið Geimverusáttmála Evrópu með dómstól í MÍR geimstöðinni.
Jarðarbúar hafa verið svo óforskammaðir að lýsa því yfir að geimurinn sé þeirra eign og skuli nýttur í þeirra þágu. Þessu yrði að breyta. Hægt væri að notast við svipaðar hugmyndir og birtast í Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna til að redda málunum. Komið yrði á landhelgi og efnahagslögsögu í kringum plánetur, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Afgangurinn af geimnum yrði ekki á forræði neinnar plánetu. Útfæra yrði þessar hugmyndir með tilliti til viðfangsefnisins og setja svipaðar reglur og birtast í fyrrnefndum Hafréttarsamningi um m.a. löggæslu og mengunarvarnir. Snjallt væri að heimila óslitna eftirför geimskipa út úr efnahagslögsögu pláneta ef geimskip eða áhafnarmeðlimir gerast brotlegir við lög þeirrar plánetu sem um ræðir.
Líklegt er að geimverur og jarðarbúar myndu vilja koma á viðskiptasambandi sín á milli. Góð hugmynd væri að stofna fríverslunar- eða tollabandalag. Einnig væri það góð hugmynd að stofna Geimviðskiptastofnun (Space Trade Organisation). Jarðarbúar og geimverur gætu svo sett á stofn samtök helstu iðnpláneta himingeimsins líkt og helstu iðnríki heims (G8) hafa gert á jörðinni.
Ekki má gleyma að upp geta komið einkaréttarleg vandamál, t.d. ef geimvera ætlar að leigja sér videospólu á jörðinni. Við þann gerning vaknar sú spurning við hvaða reglur eigi að styðjast. Líklegt er að stuðst yrði við reglur þeirrar plánetu sem tengist viðskiptunum hvað mest nema um annað sé samið. Ef geimvera myndi leigja sér videóspólu hjá Bónusvideo t.a.m. yrði líklega stuðst við reglur jarðarbúa, þ.e. íslenskar reglur í þessu tilfelli.
Hægt væri að velta því fyrir sér hvað myndi gerast ef geimverurnar væru illskeyttir djöflar sem komnar væru til að breyta jörðinni í þrælkunarbúðir. Myndi þá kannski langþráður draumur margra um her Sameinuðu þjóðanna, sem kveðið er á um að skuli komið á laggirnar í 43. gr. sáttmála hinna sameinuðu þjóða, verða að veruleika.
Af ofansögðu er ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif á alþjóðalög ef viti bornar verur úr geimnum myndu ákveða á kíkja við á jörðinni. Vonar undirritaður að þær geimverur sem koma til jarðarinnar verði friðelskandi og taki menningu jarðarbúa opnum örmum þannig að ást, friður og kærleikur geti blómstrað í geimnum.Fjórða sætið í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1979

#22 - 17-02-2006

Framlag Þýskalands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða árið 1979, lagið Dschingis Khan, er án efa eitt allra eftirminnilegasta lag keppninnar frá upphafi.

Dschingis Khan, kannski besta hljómsveit í heimi.
Framlag Þýskalands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða árið 1979, lagið Dschingis Khan, er án efa eitt allra eftirminnilegasta lag keppninnar frá upphafi. Lagið er afbragð auk þess sem sviðsframkoma samnefndrar hljómsveitar var unaðsleg á úrslitakvöldinu í Jerúsalem laugardaginn 31. mars 1979. Stæltir karlmenn og fagrar konur íklæddust fatnaði sem minnti helst á einhvers konar diskókennda Mongólíu á dögum Ghengis Khan. Lagið sló í gegn um víða veröld og hefur textinn m.a. verið snaraður yfir á önnur tungumál, t.d. finnsku.
En það var einmitt í Rovaniemi, fjölmennasta byggðalaginu í Lapplandi, sem undirritaður heyrði fyrst þetta lag í októbermánuði 2003. Undirritaður heyrði lagið í finnsku útgáfunni á dansiballi. Gríðarlegur fögnuður braust út þegar fjöldinn heyrði lagið og dönsuðu menn uppi á borðum, þar á meðal finnskur réttarheimspekiprófessor.
En af hverju er undirritaður að minnast á þetta. Jú úrslitin í undankeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hérlendis fara fram annað kvöld. Undirritaður telur að Sylvía Nótt muni vinna keppnina hér heima en ekki ná eins langt í Aþenu. Ástæðan er sú að það er ekkert nýtt að senda sprell í söngvakeppnina. Hver man t.d. ekki eftir framlagi Þýskalands árið 1998 Guildo Hat Euch Lieb með Guildo Horn und Die Orthopädischen Strümpfe eða framlagi Þýskalands árið 2000 Wadde Hadde Dudde Da með Stefan Raab?
Það sem íslendingar þurfa að gera til að skapa arfleifð í líkingu við Dschingis Khan er að feta í fótspor Rúslönu með smá staðfæringu og láta velskeggjaða, loðna, stælta og villimannslega karlmenn og fagrar villtar meyjar klædd víkingaklæðum sigla á víkingaskipinu Íslendingi til staðarins þar sem lokakeppnin fer fram, ganga þar berserksgang með þungarokksdiskólagi þar sem sungið er um hetjudáð þeirra Gísla Súrssonar, Skarphéðins Njálssonar og Grettis sterka.
Ef Ísland gerir það mun texti lagsins ábyggilega vera snaraður yfir á fjölmörg erlend tungumál og örugglega mun einhver blindfullur finnskur prófessor í réttarheimspeki dansa upp á borði með lagið í botni árið 2030.
Góða Eurovisiongleði.Afstaða íslenska ríkisins til samskipta ríkja

#23 - 26-08-2006

Afstaða íslenska ríkisins til samskipta ríkja almennt hefur ekki hlotið mikla athygli í þjóðmálaumræðunni. Hún er þó verðugt athugunarefni og verður hér bent á visst ósamræmi í þeim efnum.
Afstaða íslenska ríkisins til samskipta ríkja almennt hefur ekki hlotið mikla athygli í þjóðmálaumræðunni. Hún er þó verðugt athugunarefni og verður hér bent á visst ósamræmi í þeim efnum.Árið 2004 var skýrslan Hafið - stefna íslenskra stjórnvalda gefin út af sjávarútvegs-, utanríkis- og umhverfisráðuneytinu. Í henni birtist stefnumörkun íslenska ríkisins í málefnum hafsins. Í skýrslunni kemur fram að stefna Íslands í málaflokknum grundvallist á þremur stoðum. Ein þessara stoða er það sjónarmið að stjórnun og ákvarðanataka við verndun vistkerfa hafsins og nýtingu lifandi auðlinda hvíli á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti. Í skýrslunni er bent á að mörg ríki sem móta umfjöllun á alþjóðavettvangi um málefni hafsins eigi lítilla eða engra beinna hagsmuna að gæta ef hlutdeild sjávarútvegs í þjóðarframleiðslu er notuð sem mælistika á slíka hagsmuni. Af lestri skýrslunnar fær lesandinn á tilfinninguna að íslensk stjórnvöld líti það hornauga að ríki með takmarkaða beina hagsmuni af sjávarnytjum láti til sín taka í umræðu um málefni hafsins.Í röksemdum sem Halldór Ásgrímsson setti fram til stuðnings framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í ræðu utanríkisráðherra til Alþingis árið 2003 birtist annað viðhorf til samskipta ríkja: "Ef til vill mætir frumkvæði af Íslands hálfu minni tortryggni en frumkvæði margra annarra ríkja, því Ísland hefur enga stórveldishagsmuni sem litað geta afskipti af einstökum málum. Þá er hlutfallsleg smæð íslensks efnahagslífs kostur, þar sem síður er hætta á að tortryggni vakni um að íslensk stjórnvöld gangi erinda íslenskra fyrirtækja og setji hagsmuni þeirra framar óeigingjarnri aðstoð við viðkomandi ríki. Fyrst og síðast er framboðið spurning um áræði og metnað fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi [...] Ef vilji er til að Ísland sé metið á jafnræðisgrundvelli í samfélagi þjóðanna, verða Íslendingar að leggja af mörkum í samræmi við getu."Hér er um visst ósamræmi að ræða. Hugmyndir af realískum og ídealískum toga virðast notaðar sitt á hvað. Til að sýna fram á sannleiksgildi þessarar fullyrðingar er hægt að máta framboð Íslands til öryggisráðsins í ramma áðurnefndrar stoðar í stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins og öfugt.Ef framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er mátað í ramma stefnu Íslands í málefnum hafsins um að stjórnun og ákvarðanataka hvíli á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eigi að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti er líklegt að slíkt framboð myndi mæta andstöðu innan stjórnkerfisins. Herlaust ríki í Norður-Atlantshafi með enga hergagnaframleiðslu á takmarkaðra beinna hagsmuna að gæta í ráði sem ber aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis af hálfu Sameinuðu þjóðanna og þar sem meirihluti mála lýtur að málefnum fjarlægra heimsálfa þar sem Ísland á varla nokkurra hagsmuna að gæta.Ef umrædd stoð í stefnu Íslands í málefnum hafsins er mátuð í þeim ramma sem framboð Íslands til öryggisráðsins er sett í er líklegt að nokkur andstaða væri gegn slíkri stefnu þar sem ríki eiga að leggja sitt af mörkum í samfélagi þjóðanna í samræmi við getu. Stjórnun og ákvarðanataka alþjóðasamfélagsins í málefnum hafsins hvílir því ekki einungis á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti.Misræmi þetta í afstöðu íslenska ríkisins til samskipta ríkja er hægt að skýra með hagsmunabaráttu Íslands á alþjóðavettvangi. Eins og kunnugt er á íslenska ríkið og Íslendingar mikilla hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Það þjónar því hagsmunum Íslands að stjórnun og ákvarðanataka við verndun vistkerfa hafsins og nýtingu lifandi auðlinda hvíli á þeim ríkjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta og ákvarðanir snerta með beinum hætti. Í tengslum við framboð Íslands til öryggisráðsins verður að hafa í huga að eftir lok kalda stríðsins hefur Ísland misst hernaðarlegt mikilvægi sitt og þar með það tangarhald sem ríkið hafði á vestrænum stórveldum. Íslenskir ráðamenn virðast því telja að Ísland verði að sækja fram á við á erlendum vettvangi í auknum mæli, m.a. í friðargæsluverkefnum á vegum NATO og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Slíkt mat íslenskra ráðamanna skýrir e.t.v. að einhverju leyti þær hugmyndir er birtast í flutningsræðu utanríkisráðherra vegna skýrslu hans til Alþingis um utanríkismál árið 2001: "Aðeins að lokum vil ég fagna því að þingmenn taka undir að Íslendingar hafa ákveðið að bjóða sig fram til setu í öryggisráðinu. Það er m.a. lykillinn að því að við komumst til meiri áhrifa í alþjóðamálum, lykillinn að því að við getum haft meiri áhrif á mál sem hæstvirtir þingmenn leggja áherslu á."Af ofansögðu virðist vera hægt að draga þá ályktun að röksemdir og undirliggjandi hugmyndir íslenska ríkisins um samskipti ríkja séu valdar eftir hagsmunum þess hverju sinni. Slík niðurstaða kemur þó varla á óvart og er varla einsdæmi. Hagsmunir eru jú lykilatriði í alþjóðastjórnmálum hvað svo sem hugsjónum líður.Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14. ágúst síðastliðinn.Sameinumst hjálpum þeim?

#24 - 19-10-2006

Einar mestu hörmungar þessa áratugar fara fram í Darfur héraði í Súdan um þessar mundir. Meiriháttar mannréttindabrot eru þar daglegt brauð. Spurningin sem brennir á vörum margra er: „Hvers vegna er ekki búið að gera neitt róttækt í málunum?“
Einar mestu hörmungar þessa áratugar fara fram í Darfur héraði í Súdan um þessar mundir. Meiriháttar mannréttindabrot eru þar daglegt brauð. Spurningin sem brennir á vörum margra er: „Hvers vegna er ekki búið að gera neitt róttækt í málunum?“Það ætti öllum að vera ljóst að ástandið í Darfur er vægast sagt ömurlegt. Frásagnir berast af ótrúlegri mannvonsku, manndrápum og nauðgunum á fullorðnum jafnt sem börnum. Frjáls félagsamtök hrópa hástöfum mannúðaríhlutun en ekkert er gert.Af hverju er ekkert gert? Af hverju grípa Sameinuðu þjóðirnar eða einstök ríki ekki inn í atburðarásina með afgerandi hætti? Hugmyndir um helgi mannslífa og og aðrar háleitar hugsjónir hjálpa lítið við þá skoðun.Í fyrsta lagi eru Sameinuðu þjóðirnar myndaðar af ríkjum. Þó að öryggisráð samtakanna geti heimilað friðargæslu og aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása til að koma á röð og reglu er ekki þar með sagt að aðildarríki þess hafi pólitískan vilja til að grípa til slíkra aðgerða.Í öðru lagi eru ríki ekki mikið fyrir að skipta sér af innanríkismálum annarra ríkja nema það þjóni hagsmunum þeirra á einhvern hátt.Í þriðja lagi kostar hernaðaríhlutun blóðsúthellingar og peninga. Ríki eru yfirleitt ekki tilbúin að fórna blóði hermanna sinna og fjármagni nema slíkt samræmist skýrum þjóðarhagsmunum þess.Í fjórða lagi er það ríki sem hefur hvað mest bolmagn til að beita sér hernaðarlega, þ.e. Bandaríkin, varla tilbúnið til meiriháttar innrásar þar sem það þarf að hugsa um Írak og Afghanistan auk þess sem kjarnorkubrölt N-Kórea er meiriháttar hausverkur fyrir Bandaríkjamenn. Bandarískir skattborgarar yrðu jafnframt varla sáttir við frekari útgjöld til hernaðarmála sem ærin og umdeild eru fyrir.Í fimmta lagi eru önnur aðildarríki NATO væntanlega frekar óspennt að grípa með afgerandi hætti í taumana enda eru þau með hugann við að ráða niðurlögum talibana í Afghanistan með takmörkuðum árangri.Í sjötta lagi þarf að hafa í huga að ekki er nóg að ráðast inn í Darfur og stoppa óöldina. Héraðið er algjörlega í rúst og vinna þarf í áratugi til að ná árangri við endurreisn þess. Til þess þarf peninga sem enginn er tilbúinn að láta af hendi.Þessi atriði sem hér hefur verði bent á gefa til kynna að erfitt sé „að selja“ hugmyndina um mannúðaríhlutun í Súdan til þeirra sem hafa bolmagn til að láta til sín taka. Ef eitthvað er til í þessum vangaveltum má draga þá ályktun að þar til bærir aðilar komi ekki til með að grípa til aðgerða í Darfur með þeim afleiðingum að ríki náttúrunnar verður áfram ráðandi í héraðinu.

Hljómfögur þvæla

#25 - 23-01-2007

Um þessar mundir er mjög móðins að ræða umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna. Í því samhengi nefna menn og konur iðulega þörfina fyrir að fjölga aðildarríkjum sem eiga sæti í öryggisráði samtakanna og jafnvel þeim ríkjum sem geta beitt neitunarvaldi. Sú hugmynd að fjölga ríkjum með neitunarvald er illframkvæmanleg og þar að auki óskynsamleg.

International politics, like all politics, is a struggle for power. Whatever the ultimate aims of international politics, power is always the immediate aim. (Hans Morgenthau)
Um þessar mundir er mjög móðins að ræða umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna. Í því samhengi nefna menn og konur iðulega þörfina fyrir að fjölga aðildarríkjum sem eiga sæti í öryggisráði samtakanna og jafnvel þeim ríkjum sem geta beitt neitunarvaldi. Sú hugmynd að fjölga ríkjum með neitunarvald er illframkvæmanleg og þar að auki óskynsamleg.Margur hefur bent á að heimurinn líti ekki eins út og hann gerði fyrir rúmlega 60 árum. Nokkuð virðist til í því. Hinir sigruðu eru komnir sterkir til baka og vilja sæti við borð hinna útvöldu í alþjóðakerfinu. Reyndar eru fleiri sem banka á dyrnar, einkum Indland og Brasilía. Þessum nýju og endurholdguðu stjörnuleikmönnum á leiksviði alþjóðastjórnmálanna hefur hins vegar ekki verið hleypt inn í klúbbhúsið en blikur eru á lofti.Nokkuð algengt er að heyra nokkuð skynsamt fólk tala um að sniðugt sé að fjölga ríkjum með neitunarvald í öryggisráðinu. Þá einkum til að Sameinuðu þjóðirnar endurspegli betur hið svokallaða „alþjóðasamfélag“. Ólíklegt er að nokkuð verði úr þeim hugmyndum. Samkvæmt 1. tl. 23. gr. sáttmála hinna sameinuðu þjóða skipa öryggisráðið fimmtán meðlimir samtakanna og eiga Kína, Frakkland, Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin fast sæti í ráðinu. Í 108. gr. sama sáttmála er kveðið á um að tillögur til breytingar á sáttmálanum skuli ganga í gildi fyrir alla meðlimi hinna sameinuðu þjóða, þegar þær hafa verið samþykktar með atkvæðum tveggja þriðju hluta af meðlimum allsherjarþingsins og staðfestar samkvæmt stjórnskipunarvenjum hvers um sig af tveim þriðju hlutum meðlima hinna sameinuðu þjóða, þar með taldir allir fastir meðlimir öryggisráðsins.Heldur einhver virkilega að Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland muni öll ákveða að það sé sniðugt að minnka völd sín í voldugustu stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis? Slíkt er algjör óskhyggja ef ekki firra.Það er ekki einungis ólíklegt að slíkar breytingar nái í gegn heldur eru þær einnig óskynsamlegar, þ.e. ef skilvirkni Sameinuðu þjóðanna er höfð að leiðarljósi. Heldur fólk virkilega að fleiri mál komist í gegnum öryggisráðið með því að fjölga ríkjum sem geta beitt neitunarvaldi? Slíkt verður að teljast nokkuð órökrétt ef höfð er í huga sú realpolitik sem iðulega er ástunduð innan veggja ráðsins.Einhverjum kann að þykja þetta nokkuð kaldrifjað sjónarmið. Heimur alþjóðastjórnmálanna er hins vegar kaldur og hugtök á borð við sanngirni og jafnræði koma að takmörkuðum notum við að kryfja þau. Hljómfagrar lausnir eins og fjölgun ríkja með neitunarvald í öryggisráðinu eru hins vegar ólíklegar til árangurs og munu að öllum líkindum vinna gegn skilvirkni í alþjóðakerfinu. Ekki viljum við það.Efnahagslögsagan

#26 - 26-01-2007

„Eins og allir vita lauk þessum þremur þorskastríðum öllum á einn veg: Með fullum sigri Íslendinga. Stefna þeirra sigraði einnig á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir mjög harða andstöðu margra voldugra þjóða.“
„Eins og allir vita lauk þessum þremur þorskastríðum öllum á einn veg: Með fullum sigri Íslendinga. Stefna þeirra sigraði einnig á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir mjög harða andstöðu margra voldugra þjóða.“ Með þessum orðum er endalokum Þorskastríðanna lýst á vefsíðu Landhelgisgæslunnar. Sú hugmynd að stefna Íslendinga hafa sigrað á alþjóðavettvangi er athyglisverð. Þar er að öllum líkindum átt við þróun hafréttarins á áttunda áratugnum og útkomu þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, eins og hún birtist í V. kafla hafréttarsamningsins sem fjallar um efnahagslögsögu. Umrædd orð sem viðhöfð eru á vefsíðu Landhelgisgæslunnar gefa hins vegar of einfalda mynd af þessum atburðum.Áhrif Íslands á þróun hafréttarins á 20. öld eru ekki eins mikil og oft er af látið. Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hefur bent á að Íslendingar hafi aldrei ráðið úrslitum á alþjóðavettvangi á árabilinu 1948 til 1976 og nær örugglega væri í gildi 200 sjómílna efnahagslögsaga hér og annars staðar þótt Íslendingar hefðu engin Þorskastríð háð. Í þessu samhengi er rétt að benda á að forseti Chíle lýsti yfir 200 sjómílna landhelgi árið 1947 fyrir hönd ríkisins, 28 árum fyrr en íslenska ríkið lýsti yfir 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Fleiri ríki í S-Ameríku fylgdu í kjölfarið. Það voru því fleiri sem gengu hart fram í þessum málaflokki en íslenska ríkið, þótt það hafi sjaldan verið látið í veðri vaka í íslenskri þjóðmálaumræðu.Árið 1973 hófst þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Á henni var tekist á um viðfangsefni sem snertu og snerta íslenska hagsmuni afar mikið, m.a. forgangur strandríkja til náttúruauðlinda utan landhelginnar. Samningaferlið tók níu ár og voru 164 ríki skráð til leiks. Auk þeirra sóttu ráðstefnuna sex lönd með takmarkaða stjórn í eigin málum, átta þjóðfrelsishreyfingar, tólf sérhæfðar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, nítján alþjóðastofnanir, fjölmargar hálfsjálfstæðar einingar innan Sameinuðu þjóðanna auk frjálsra félagasamtaka (NGO’s). Ráðstefnan glímdi alls við 25 málaflokka. Einn þeirra var það sem var nefnt efnahagslögsöga.Hafréttarstefna ríkja mótast að verulegu leyti af landfræðilegum þáttum. Landfræðilegum þáttum eins og lögun og lengd strandlengju, víðáttu landgrunns, nálægð nágrannaríkja og hvort aðlægt haf eða hafsbotn sé ríkur af auðlindum. Auk þess mótast stefnan af stærð kaupskipaflota og styrk sjóhers, samskipti ríkja við nágrannaríki og því hverjir hernaðarlegir bandamenn þeirra eru. Í samræmi við það mynduðu ríki á hafréttarráðstefnunni, sem áttu svipaðra hagsmuna að gæta, með sér bandalög. Á hafréttarráðstefnunni skipaði Ísland sér fyrst og fremst í tvær blokkir, þ.e. strandríkjablokkina og breiðgrunnsríkjablokkina, sem skýrist einkum af landfræðilegum ástæðum. Strandríkjablokkin var mynduð af 76 strandríkjum. Hún var aðallega mynduð til að berjast fyrir sem mestri lögsögu strandríkja á höfunum og til að berjast gegn sjónarmiðum landluktra og landfræðilegra afskiptra ríkja. Síðarnefnda blokkin var mynduð af 55 ríkjum, vanþróuðum sem og þróuðum. Landlukt og landfræðilega afskipt ríki beittu sér einkum gegn stækkun lögsögu strandríkja, t.a.m. gegn hugmyndinni um efnahagslögsögu. Breiðgrunnsríkjablokkina mynduðu 13 ríki. Helstu baráttumál þessa hóps var að strandríki fengu nýtingarrétt yfir landgrunninu utan 200 sjómílna.Almennt er talið að niðurstaða þriðju hafréttarráðstefnunar hafi verið strandríkjum í hag. Með hliðsjón af ofangreindu er því nokkur einföldun að halda því fram að stefna Íslendinga hafi sigrað á alþjóðavettvangi eins og gert er á vefsíðu Landhelgisgæslunnar. Það er réttara að halda því fram að sjónarmið strandríkja hafi haft betur á þriðju hafréttarráðstefnunni og þar með þau sjónarmið sem íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir að næðu fram að ganga.

Svalbarði

#27 - 30-01-2007

Þann 17. ágúst 2004 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að því að vísa deilu Íslendinga og Norðmanna um síldveiðar á Svalbarðasvæðinu til Alþjóðadómstólsins í Haag. Ef af málssókninni verður er það í fyrsta sinn sem Ísland stefnir öðru ríki fyrir alþjóðadómstól.
Þann 17. ágúst 2004 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að því að vísa deilu Íslendinga og Norðmanna um síldveiðar á Svalbarðasvæðinu til Alþjóðadómstólsins í Haag. Ef af málssókninni verður er það í fyrsta sinn sem Ísland stefnir öðru ríki fyrir alþjóðadómstól.Svalbarði er eyjaklasi með fjórum stórum eyjum og mörgum smærri, samtals 63.000 ferkílómetrar. Svalbarði nýtur sérstakrar stöðu í þjóðarétti. Um landsvæðið gildir sérstakur samningur svokallaður Svalbarðasamningur frá 1920.Samningurinn um Svalbarða hefur að markmiði uppbyggingu eyjaklasans og friðsamlega nýtingu hans. Samningurinn kveður á um yfirráð Noregs yfir honum, en frá þeirri meginreglu eru mikilvægar undantekningar, m.a. eiga ríkisborgarar aðildarríkjanna og skip þeirra sama rétt og Norðmenn til veiða á sjó og landi en Norðmönnum er heimilt að grípa til verndaraðgerða, sem verða þó að koma jafnt niður á borgurum aðildarríkjanna. Ástæða þess að Noregi var falin yfirráð á eyjunum var nálægðin við eyjarnar. Með þeirri skipan mála var ekki ætlunin að veita Noregi sérstakan efnahagslegan ávinning. Þvert á móti var það annað markmið samningsins að tryggja rétt annarra ríkja til auðlindanýtingar á eyjunum sem þau höfðu áður notið meðan þær voru einskis manns lands.Þann 3. júní 1977 lýsti Noregur yfir 200 sjómílna fiskverndarsvæði umhverfis Svalbarða með konunglegri tilskipun. Um 830.000 ferkílómetra hafsvæði og ein gjöfulustu fiskmið í Barentshafi voru allt í einu komin í forsjá norska ríkisins. Mörg ríki mótmæltu tilskipuninni frá 1977, m.a. Sovétríkin og Ísland. Tilkall Noregs er vafasamt eins og síðar verður vikið að. Robin Churchill, prófessor við Cardiff háskóla og þekktur sérfræðingur á sviði hafréttar, hefur bent á að 200 sjómílna svæðið umhverfis Svalbarða verði að byggjast á ríkisyfirráðum Noregs á Svalbarða og þar af leiðandi á Svalbarðasamningnum. Norðmenn geta því ekki byggt rétt sinn á innlendri löggjöf einni.Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum þann 30. maí 1994 og var hann fullgiltur degi síðar. Tilgangurinn með aðild að samningnum var að tryggja hlutdeild Íslands í aðgerðum sem fram færu á grundvelli hans. Í flutningsræðu Jóns Baldvins vegna skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál 1994 voru sett fram rök í málinu sem lýsa afstöðu Íslands.“Í 2. gr. Svalbarðasamningsins frá 1920 er kveðið skýrt og ótvírætt á um það að allir þegnar frá aðildarríkjum og skip þeirra skuli njóta sama réttar til veiða á eyjunum og í landhelgi þeirra. Með því að lýsa einhliða yfir fiskverndarsvæði Noregs og 200 sjómílna svæðis út frá Svalbarða hefur Noregur tekið sér vald, bæði til að setja þar fiskverndarreglur og úthluta veiðikvótum að eigin geðþótta, án samráðs við samningsaðila. [...] Við teljum ótvírætt að alþjóðlegur dómstóll kæmist að þeirri niðurstöðu að jafnræðisregla 2. gr. Svalbarðasamningsins eigi að gilda á öllu þessu svæði.”Eins og áður segir samþykkti ríkisstjórn Íslands þann 17. ágúst 2004 að hefja undirbúning að því að vísa deilunni til Alþjóðadómstólsins. Morgunblaðið hafði eftir Halldóri Ásgrímssyni við það tækifæri að einhugur væri um málið innan ríkisstjórnarinnar. Jafnframt sagði Halldór að þó hafist yrði handa við undirbúning að málsókn væri brýnt að reyna til þrautar samningaleiðina við Norðmenn.Ef Ísland fer með málið fyrir Alþjóðadómstólinn verður það í fyrsta skipti sem Ísland stefnir öðru ríki fyrir alþjóðlegum dómstóli og þ.a.l. merkisatburður í sögu íslenskra utanríkismála. Um að gera að kýla á það.Aðlægt belti

#28 - 01-02-2007

Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið sérlega feimin þegar kemur að samskiptum við önnur ríki um málefni hafsins. Það skýtur því skökku við að þau skuli ekki hafa tekið sér svokallað aðlægt belti sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna heimilar ríkjum að taka sér.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið sérlega feimin þegar kemur að samskiptum við önnur ríki um málefni hafsins. Það skýtur því skökku við að þau skuli ekki hafa tekið sér svokallað aðlægt belti sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna heimilar ríkjum að taka sér.Samkvæmt 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna geta strandríki tekið lögsögu á belti sem liggur að landhelginni. Slíkt belti má ekki ná lengra en 24 sjómílur frá grunnlínunum. Á aðlæga beltinu, getur strandríkið farið með nauðsynlegt vald annars vegar til að afstýra brotum á lögum og reglum þess í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum í landi eða landhelgi þess og hins vegar til að refsa fyrir brot á ofangreindum lögum og reglum sem framin eru í landi eða landhelgi þess. Með 24. gr. Genfarsamningsins um landhelgina og aðlæga beltið frá 1958 var ríkjum fyrst heimilað að taka upp slíkt belti að þjóðarétti. Mátti það ná 12 sjómílna fjarlægð frá grunnlínum.Rétt er að geta þess að Ísland fullgilti aldrei fyrrnefndan Genfarsamning og skömmu eftir tilurð hans færði Ísland landhelgi sína út í 12 sjómílur. Það hefði því verið órökrétt að taka upp aðlægt belti á þeim tíma. Önnur staða er uppi á borðinu eftir undirritun og fullgildingu hafréttarsamningsins. Ísland hefur ekki tekið lögsögu á slíku belti og ekki virðist hafa komið til tals, a.m.k. opinberlega, að taka lögsögu á þessu svæði umhverfis landið.Í bók Gunnars G. Schram, Hafréttur er bent á að ákvæði hafréttarsamningsins um efnahagslögsögu dragi mjög úr mikilvægi aðlæga beltisins. Strandríkjum sé nú heimilað að taka sér allt að 200 sjómílna efnahagslögsögu og þá sé aðlæga beltið innan þeirrar lögsögu en ekki á úthafinu. Þessi réttur ríkja til efnahagslögsögu leiði til þess að dregið hafi úr mikilvægi aðlæga beltisins.Hins vegar verður að benda á að réttindin sem fylgja efnahagslögsögunni taka ekki til þeirra málaflokka er fylgja aðlæga beltinu. Þrátt fyrir að aðlæga beltið feli ekki í sér stækkun á yfirráðasvæði ríkja er hafa tekið sér efnahagslögsögu þá fjölgar málaflokkunum sem ríkin hafa forræði yfir á svæðinu sem aðlæga beltið tekur til.Í ljósi þess að öryggis- og varnarmál Íslands á friðartímum eru nú alfarið á könnu Íslendinga kemur e.t.v. frekar til greina að taka upp slíkt belti. Með því fengi Landhelgisgæslan rýmri heimildir til eftirlits í veigamiklum málaflokkum. Landi og lýð til heilla.

Össur og Chavez

#29 - 08-02-2007

Váleg tíðindi berast frá Venesúela. Þann 31. janúar samþykkti þing Venesúela að veita forseta ríkisins, Hugo Chavez, völd til að stjórna með tilskipunum næsta hálfa annað árið, á meðan hann reynir að gera að veruleika þjóðnýtingaráform sem eiga að veru lykillinn að vinstribyltingunni sem hann vill gera.
Váleg tíðindi berast frá Venesúela. Þann 31. janúar samþykkti þing Venesúela að veita forseta ríkisins, Hugo Chavez, völd til að stjórna með tilskipunum næsta hálfa annað árið, á meðan hann reynir að gera að veruleika þjóðnýtingaráform sem eiga að vera lykillinn að vinstribyltingunni sem hann vill gera. Sú bylting felst m.a. í þjóðnýtingu orku og fjarskiptaiðnaðarins í ríkinu.Af einhverjum ástæðum dáist margur vinstri maðurinn á Íslandi að Chavez og ekki minnkaði sú aðdáun eftir illa ígrundaðra og innihaldslausra upphrópandi hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust. Einn þeirra sem dáist að Chavez er Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar. Í ansi athyglisverðri færslu á vefsíðu Össurar frá 28. nóvember á síðasta ári ritaði hann eftirfarandi:„Það eru mikil tíðindi að gerast í Suður-Ameríku, álfu hjarta míns. Daníel Ortega vann um daginn sigur í forsetakosningunum í Níkaragva, byltingarhetjan og verkalýðsforinginn Lúla var nýlega endurkjörinn í Brasilíu, Evó Mórales vann í Bólivíu og strigakjafturinn með stálhnefana, Hugó Chavez, stýrir Venesúelu.Þarmeð má segja að við jafnaðarmenn séum búnir meira og minna að leggja undir okkur Suður-Ameríku.“Af þessari færslu Össurar má draga þá ályktun að Össur telji sig skoðanabróður Hugo Chavez. Hlýtur slík afstaða að teljast nokkuð merkileg og jafnvel furðuleg. Spyrja verður hvort Össur álíti þjóðnýtingu og einræðistilburði æskilega. Var ekki í mikilli tísku hjá íslenskum jafnaðarmönnum fyrir ekki svo löngu að tala um lýðræðishalla? Verður ekki að telja ákvörðun þingsins í Venesúela til marks um lóðréttan lýðræðishalla? Össur virðist hafa velþóknun á mönnum sem standa fyrir slíku. Því ætti að halda til haga.Er klerkastjórn í Hádegismóum?

#30 - 14-04-2007

Þann 5. apríl síðastliðinn birtist ritstjórnargrein í Morgunblaðinu sem bar heitið „Ákvörðun Írana“. Í þeirri grein birtast nokkað sérstakar fullyrðingar þar sem Írönum er hampað í deilu þeirra við Breta um sjóliðana 15 sem Íranir tóku höndum.
Þann 5. apríl síðastliðinn birtist ritstjórnargrein í Morgunblaðinu sem bar heitið „Ákvörðun Írana“. Í þeirri grein birtast nokkað óvenjulegar yfirlýsingar þar sem Írönum er hampað í deilu þeirra við Breta í sjóliðadeilunni. Ein þessara yfirlýsinga er efni þessa pistils. Hljóðar hún svo: „Nú er auðvitað ljóst, að hafi brezku sjóliðarnir verið í landhelgi Írana höfðu hinir síðarnefndu fullan lagalegan rétt til að handsama þá.“ Þessi fullyrðingin er röng.Þann 23. mars síðastliðinn átti einkennilegur atburður sér stað. Íranir tóku 15 breska sjóliða höndum og héldu þeim í 13 daga. Bretar halda því fram að þeir hafi verið í íraskri landhelgi en Íranir að atburðirnir hafi átt sér stað í íranskri landhelgi. Rétt er að benda á að erfitt gæti reynst að sýna fram á á hvaða yfirráðasvæði atburðurinn átti sér stað þar sem landhelgi Írans og Íraks afmarkast af miðlínu Shatt al-Arab fljótsins sem ágreiningur er um hvar liggur. Jafnframt er rétt að benda á að Íranar eru tvísaga um hvar þeir tóku sjóliðana höndum. Hér á eftir verður sýnt fram á að ekki skipti lykilmáli hvort sjóliðarnir hafi verið í íranskri né íraskri landhelgi. Íran hafi yfirhöfuð ekki haft rétt á að handsama sjóliðana.Strandríki hafa fullveldisrétt í landhelgi sinni. Eina takmörkunin á þessum rétti er að skip allra ríkja njóta þar réttar til friðsamlegrar farar í samræmi við tilteknar reglur þar að lútandi. Ef sýnt er fram á með óyggjandi hætti að sjóliðarnir hafi verið í íraskri lögsögu brutu Íranir hvort tveggja á fullveldisrétti Íraks og Bretlands. Í tilfelli Bretlands byggist það á því að herskip eru álitin framhald af fullveldi ríkis og njóta sem slík friðhelgi undan lögsögu annarra ríkja. Skiptir þá ekki máli hvort herskipið er flugmóðurskip eða árabátur. Í tilfelli Íraks byggist það á því að ófriðsamleg aðgerð fór fram á yfirráðasvæði þess. Ef aðgerð Írana átti sér staða í landhelgi Íraks er alveg ljóst að hún var ólögmæt.Ef för skips er „ófriðsamleg“ um landhelgina getur strandríki meinað skipi frekari aðgang að landhelginni og skipað skipinu að yfirgefa landhelgina án tafar. Strandríkið getur jafnvel stöðvað för skipsins og hafið rannsókn á athöfnum þess.Herskip eru hins vegar undanþegin slíkri rannsókn, stöðvun eða öðrum aðgerðum af sama meiði þar sem þau njóta friðhelgi. Ef herskip fer ekki eftir lögum og reglum strandríkisins um ferð um landhelgina og hefur að engu tilmæli sem gerð eru til þess um að virða þau getur strandríkið krafist þess að það fari þegar í stað úr landhelginni. Ef ríki verður ekki við slíkri beiðni getur ríkið gripið til harðari aðgerða. Hafa verður þó í huga að gæta verður hófs í öllum aðgerðum og ekki grípa til harðari úrræða en nauðsynleg eru hverju sinni.Af fréttaflutningi um sjóliðana 15 verður hvorki séð að Íranir hafi bent sjóliðunum á að þeir væru í “íranskri” lögsögu eða að för þeirra um landhelgi Írans væri “ófriðsamleg”. Þeir virðast hafa handsamað þá án viðvarana. Slíkt er ekki í samræmi við ríkjandi hugmyndir. Á það sér skýringar sem eiga sér nokkra sögu. Íranar telja að þjóðréttarvenja heimili þeim að setja samþykki sitt sem skilyrði fyrir friðsamlegri för herskipa í gegnum landhelgi sína. Benda verður á að tilvist slíks réttar hefur verið dreginn all verulega í efa bæði af ýmsum ríkjum sem og sérfræðingum á sviði hafréttar. Rétt er að geta þess að í ritinu United States Responses to Excessive Martime Claims frá árinu 1996 kemur fram að 23 ríki (m.a. Súdan, Sómalía, Sýrland og Kongó) haldi fram að þau hafi slíkan rétt. Jafnframt verður að benda á að í hafréttarsamningi SÞ, sem 152 ríki (þó ekki Íran) eru nú aðilar að, er ekki kveðið á slíkan rétt. Í Genfarsamningnum frá 1958 um landhelgi og aðlægt belti er heldur ekki kveðið á um þennan rétt. Eins og gefur að skilja eru þessar hugmyndir Írana verulega vafasamar og standast hreinlega ekki nánari skoðun.Það er því erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að Íran hafi ekki farið að viðurkenndum reglum í þessu máli hvort sem atburðirnir áttu sér stað í íraskri eða íranskri lögsögu. Fullyrðing Morgunblaðsins er því röng. Fjalla mætti um réttmæti fleiri fullyrðinga í fyrrnefndri ritstjórnargrein. Hér verður þó staðar numið.Getur utanríkisstefna verið sjálfstæð?

#31 - 22-05-2007

Hugtakið sjálfstæð utanríkisstefna birtist af og til í skrifum hinna og þessara. Hvað eigi að felast nákvæmlega í slíkri stefnu fylgir hins vegar ekki allaf sögunni. Hér á eftir verða færð rök fyrir því að utanríkisstefna geti aldrei verið sjálfstæð.
Hugtakið sjálfstæð utanríkisstefna birtist af og til í skrifum hinna og þessara. Hvað eigi að felast nákvæmlega í slíkri stefnu fylgir hins vegar ekki allaf sögunni. Hér á eftir verða færð rök fyrir því að utanríkisstefna geti aldrei verið sjálfstæð.Friðsamningarnir í Vestfalíu árið 1648 marka upphaf þess ríkjaskipulags og alþjóðakerfis sem við búum við í dag. Meginprinsipp samninganna urðu að grundvallarreglum alþjóðakerfisins. Meginreglan um fullveldi ríkja og sjálfákvörðunarétt þeirra, reglan um jafnræði ríkja og meginreglan um að ríkjum sé óheimilt að skipta sér af málefnum sem koma í aðalatriðum undir eigin lögsögu ríkis voru festar í sessi með samningunum.Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Á þeim tíma sem Íslendingur voru að fagna því að Ísland skyldi vera komið í hóp sjálfstæða ríkja voru þau ríki sem fyrir voru að gefa eftir hluta af fullveldi sínu. Grunnur var lagður að Bretton Woods stofnunum, Sameinuðu þjóðirnar taka við af Þjóðarbandalaginu auk þess sem Evrópusamruninn hefst fyrir alvöru. Það væri of djúpt í árina tekið að fullyrða að það hrikti í stoðum hins Vestfalíska kerfis. Hins vegar er ljóst að nokkrar breytingar hafa átt sér stað og að ríki eru talsvert veikara fyrirbæri nú á tímum en áður fyrr einkum í þeim skilningi að aðrir gerendur svo sem alþjóðastofnanir og stórfyrirtæki spila stóra rullu í alþjóðastjórnmálum auk þess sem fjarskiptabyltingin hefur minnkað vægi tíma og rúms í samskiptum manna og erfiðara er fyrir ríki að stjórna upplýsingastreymi til almennings.Í nútímanum er tóm tjara að tala um sjálfstæða utanríkisstefnu. Utanríkisstefna getur ekki verið sjálfstæð. Hún er flókið samspil margvíslegra þátta og er oft á tíðum viðbragð við utanaðkomandi atburðum. Landfræðileg lega, hernaðarstyrkur, efnahagsmáttur, vinaþjóðir, hernaðarlegir bandamenn, aðsteðjandi ógnir, viðskiptahagsmunir, þrýstingur hagsmunahópa, almenningsálit, persónuleg tengsl o.fl. eru þættir sem hafa áhrif á stefnuna. Það er því hrein ímyndun að tala um sjálfstæða utanríkisstefnu. Þeir sem gera það virðast fyrst og fremst pirraðir yfir nánu sambandi Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina.Dead men tell no tales á Reykjaneshrygg???

#32 - 25-06-2007

Undirritaður las rétt áðan, á fréttamiðlinum www.visir.is, frétt er bar fyrirsögnina: Árangur gegn sjóráni? Í henni voru kynnt til sögunnar þau gleðilegu tíðindi að samhæfðar aðgerðir ríkja við Norður-Atlantshafið gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum á svæðinu hefðu borið árangur. Hvað kemur það sjóránum við?
Undirritaður las rétt áðan, á fréttamiðlinum www.visir.is, frétt er bar fyrirsögnina: Árangur gegn sjóráni? Í henni voru kynnt til sögunnar þau gleðilegu tíðindi að samhæfðar aðgerðir ríkja við Norður-Atlantshafið gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum á svæðinu hefðu borið árangur. Hvað kemur það sjóránum við?Hið dramatíska hugtak sjóræningjaveiðar hefur tekið sér bólfestu í íslensku máli og virðist ættað úr norsku. Benda verður á að þetta er afskaplega óheppilegt hugtak vegna tveggja ástæðna. Í fyrsta lagi getur hugtakið valdið ruglingi þar sem það endurspeglar ekki hugtakanotkun ríkjandi þjóðréttarreglna um sjórán og í öðru lagi er hugtakið ónákvæmt.Á síðustu árum hefur athygli íslenskra stjórnvalda beinst í meira mæli að úthafsveiðum á Reykjaneshrygg. Spjótin hafa einkum beinst að óábyrgum veiðum. Þau skip sem stunda slíka iðju sigla iðulega undir hentifána og stundum eru veiðar þeirra kallaðar sjóræningjaveiðar. Það sem átt hefur sér stað á Reykjaneshreygg tengist hins vegar ekki sjóránum með nokkru móti. Reglur um sjórán eru aldagamlar og endurspegla ákvæði hafréttarsamnings SÞ þær. Í 1. málsl. 103. gr. hafréttarsamningsins eru sjóræningjaskip skilgreind. Samkvæmt því ákvæði telst skip sjóræningjaskip ef mennirnir, sem ráða mestu um stjórn þess, hyggjast nota það til þess að grípa til einhverra þeirra aðgerða sem getið er í 101. gr. Sú grein kveður á um eftirfarandi:

Sjórán felst í einhverri eftirfarandi aðgerða:a) ólöglegri ofbeldis- eða haldsaðgerð, eða ruplaðgerð, sem áhöfn eða farþegar skips eða

loftfars í einkaeign grípa til í eiginhagsmunaskyni og beina:

i) gegn öðru skipi eða loftfari á úthafinu eða gegn mönnum eða eignum um borð í

þessu skipi eða loftfari;

ii) gegn skipi, loftfari, mönnum eða eignum á stað utan lögsögu ríkja;

b) aðgerð, fólginni í sjálfviljugri hlutdeild í starfrækslu skips eða loftfars með vitund um

staðreyndir sem gera það að sjóræningjaskipi eða -loftfari;

c) aðgerð, fólginni í því að hvetja til aðgerðar, sem lýst er í a- eða b-lið, eða auðvelda hana af ásettu ráði.Augljóst er að þau skip sem eru að veiðum fyrir utan íslensku efnahagslögsöguna geta ekki talist sjóræningjaskip í þessum skilningi (og varla dettur neinum það í hug). Undirrituðum finnst full gróft að líkja aðgerðum þeirra er stunda óábyrgar veiðar við aðgerðum þeirra er stunda sjórán þar sem manndráp og limlestingar eru lifibrauð sjóræningja. Hins vegar er undirrituðum ljóst að hægt er að líta á slíkar veiðar sem rán sér í lagi ef menn líta á þær sem svokallaðan zero-sum leik.Á ensku ganga óábyrgar veiðar undir nafninu IUU fishing (Illegal, unreported and unregulated fishing)* sem er mun nákvæmari lýsing á því sem átt er við. Gerður er greinarmunur á þremur tegundum óábyrgra veiða. Það eru því ekki ein tegund af óábyrgum veiðum heldur þrjár tegundir. Veiðar skipa geta svo falið allir tegundirnar í sér eða eða eina eða tvær. Undirritaður ætlar að leggja til að hætt verði að tala um sjóræningjaveiðar og í staðinn verði talað um óábyrgar veiðar enda koma sjórán veiðum ekkert við.

* Í plaggi frá FAO, The International Plan of Action to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing, eru hugtökin “illegal fishing”, “unreported fishing”, and “unregulated fishing” skilgreind með eftirfarandi hætti.

3.1 Illegal fishing refers to activities:

3.1.1 conducted by national or foreign vessels in waters under the jurisdiction of a State, without the permission of that State, or in contravention of its laws and regulations;

3.1.2 conducted by vessels flying the flag of States that are parties to a relevant regional fisheries management organization but operate in contravention of the conservation and management measures adopted by that organization and by which the States are bound, or relevant provisions of the applicable international law; or

3.1.3 in violation of national laws or international obligations, including those undertaken by cooperating States to a relevant regional fisheries management organization.

3.2 Unreported fishing refers to fishing activities:

3.2.1 which have not been reported, or have been misreported, to the relevant national authority, in contravention of national laws and regulations; or

3.2.2 undertaken in the area of competence of a relevant regional fisheries management organization which have not been reported or have been misreported, in contravention of the reporting procedures of that organization.

3.3 Unregulated fishing refers to fishing activities:

3.3.1 in the area of application of a relevant regional fisheries management organization that are conducted by vessels without nationality, or by those flying the flag of a State not party to that organization, or by a fishing entity, in a manner that is not consistent with or contravenes the conservation and management measures of that organization; or

3.3.2 in areas or for fish stocks in relation to which there are no applicable conservation or management measures and where such fishing activities are conducted in a manner inconsistent with State responsibilities for the conservation of living marine resources under international law.

3.4 Notwithstanding paragraph 3.3, certain unregulated fishing may take place in a manner which is not in violation of applicable international law, and may not require the application of measures envisaged under the International Plan of Action`(IPOA).

Prófessor leiðréttur um málefni hafsins

#33 - 17-08-2007

Deilur um rétt til landgrunns Norðurpólsins fyrir utan 200 sjómílurnar hefur verið í kastljósi heimsfréttanna að undanförnu og hafa Rússar og Kanadamenn einkum verið áberandi í þeirri umræðu. Í kjölfarið hafa hinir og þessir velt því fyrir sér hvort Ísland geti gert tilkall til svæðisins. Svo er ekki.
Deilur um rétt til landgrunns Norðurpólsins fyrir utan 200 sjómílurnar hefur verið í kastljósi heimsfréttanna að undanförnu og hafa Rússar og Kanadamenn einkum verið áberandi í þeirri umræðu. Í kjölfarið hafa hinir og þessir velt því fyrir sér hvort Ísland geti gert tilkall til svæðisins. Svo er ekki.Í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 síðastliðinn mánudag var rætt við Trausta Valsson prófessor í verkfræði um málefni Norðurpólsins þar sem kom fram m.a. að hann teldi sérstaklega mikilvægt að fylgja eftir af festu rétti Íslendinga við Jan Mayen. Það er mjög sérstök skoðun.Þannig er málum hagað að 28. maí 1980 undirrituðu fulltrúar Íslands og Noregs samkomulag um fiskveiði- og landgrunnsmál og 22. október 1981 samkomulag um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Samkomulög þessi öðluðust gildi 2. júní 1982 eftir að hafa verið fulgilt nokkru áður af ríkjunum tveimur. Þann 11. nóvember 1997 var síðan samþykkt viðbótarbókun við samkomulögin sem öðlast gildi 27. maí ári síðar. Það er búið að leysa deilu Íslands og Noregs um Jan Mayen.Staðan í dag er sú að mörk efnahagslögsögu og landgrunns Íslands og Jan Mayen eru skýrt afmörkuð. Til að forða misskilningi verður að taka fram að ríkin sömdu um að visst svæði landgrunnsins yrði sameiginlegt nýtingarsvæði auk þess sem samið var um fiskveiðiréttindi ríkjanna í lögsögu hvors annars sem og að sameiginleg fiskveiðinefnd yrði sett á laggirnar.Í þættinum var einnig velt vöngum yfir því hvort Ísland ætti eitthvert tilkall til Norðurpólsins án þess að nokkuð haldbært svar fengist.Svarið við spurningunni er reyndar tiltölulega einfalt: Nei.Ástæðan er sú landgrunn (og reyndar efnahagslögsaga) Grænlands og Jan Mayen taka við af landgrunni (og efnahagslögsögu) Íslands í norðri og loka þannig á hafsvæði Íslands. Til að valda ekki misskilningi er átt við landgrunnið í lögfræðilegum skilningi.Hægt væri að fjalla um fleiri atriði úr þættinum en hér verður staðar numið.

Baráttan um landgrunnið

#34 - 21-08-2007

Eitt mesta hagsmunamál Íslands er afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna frá svokölluðum grunnlínum. Í næstu pistlum undirritaðs hér á Deiglunni verður reynt að útskýra um hvað málið snýst og af hverju þetta er svona mikið hagsmunamál.
Eitt mesta hagsmunamál Íslands er afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna frá svokölluðum grunnlínum. Í næstu pistlum undirritaðs hér á Deiglunni verður reynt að útskýra um hvað málið snýst og af hverju þetta er svona mikið hagsmunamál.Hvað er landgrunn?Í náttúrulegri merkingu er landgrunnið sá stöpull eða pallur sem landið hvílir á. Oft er hann vel afmarkaður, brúnir hans greinilegar og hlíð niður á hafsbotninn utan grunnsins. Lagaleg merking hugtaksins er hins vegar önnur, enda málamiðlun stjórnmála og vísinda. Samkvæmt henni nær landgrunn yfir svonefnt landgrunnssvæði. Það tekur yfir grunnið út að ystu brúnum þess, hlíðina, þaðan niður og hlíðarfótinn. Einnig nær það til hinna svonefndu hlíðardraga, það er hins aflíðandi svæðis utan hlíðarfótarins, út á djúpsævisbotninn. Halli þess niður á við er mismunandi mikill eftir staðháttum. Landgrunnssvæðið tekur því til framlengingar landmassa strandríkisins neðansjávar og er samsett af grunninu, hlíðinni og hlíðardrögunum. Á því svæði hafa setlög hlaðist upp sem skolast hafa frá landi í tímans rás. Fyrir utan landgrunnssvæðið er djúpsævisbotninn, en hann heyrir ekki til landgrunnssvæðisins.Landgrunn strandríkja nær að lágmarki 200 sjómílna fjarlægð frá landi samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Strandríki hafa hins vegar möguleika á landgrunnsréttindum þar fyrir utan við tilteknar náttúrulegar aðstæður sem verður umfjöllunarefni annars pistils.Í landgrunninu geta leynst margvíslegar auðlindir, helstar þeirra eru olía og gas. Það eru þó ekki einu náttúruauðlindirnar sem þar fyrirfinnast. Í landgrunninu geta verið margvíslegir málmar, m.a. metanhýdrat, tin, títaníum, króm, sirkóníum, demantar, blý, gull, silfur, járn, sink og kopar. Mikilvægar botnsetutegundir lifa á landgrunninu, t.d. ostrur, skelfiskur og krabbar. Hafa verður hugfast að fleiri auðlindir geta fundist í og á landgrunninu í framtíðinni með aukinni tækni og þekkingu, t.d. erfðaefni lífvera. Augljóst er því að eftir miklu er að slægjast í landgrunninu.Söguleg þróunÞar til á 20. öld var hafsbotninn almennt talinn alþjóðlegt svæði (l. res communis). Var því enginn greinarmunur gerður á réttarstöðu landgrunnsins og djúpsævisbotnsins. Ríki voru einungis talin njóta fullveldisréttar yfir hafsbotninum innan landhelgi þeirra sem þá var almennt þrjár sjómílur. Engu ríki var talið heimilt að taka sér yfirráð yfir landgrunninu utan marka landhelginnar.Á fyrstu áratugum síðustu aldar hófu strandríki að lýsa yfir fullveldisrétti á nýtingu botnsetutegunda á landgrunninu. Sum ríki lýstu jafnvel yfirráðum sínum á vissum svæðum landgrunnsins. Tækniframfarir gerðu mönnum kleift að nýta náttúruauðlindir landgrunnsins utan landhelginnar og kveiktu þær áhuga strandríkja á yfirráðum yfir náttúruauðlindum sem leyndust þar.Venja er að líta á yfirlýsingu Harry S. Truman forseta Bandaríkjanna frá árinu 1945 (sem venjulega er kölluð Truman-yfirlýsingin) sem fyrstu skýru yfirlýsinguna um að landgrunn tilheyri strandríkjum. Í yfirlýsingunni segir m.a. að ríkisstjórn Bandaríkjanna líti svo á að náttúruauðlindir í botnlögum og á botni landgrunnsins undir úthafinu og í framhaldi af ströndum Bandaríkjanna tilheyri Bandaríkjunum og séu háðar lögsögu og stjórn þeirra. Í fréttatilkynningu í tengslum við yfirlýsinguna kom fram að ytri mörk landgrunnsins voru talin vera 100 faðma dýptarlína, en 100 faðmar samsvara tæplega 200 metrum. Kröfur svipaðs efnis fylgdu í kjölfarið frá öðrum ríkjum. Innan áratugar hafði skapast samhæfð og nokkuð víðtæk framkvæmd ríkja á þessu sviði sem ekki var mótmælt af öðrum ríkjum og er hér á ferð skólabókardæmi um myndun þjóðréttarvenju.Svokölluð Santiago-yfirlýsing Chíle, Ekvador og Perú frá árinu 1952 mætti harðri andstöðu annarra ríkja en átti eftir að hafa mikil áhrif á þróun hafréttarins. Í þeirri yfirlýsingu kröfðust ríkin fullveldisréttar yfir hafsbotninum og botnlögum hans að 200 sjómílum frá ströndum ríkjanna. Ríkin kröfðust einnig fullra yfirráða yfir höfum aðlægum ströndum þeirra sem og loftrými yfir hafinu að sömu vegalengd.Genfarsamningurinn um landgrunnið frá 1958 var mikilvægt spor í sögu hafréttarins enda fyrsti hnattræni þjóðréttarsamningurinn um landgrunnið. Á fyrstu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem fram fór árið 1958, var samningurinn til umræðu og virtist almenn sátt vera um að strandríki nytu vissra réttinda yfir landgrunninu. Í 1. tl. 2. gr. samningsins var svo fyrir mælt að strandríki færu með fullveldisrétt yfir auðlindum landgrunnsins að því er varðaði rannsóknir og nýtingu þeirra. Í 1. gr. voru ytri mörk landgrunns skilgreind á tvo vegu. Réttur strandríkisins skyldi ná út að 200 metra dýptarlínunni eða svo langt út fyrir hana frá ströndum sem unnt væri að nýta auðlindir landgrunnsins á hverjum tíma. Síðari hluti skilgreiningarinnar var nefndur nýtingarviðmiðið. Samkvæmt 3. gr. samningsins átti réttur strandríkisins til landgrunnsins ekki að hafa áhrif á yfirlæg hafsvæði, þ.e. úthafið, eða loftrýmið fyrir ofan hafsvæðin.Í Norðursjávarmálunum frá árinu 1969 staðfesti Alþjóðadómstóllinn að 2. gr. Genfarsamningsins endurspeglaði þjóðréttarvenju. Í dómnum lagði dómstóllinn mikla áherslu á að landgrunnið væri náttúruleg framlenging af landmassa strandríkisins. Átti sú áhersla dómstólsins eftir að hafa mikil áhrif á framvindu mála á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór á árunum 1973 til 1982.Fyrrnefnt nýtingarviðmið var mjög gagnrýnt. Bent var á að það væri ónákvæmt og óskýrt. Með aukinni þekkingu væri hægt að nýta auðlindir landgrunnsins æ fjær ströndinni. Bent var á að á endanum gæti farið svo að gerðar yrðu kröfur til alls hafsbotnsins á grundvelli nýtingarviðmiðsins.Árið 1969 ályktaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að Genfarsamningurinn um landgrunnið skilgreindi ekki nægilega mörk svæðisins þar sem strandríki nýtur fullveldisréttar til rannsóknar og nýtingar náttúruauðlinda og að þjóðréttarvenja á þessu sviði segði ekki til um réttarstöðuna. Ári síðar ályktaði allsherjarþingið að hafsbotninn utan lögsögu ríkja væri sameiginleg arfleifð mannkyns. Gagnrýnin á nýtingarviðmiðið og ályktanir allsherjarþingsins þrýstu á skýrari og ótvíræðari skilgreiningu á ytri mörkum landgrunnsins.Á þriðju hafréttarráðstefnunni var almennur hljómgrunnur fyrir því að byggja á Genfarsamningnum um landgrunnið frá árinu 1958 varðandi réttarstöðu landgrunnsins og hver innri mörk þess ættu að vera. Aðaldeiluefnið voru ytri mörk landgrunnsins og stóð ágreiningurinn einkum á milli tveggja hópa ríkja. Annars vegar voru ríki sem vildu að ytri mörk landgrunnsins væru miðuð við vissa fjarlægð, t.d. 200 sjómílur líkt og ytri mörk efnahagslögsögunnar. Það hafði áhrif á þessa afstöðu að flest ríki hafa ekki náttúrulegt landgrunn sem nær út fyrir 200 sjómílur frá grunnlínum. Hins vegar voru ríki sem vildu að ytri mörkin væru miðuð við landmótunarfræðilega þætti. Hópur svonefndra breiðgrunnsríkja myndaði bandalag til að knýja á um að síðari aðferðin yrði niðurstaðan og var Ísland þar á meðal. Niðurstaða þriðju hafréttarráðstefnunnar um landgrunnið var málamiðlun þessara tveggja sjónarmiða.

Efni pistilsins er tekið upp úr:Bjarni Már Magnússon. 2005. Hlutverk landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Úlfljótur 58,3:449-493. Reykjavík.Baráttan um landgrunnið II

#35 - 25-08-2007

Flest strandríki eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Afmörkun landgrunns aðildarríkja samningsins og réttindi þeirra þar ráðast af samningnum. Ísland er aðildarríki.
Flest strandríki eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Afmörkun landgrunns aðildarríkja samningsins og réttindi þeirra þar ráðast af samningnum. Ísland er aðildarríki.Innri mörk landgrunnsins eru óumdeild og hafa alla tíð verið það. Þau hafa verið miðuð við ytri mörk landhelginnar. Meiri styr hefur staðið um hver ytri mörkin ættu að vera. Þegar þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna fór fram á árunum 1973-1982 var hugtakið efnahagslögsaga í örri þróun. Hafði sú þróun mikil áhrif á hugmyndir ríkja um hver ytri mörk landgrunnsins ættu að vera.

Í 76. gr. hafréttarsamningsins er landgrunnið skilgreint. Í 1. tl. segir:"Landgrunn strandríkis tekur yfir hafsbotn og botnlög neðansjávarsvæðanna sem ná utan landhelgi þess til allrar eðlilegrar framlengingar á landsvæði þess allt að ytri brún landgrunnssvæðisins eða allt að 200 sjómílum frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá þar sem ytri brún landgrunnssvæðisins nær ekki svo langt út."Af lestri ákvæðisins er ljóst að ríki geta ákvarðað landgrunn sitt með tvenns konar hætti. Annars vegar á grundvelli náttúrulegrar framlengingar landmassa ríkisins og hins vegar á grundvelli fjarlægðar án tillits til náttúrulegra aðstæðna. Síðarnefnda aðferðin er notuð þegar ytri brún landgrunnssvæðisins nær ekki út fyrir 200 sjómílur frá grunnlínum og er sú regla orðin að þjóðréttarvenju. Náttúruleg framlenging er lykilatriði í landgrunnshugtakinu. Hún felur í sér að áskilin framlenging verður að vera óslitin frá strandlengjunni að ytri mörkum landgrunnsins. Benda verður á að ekki þarf að líta til náttúrulegra þátta nema ríki geri kröfu til landgrunns utan 200 sjómílna frá grunnlínum. Landgrunn eyja er ákveðið með sama hætti og landgrunn meginlanda, sbr. 2. tl. 121. gr. hafréttarsamningsins. Enginn greinarmunur er því gerður á ytri mörkum landgrunns eyja og meginlanda.Nauðsynlegt er að skoða 1. og 3. tl. 76. gr. hafréttarsamningsins saman til að átta sig á því hvaða hlutum hafsbotnsins landgrunnið samanstendur af. Í 3. tl. segir:"Landgrunnssvæðið tekur yfir neðansjávarframlengingu landmassa strandríkisins og er samsett af hafsbotni og botnlögum grunnsins, hlíðinni og hlíðardrögunum. Til þess teljast ekki djúpsævisbotninn með úthafshryggjum sínum né botnlög hans."Almenn skilgreining landgrunnsins byggist því fyrst og fremst á eðlilegri framlengingu neðansjávarlandslags. Skilgreiningin er á hinn bóginn hlutlaus að því er varðar jarðfræðilegt eðli berggrunnsins.Mikilvægt er, ef ríki telur sig eiga kröfu til landgrunns fyrir utan 200 sjómílur frá grunnlínum, að ákvarða hvar hlíðarfóturinn (rætur landgrunnshlíðarinnar) er. Báðar þær aðferðir sem lýst er í a-lið 4. tl. til að ákvarða ytri mörk landgrunnsins miða við hlíðarfótinn. Samkvæmt b-lið 4. tl. skulu rætur landgrunnshlíðarinnar ákveðnar sem mesti hallabreytingarstaðurinn á lægsta hluta hennar ef annað sannast ekki. Þegar ekki er sýnt fram á eða ómögulegt er að sýna fram á með nægilegri nákvæmni hvar hlíðarfóturinn er staðsettur er strandríkjum heimilt að nota bestu jarð- og landmótunarfræðilegu sönnunargögn sem þau geta aflað til að ákvarða hvar hlíðarfóturinn skuli álitinn staðsettur.Samkvæmt 2. tl. 76. gr. skal landgrunn strandríkis ekki ná út fyrir mörkin sem kveðið er á um í 4.–6. tl. Á 2. tl. einungis við um kröfur ríkja sem byggðar eru á fyrri hluta 1. tl. Í a-lið 4. tl. eru skilgreindar tvær aðferðir til að ákvarða ytri mörk landgrunnsins. Ákvæði a-liðar 4. tl. hljóðar svo:"Samkvæmt samningi þessum skal strandríkið ákveða ytri brún land-grunnssvæðisins hvar sem svæðið nær lengra en 200 sjómílur frá grunn-línunum sem víðátta landhelginnar er mæld frá, annaðhvort með:i) línu, dreginni samkvæmt 7. tl. með tilliti til ystu ákveðnu staðanna þar sem þykkt setlaga á hverjum stað er a.m.k. 1 hundraðshluti minnstu fjarlægðar frá þessum stað til róta landgrunnshlíðarinnar; eðaii) línu, dreginni samkvæmt 7. tl. með tilliti til ákveðinna staða sem eru ekki lengra en 60 sjómílur frá rótum landgrunnshlíðarinnar."Í 7. tl., sem á bæði við um i- og ii-lið, segir að strandríkið skuli draga ytri mörk landgrunns síns, þar sem það grunn nær lengra en 200 sjómílur frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá, með beinum línum, ekki lengri en 60 sjómílur milli ákveðinna staða sem tilgreindir eru með hnitum breiddar og lengdar.Sú aðferð sem lýst er í i-lið 4. tl. er oft kölluð írska formúlan og var þróuð af írska jarðfræðingnum P. R. Gardiner sem átti sæti í sendinefnd Írlands á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Markmið hennar er að tryggja að fullveldisréttur strandríkja nái yfir meginhluta hlíðardraganna en þar er talið að leynist auðugar lindir kolvetnis. Ef nota á aðferðina á vegalengdina X frá hlíðarfætinum verður 0.01X setlagaþykkt jafnframt að vera til staðar.Aðferðin sem lýst er í ii-lið er oft kölluð Hedberg-formúlan eftir bandaríska jarðfræðingnum Hollis Hedberg. Felst hún í því að draga línu allt að 60 sjómílum frá hlíðarfætinum til að finna ytri mörk landgrunnsins. Ríkjum er frjálst að nota báðar aðferðirnar sitt á hvað með það að leiðarljósi að réttur þeirra til landgrunnsins verði sem mestur.Kveðið er á um hámarksyfirráðasvæði ríkja yfir landgrunni þeirra í 5. tl. 76. gr. Þar segir:"Ákveðnu staðirnir, sem mynda línu ytri marka landgrunnsins á hafsbotninum, dregna samkvæmt 4. tl. a) i) og ii), skulu annaðhvort ekki vera lengra en 350 sjómílur frá grunnlínunum, sem víðátta landhelginnar er mæld frá, eða lengra en 100 sjómílur frá 2.500 metra jafndýptarlínunni sem er lína milli staða þar sem dýpi er 2.500 metrar."Landgrunn ríkja utan 200 sjómílna er því annaðhvort takmarkað við vissa fjarlægð frá grunnlínum, þ.e. 350 sjómílur, eða takmarkað af blönduðum mælikvarða fjarlægðar og dýptar, þ.e. 100 sjómílur frá 2500 metra jafndýptarlínu. Taka verður fram að þessar línur skapa engan rétt. Þær takmarka einungis yfirráðasvæði ríkja sem byggja á írsku eða Hedberg-formúlunni.Ríki geta skipst á að nota þessar tvær takmarkanir eftir hentugleika. Mögulegt er, ef byggt er á síðari takmörkun ákvæðisins, að ytri mörk landgrunnsins nái út fyrir 350 sjómílur. Til að útiloka að ríki geti gert kröfur um landgrunn óralangt er tekið fram í 6. tl. að mörk landgrunnsins á neðansjávarhryggjum skuli ekki vera lengra en 350 sjómílur frá grunnlínum. Reyndar útskýrir 6. tl. ekki hvað sé átt við með neðansjávarhryggjum. Neðansjávarhryggjum hefur hins vegar verið lýst sem hryggjum sem eru hluti af náttúrulegri framlengingu landmassa strandríkis. Dæmi um slíkan hrygg er Reykjaneshryggur. Gera verður greinarmun á neðansjávarhryggjum og úthafshryggjum djúpsævisbotnsins. Samkvæmt 3. tl. 76. gr. eru úthafshryggir djúpsævisbotnsins ekki hluti af landgrunninu. Einnig verður að gæta að seinni málslið 6. tl. sem segir að töluliðurinn gildi ekki um neðansjávarhæðir sem eru náttúrulegir hlutar landgrunnssvæðisins, svo sem hásléttur, bungur, kolla, grunn og rana þess. Erfitt getur verið að greina á milli neðansjávarhryggja og neðansjávarhæða vegna skilgreiningarinnar á landgrunninu. Hafa verður í huga, eins og komið hefur fram, að skilgreiningin á landgrunni er hlutlaus hvað jarðfræðilegt eðli berggrunnsins varðar. Einnig verður að hafa í huga að upptalningin á tegundum neðansjávarhæða er ekki tæmandi. Miklu skiptir að greina á milli neðansjávarhryggja og neðansjávarhæða þar sem ríki geta, ef tilskildar landmótunarfræðilegar aðstæður eru fyrir hendi, teygt landgrunn sitt lengra með 2500 metra jafndýptarformúlunni en 350 sjómílna formúlunni.Fjallað er um réttindi strandríkja yfir landgrunninu í 77. gr. hafréttarsamningsins. Samkvæmt 1. tl. 77. gr. fer strandríkið með fullveldisréttindi yfir landgrunninu að því er varðar rannsóknir á því og hagnýtingu náttúruauðlinda þess. Því er ljóst að réttindi strandríkis eru takmörkuð. Með öðrum orðum þá er litið svo á að landgrunnið sé ekki hluti af forráðasvæði strandríkis. Fullveldisréttindi strandríkis ná til náttúruauðlinda sem getið er í VI. hluta. Þær teljast vera jarðefnaauðlindir og aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna ásamt lífverum í flokki botnsetutegunda, þ.e.a.s. verum sem á nýtingarstigi eru annaðhvort hreyfingarlausar á eða undir hafsbotninum eða geta ekki hreyft sig nema í stöðugri snertingu við hafsbotninn eða botnlögin, sbr. 4. tl. 77. gr. Réttindi strandríkja ná einungis til náttúruauðlinda eins og áður segir og því t.d. ekki til skipsflaka. Samkvæmt 2. tl. 77. gr. eru þau réttindi sem talin eru upp í 1. tl. sérréttindi í þeim skilningi að rannsaki strandríki ekki landgrunnið né hagnýti náttúruauðlindir þess má enginn ráðast í þessa starfsemi án skýlauss samþykkis strandríkisins.

Baráttan um landgrunnið III

#36 - 26-08-2007

Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna. Hér á eftir verður hlutverki hennar í stuttu máli lýst.
Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna. Hér á eftir verður hlutverki hennar í stuttu máli lýst.Árið 1975, á þriðja fundi þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, voru settar fram tvær hugmyndir um svokallaða landgrunnsmarkanefnd, annars vegar af bandarísku sendinefndinni og hins vegar af Evensen-hópnum sem nefndur var eftir Norðmanninum Jens Evensen sem fór fyrir honum. Samkvæmt báðum tillögunum áttu ákvarðanir landgrunnsmarkanefndarinnar um ytri mörk landgrunnsins að vera endanlegar og bindandi (e. final and binding). Deilt var um hlutverk og völd nefndarinnar næstu árin. Á þeim árum þróaðist hugmyndin um nefndina nánar og varð að lokum hluti af hafréttarsamningnum, þ.e. 8. tl. 76. gr. og II. viðauka. Nefndin er nokkuð valdaminni en upphaflegu hugmyndirnar gerðu ráð fyrir. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem yfirráðasvæði er lykilatriði í fullveldi hvers ríkis. Afmörkun hafsvæða snertir því kjarna hvers ríkis og skipta stjórnmál miklu í því tilliti.Erfitt getur verið að skilgreina hvers konar stofnun landgrunnsnefndin er. Nefndin hefur verið kölluð varðhundur og lögregluþjónn sem kemur í veg fyrir óhóflegar landgrunnskröfur. Hún hefur verið lofuð sem mikilvægur hlutlaus sérfræðiaðili sem veitir strandríkjum aðhald við ákvörðun ytri marka landgrunnsins. Að minnsta kosti er ljóst að nefndin er ekki dómstóll eins og t.d. Alþjóðlegi hafréttardómurinn eða Alþjóðadómstóllinn. Meginhlutverk nefndarinnar er að koma með tillögur um ytri mörk landgrunnsins, hún hefur ekki úrskurðarvald um hver ytri mörkin eigi að vera. Lögfræðmenntun er ekki eitt af hæfisskilyrðum nefndarmanna eins og er um dómara við alþjóðlega dómstóla og kostnaður vegna starfs hvers nefndarmanns er t.a.m. greiddur af því ríki sem tilnefnir hann en ekki af Sameinuðu þjóðunum. Ef svo hefði farið að nefndin hefði haft sömu völd og gert var ráð fyrir í tillögum bandarísku sendinefndarinnar og Evensen-hópsins hefði það styrkt stöðu hennar og gert hana líkari dómstóli. Sú leið var hins vegar ekki farin.Þegar landgrunnsnefndin er skoðuð verður einkum að gefa 8. tl. 76. gr. og II. viðauka við hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna gaum. Í 8. tl. 76. gr. hafréttarsamningsins eru línurnar lagðar fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Í henni segir að strandríkið skuli leggja upplýsingar um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna frá grunnlínum, sem víðátta landhelginnar er mæld frá, fyrir nefnd um mörk landgrunnsins sem skipuð er samkvæmt II. viðauka á grundvelli sanngjarnrar hnattsvæðisdreifingu fulltrúa. Því næst skuli nefndin gera tillögur til strandríkja um mál sem snerta ákvörðun ytri marka landgrunnsins. Mörk grunnsins, sem strandríki hafi ákveðið á grundvelli þessara tillagna, skulu vera endanleg og bindandi. Í 4. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn kemur fram að þegar strandríki hefur í hyggju að ákveða samkvæmt 76. gr. ytri mörk landgrunns síns skuli það leggja nákvæmar upplýsingar um þessi mörk fyrir nefndina ásamt vísindalegum og tæknilegum gögnum til stuðnings eins fljótt og auðið er en þó innan 10 ára frá gildistöku hafréttarsamningsins gagnvart því ríki. Hafréttarsamningurinn tók gildi þann 16. nóvember 1994. Þrátt fyrir framangreind atriði var ákveðið á 11. fundi aðildarríkja hafréttarsamningsins árið 2001 eftir tillögu frá hópi Kyrrahafseyja að upphaf frestsins yrði miðað við 13. maí 1999 fyrir þau ríki sem samningurinn öðlaðist gildi gagnvart fyrir þann dag.Í a-lið 1. tl. 3. gr. II. viðauka segir að starf nefndarinnar skuli vera að athuga gögn og annað efni, sem strandríki leggja fram varðandi ytri mörk landgrunnsins á svæðum þar sem þau mörk ná út fyrir 200 sjómílur, og að gera tillögur samkvæmt 76. gr. og bókunaryfirlýsingunni sem þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna samþykkti 29. ágúst 1980. Það eru strandríkin sjálf sem eiga að leggja upplýsingar fyrir nefndina um ytri mörk landgrunnsins sem nefndin síðan metur og kemur með tillögur um hver eigi að vera. Nefndin gegnir því lykilhlutverki í túlkun á 76. gr. hafréttarsamningsins.Samkvæmt 1. tl. 2. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn skal landgrunnsnefndin skipuð 21 manni sem hver um sig skal vera sérfræðingur í jarðfræði, jarðeðlisfræði eða sjómælingum og starfa sem einstaklingur og kjósa aðildarríki hafréttarsamningsins úr hópi ríkisborgara sinna með tilhlýðilegu tilliti til þarfarinnar á að tryggja sanngjarna hnattsvæðisdreifingu fulltrúa.Samkvæmt 2. tl. 2. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn skal fyrsta kosning nefndarmanna fara fram eins fljótt og auðið er en þó innan 18 mánaða frá gildistökudegi hafréttarsamningsins. Nefndin kom þó ekki saman fyrr en dagana 16.–20. júní 1997, 13 mánuðum síðar en hún átti að gera.Í því ferli að ákvarða ytri mörk landsgrunns utan 200 sjómílna er greinargerð strandríkis sem lögð er fyrir landgrunnsnefndina í aðalhlutverki. Nefndin kemur með tillögu um ytri mörk landgrunnsins á grundvelli þeirra upplýsinga sem greinargerð strandríkis inniheldur. Mikilvægt er því fyrir strandríki að vanda sem mest til gerðar greinargerðarinnar.Strandríki eiga að leggja upplýsingar um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá fyrir landgrunnsnefndina, sbr. 8. tl. 76. gr. og 3. og 4. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn. Í 4. gr. II. viðauka kemur fram að strandríki skuli leggja nákvæmar upplýsingar um þessi mörk fyrir nefndina ásamt vísindalegum og tæknilegum gögnum til stuðnings eins fljótt og auðið er en þó innan 10 ára frá gildistöku hafréttarsamningsins gagnvart viðkomandi ríki. Upplýsingarnar, sem um ræðir eru m.a. kort og aðrar viðeigandi upplýsingar svo sem landmælingar, dýptarmælingar, jarðeðlis- og jarðfræðilegar upplýsingar á stafrænu eða öðru formi.Tillögur landgrunnsnefndarinnar eru lykilatriði fyrir strandríki varðandi ákvörðun á ytri mörkum landgrunns þess utan 200 sjómílna frá grunnlínum. Eins og kemur fram í lokamálslið 8. tl. 76. gr. eru mörk landgrunnsins, sem strandríki hefur ákveðið á grundvelli tillagna nefndarinnar, endanleg og bindandi. Erfitt er fyrir strandríki að halda því fram að ytri mörk landgrunns þess séu endanleg og bindandi ef þau eru ekki á grundvelli tillagna nefndarinnar. Málsmeðferð fyrir nefndinni er löng og flókin sem skiljanlegt er þegar hugleiddir eru þeir miklu hagsmunir sem í húfi eru. Bent hefur verið á að tilgangurinn með 76. gr. hafréttarsamningsins sé fyrst og fremst að skilgreina landgrunnið með það að markmiði að skapa vissu og stöðugleika til handa strandríkjum en jafnframt fyrir Alþjóðahafsbotnsstofnuninni og alþjóðakerfinu almennt. Hlutverk nefndarinnar er að leggja sitt af mörkum við að skapa þessa vissu og þennan stöðugleika með vísindalegri og tæknilegri sérfræðikunnáttu sinni. Í þeirri viðleitni eru tæki nefndarinnar tillögur hennar.Tillögur landgrunnsnefndarinnar þurfa að vera ítarlega rökstuddar og geta í megindráttum verið af þrennum toga. Í fyrsta lagi að óskað er eftir nýrri greinargerð. Nefndin óskaði t.d. eftir að Rússland legði nýja greinargerð fyrir nefndina um Okhotskhaf. Í öðru lagi að óskað er eftir endurskoðaðri greinargerð. Nefndin óskaði t.d. eftir að Rússland endurskoðaði þann hluta greinargerðar sinnar sem fjallar um NorðurÍshafið. Í þriðja lagi að fallist er á kröfur strandríkis. Tillögur nefndarinnar geta falið í sér einn þessara þátta eða fleiri. Því hefur verið haldið fram að sérhver tillaga nefndarinnar, hvort sem í henni er lögð blessun yfir kröfu strandríkis um ytri mörk landgrunns þess eða henni hafnað, ætti að vera reist á áreiðanlegum vísindalegum grunni. Einungis með því að tileinka sér nálgun sem einkennist af óyggjandi vísindalegri og siðferðilegri ráðvendni getur nefndin uppfyllt hlutverk sitt sem þjónn alþjóðakerfisins.Samkvæmt 3. tl. 6. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn skulu tillögur landgrunnsnefndarinnar lagðar skriflega fyrir strandríkið sem lagði erindið fram, svo og aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Eftir að nefndin hefur gert tillögur sínar er hlutverki hennar lokið ef viðkomandi strandríki fellst á þær. Ef strandríki sættir sig hins vegar ekki við tillögur nefndarinnar skal það innan hæfilegs tíma leggja endurskoðað eða nýtt erindi fyrir nefndina, sbr. 8. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn og 4. mgr. reglu 53 í starfsreglunum. Þar sem engar sérreglur eru um slíkt tilvik verður að draga þá ályktun að slíkt erindi þurfi að fara í gegnum málsmeðferðina á nýjan leik. Ef strandríki er hins vegar sátt við tillögur nefndarinnar og ekki er þörf á nýrri eða endurskoðaðri greinargerð getur strandríkið ákvarðað ytri mörk landgrunnsins á grundvelli tillagna nefndarinnar og eru þau þá endanleg og bindandi um aldur og ævi.Baráttan um landgrunnið IV

#37 - 27-08-2007

Afmörkun landgrunns milli ríkja með mótlægum eða aðlægum ströndum er mikilvægt viðfangsefni. Hatton-Rockall svæðið er dæmi um svæði þar sem ríki með mótlægum ströndum þurfa að afmarka landgrunnið.
Afmörkun landgrunns milli ríkja með mótlægum eða aðlægum ströndum er mikilvægt viðfangsefni. Hatton-Rockall svæðið er dæmi um svæði þar sem ríki með mótlægum ströndum þurfa að afmarka landgrunnið.Þegar ríki ákveða að afmarka landgrunn sitt utan 200 sjómílna frá grunnlínum þurfa þau annars vegar að ákvarða markalínu gagnvart mótlægum eða aðlægum ríkjum ef þau eru fyrir hendi og hins vegar ákvarða ytri mörkin gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu. Af orðalagi 1. tl. 83. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna má draga þá ályktun að viðkomandi ríki fari sjálf með afmörkun landgrunns sín á milli. Hatton Rockall-svæðið er dæmi um svæði þar sem þarf að afmarka markalínu milli mótlægra ríkja og telst umdeilt þar sem kröfur Íslands, Danmerkur (fyrir hönd Færeyja), Bretlands og Írlands til þess skarast.Heppilegasta leiðin og sú leið sem er einföldust fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna, viðvíkjandi afmörkun landgrunns fyrir utan 200 sjómílur frá grunnlínum, er að strandríkin komist að samkomulagi um hvernig skipta eigi umdeilda svæðinu á milli þeirra eða að þau komist að samkomulagi um að svæðið verði sameiginlegt nýtingarsvæði þeirra áður en greinargerð er send til nefndarinnar. Samkvæmt 1. tl. 83. gr. skal afmörkun landgrunns milli mótlægra eða aðlægra ríkja komið í kring með samningi á grundvelli þjóðaréttar, eins og getið er í 38. gr. samþykktar Alþjóðadómstólsins, svo að sanngjarnri lausn verði náð. Tilvísunin til 38. gr. merkir að ríki skulu byggja samninga sína á þeim réttarheimildum sem dómstólnum ber að beita í úrlausnum sínum, þ.e. réttarvenju, alþjóðasamningum, grundvallarreglum laga, dómum og kennisetningum bestu sérfræðingum ýmissa þjóða. Þótt að miðlínunnar sé ekki getið í 1. tl. 83. gr. hefur hún nokkurt venjugildi og er hún iðulega notuð til viðmiðunar í samningaviðræðum ríkja og dómaframkvæmd um afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns. Er þá fyrst dregin miðlína og síðan teknir til athugunar hinir ýmsu þættir sem eru til þess fallnir að færa hana til. Einkum er hér litið til landfræðilegra aðstæðna. Efnahagslegar aðstæður virðast hins vegar skipta minna máli, enda taka þær fremur breytingum í tímans rás.Í 2. tl. 83. gr. hafréttarsamningsins segir að ef ekki sé unnt að ná nokkru samkomulagi innan hæfilegs tíma skuli hlutaðeigandi ríki fara eftir reglunum sem kveðið er á um í XV. hluta. Í 2. kafla XV. hluta samningsins er fjallað um skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurða. Þar er ráð fyrir því gert að á ríkjum hvíli sú skylda að leggja deilur sínar um túlkun eða beitingu samningsins til bindandi úrlausnar dómstóls ef ekki hefur tekist að leysa þær eftir öðrum leiðum. Í i-lið a-liðar 1. tl. 298. gr. samningsins er ríkjum hins vegar heimilað að gefa yfirlýsingu um að þau samþykki ekki slíka bindandi lögsögu í deilum sem m.a. lúta að mörkum landgrunnsins milli ríkja. Ísland hefur gefið slíka yfirlýsingu, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1985. Hér þarf ríki með öðrum orðum ekki að hlíta tilsögn alþjóðlegs dómstóls um það hvar það skuli draga landgrunnsmörkin gagnvart öðru ríki. En þótt slík skylda hvíli hér ekki á ríkjum verða þau að samþykkja, samkvæmt ósk gagnaðila, að slík deila gangi til bindandi sáttaumleitana samkvæmt 2. kafla V. viðauka við hafréttarsamninginn sem fjallar um skyldubundna tilvísun til sáttameðferðar samkvæmt 3. kafla XV. hluta samningsins. Um sáttanefndina er nánar fjallað í ii-lið a-liðar 1. tl. 298. gr. hafréttarsamningsins. Þar segir að þegar sáttanefndin hefur lagt fram skýrslu sína þar sem skýrt skuli frá ástæðunum sem hún er reist á skuli aðilarnir gera samning á grundvelli þeirrar skýrslu; ef þessar samningaviðræður leiði ekki til samnings skuli aðilarnir með gagnkvæmu samþykki láta málið sæta einni þeirra tegunda málsmeðferðar sem kveðið er á um í 2. kafla, nema aðilarnir komi sér saman um annað. Hér getur þó ekki verið um neina skyldu að ræða. Ekki er hægt í krafti þessa ákvæðis að þvinga aðila til þess að ná samningum. Hér er aðeins um þá skyldu að ræða að taka þátt í samningaviðræðum og sýna vilja til að ná samningum. Náist ekki samkomulag um að leita þeirra úrræða, sem boðið er upp á í 2. kafla, né heldur samkomulag um aðrar leiðir, lýkur málinu þar án samkomulags um mörkin. Ríki geta þó að sjálfsögðu tekið upp samningaviðræður á nýjan leik síðar.Í 1. mgr. reglu 46 í starfsreglum landgrunnsnefndarinnar kemur fram að ef deila um afmörkun markalína milli ríkja með mótlægum eða aðlægum ströndum er fyrir hendi eða í öðrum tilfellum óleystra landmæra- og hafsvæðadeilna sé heimilt að leggja fyrir nefndina greinargerð og skuli hún skoðuð í samræmi við I. viðauka við starfsreglurnar. Í töluliðum I. viðauka eru slegnir ýmsir varnaglar til að tryggja fullveldisrétt ríkja við skoðun nefndarinnar á slíkum greinargerðum, t.d. að samþykki viðkomandi ríkja þurfi að liggja fyrir og að tillögur nefndarinnar skuli ekki hafa áhrif á stöðu ríkja sem eru aðilar að landamæra- eða hafsvæðadeilu.Strandríki geta lagt fyrir landgrunnsnefndina svokallaða hlutagreinargerð (e. partial submission). Í hlutagreinargerð er fjallað um hluta landgrunns sem strandríki gerir tilkall til. Í þess konar greinargerð er ekki fjallað um umdeild svæði. Í 3. tl. I. viðauka við starfsreglurnar er fjallað um hlutagreinargerðir. Í honum segir að strandríki geti lagt upplýsingar um einungis hluta landgrunns síns fyrir nefndina í því skyni að hafa ekki áhrif á álitamál um afmörkun markalína milli ríkja á öðrum hlutum landgrunnsins sem heimilt er að leggja fram greinargerð um síðar. Leggja má upplýsingar um síðarnefndu svæðin fyrir nefndina seinna meir þrátt fyrir ákvæði 4. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn um að strandríki sem hafa í hyggju að ákveða ytri mörk landgrunns síns utan 200 sjómílna skuli leggja upplýsingar um mörkin fyrir nefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins. Samkvæmt ákvæðinu eru engin tímamörk sett í því sambandi. Ísland, Noregur og Danmörk/Færeyjar munu leggja hlutagreinargerð fyrir nefndina um Síldarsmuguna en samið var um skiptingu svæðisins síðasta haust. Ísland getur gert slíkt hið sama varðandi Reykjaneshygg sem og um landgrunnið á Hatton Rockall-svæðinu að því gefnu að samið hafi verið um skiptingu Hatton-Rockall svæðisins.

Baráttan um landgrunnið V

#38 - 28-08-2007

Ágreiningur milli strandríki og landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunns viðkomandi strandríkis skapar visst vandamál. Þessar deilur er flóknar, m.a. þar sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að vísa tillögum nefndarinnar til æðri aðila til endurskoðunar.
Ágreiningur milli strandríki og landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunns viðkomandi strandríkis skapar visst vandamál. Þessar deilur er flóknar, m.a. þar sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að vísa tillögum nefndarinnar til æðri aðila til endurskoðunar.Í XV. hluta hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna er fjallað um lausn deilumála um túlkun og beitingu samningsins. Meginreglan um lausn deilumála í hafréttarsamningnum er að allar slíkar deilur er hægt að leggja í skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurðar að beiðni eins aðila. Réttur þessi eru þó takmarkaður og undantekningar eru frá meginreglunni.Deilur strandríkja um annað en markalínur landgrunns milli mótlægra eða aðlægra ríkja lúta ekki reglum 298. gr. hafréttarsamningsins um valfrjálsar undantekningar frá gildissviði 2. kafla XV. hluta um skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurða. Virðist því liggja næst við að álykta á þá lund að um slíkar deilur gildi sú meginregla samningsins að aðilar geti skotið ágreiningsmálum sínum til bindandi dómsúrlausnar, enda eru engar undantekningar í XV. hluta hafréttarsamningsins um 76. gr.Í 8. gr. II. viðauka segir að í því tilviki að strandríkið sætti sig ekki við tillögur nefndarinnar, skuli það innan hæfilegs tíma leggja endurskoðað erindi eða nýtt fyrir nefndina. Ekki er ljóst hvað hæfilegur tími telst í skilningi ákvæðisins. Þó er ljóst að strandríkinu eru sett einhver tímamörk með þessu orðalagi. Þar sem landgrunnsnefndin hefur verið varkár í ákvörðunum sínum er hægt að draga þá ályktun að tímamörkin verði frekar í rýmri kantinum. Sömu reglur gilda um nýju eða endurbættu greinargerðina og um fyrri greinargerð. Ef nefndin felst ekki á greinargerð strandríkis getur það á nýjan leik lagt greinargerð fyrir nefndina. Ef nefndin felst enn og aftur ekki á greinargerð strandríkis getur það lagt enn aðra greinargerð fyrir nefndina. P. R. Gardiner nefndi þessa málsmeðferð á ensku narrowing down ping pong procedure, sem vísar til þess að fræðilega getur málsmeðferð fyrir nefndinni haldið áfram endalaust. Þrátt fyrir að ágreiningur milli strandríkis og nefndarinnar geti fræðilega haldið áfram endalaust er þó búist við að samkomulag náist. Annar og verri möguleiki er að pattstaða myndist á milli þeirra. Endalok ágreiningsins gæti verið að strandríki ákveði að fara ekki eftir tilmælum nefndarinnar. Ef sú staða kæmi upp er ekki ljóst hvert framhaldið yrði. Mögulegt áfrýjunarferli og tengsl landgrunnsnefndarinnar og skyldubundnu málsmeðferðarinnar sem leiðir til bindandi úrskurða virðast hafa verið tekin til skoðunar hjá Evensen-hópnum á þriðja fundi þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en sú umræða virðist hins vegar hafa dagað uppi. Hafréttarsamningurinn kveður því ekki á um hvert samspil 76. gr. samningsins, nefndarinnar og ákvæða hans um lausn deilumála eigi að vera. Niðurstaðan eins og hún birtist í hafréttarsamningnum er sú að í honum eru engin skýr ákvæði um þetta álitaefni í XV. hluta, sem fjallar um lausn deilumála, eða í 76. gr., enda var stefnan á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að skapa heildstæðan samning sem næði til allra þátta hafsins. Var því vissum álitamálum sleppt frekar en að skilja heilu málaflokkana út undan.Þó svo að kveðið sé á um í 3. tl. 77. gr. hafréttarsamningsins að réttindi strandríkis yfir landgrunninu sé ekki háð töku, virkri eða að nafninu til, né sérstakri yfirlýsingu hefur afmörkun hafsvæða ætíð alþjóðlega hlið eins og sagði í fiskveiðimáli Bretlands gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum. Í dómnum sagði jafnframt að afmörkun hafsvæða geti ekki einungis verið komin undir vilja strandríkisins eins og hann birtist í innlendri löggjöf þess. Þó að sú staðhæfing sé rétt að afmörkun sé einhliða gjörð, þar sem strandríkið eitt sé valdbært til að ákvarða hana, sé gildi afmörkunarinnar með tilliti til annarra ríkja háð reglum þjóðaréttarins. Þessi niðurstaða dómsins er í fullu gildi í dag og leiðir til þess að þrátt fyrir 3. tl. 77. gr. þurfa ríki að sýna fram á rétt sinn til landgrunns.

Baráttan um landgrunnið VI

#39 - 30-08-2007

Ýmsar spurningar vakna í þeim tilvikum sem ríki deila um afmörkun landgrunns gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu, m.a. um hver hafi aðildarhæfi í slíkum málum. Hafa skal hugfast að með ákvörðun ytri marka landgrunnsins er ekki einungis ákvarðað hvert yfirráðasvæði ríkis er heldur einnig hver mörk þess eru gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu.
Ýmsar spurningar vakna í þeim tilvikum sem ríki deila um afmörkun landgrunns gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu, m.a. um hver hafi aðildarhæfi í slíkum málum. Hafa skal hugfast að með ákvörðun ytri marka landgrunnsins er ekki einungis ákvarðað hvert yfirráðasvæði ríkis er heldur einnig hver mörk þess eru gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu.Af lestri hafréttarsamningsins er ekki hægt að sjá að landgrunnsnefndin sé valdbær til að leggja deilumál um ákvörðun ytri marka landgrunnsins í skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurðar sem kveðið er á um í 2. kafla XV. hluta samningsins. Alþjóðahafsbotnsstofnunin er heldur ekki valdbær til að gera slíkt, sbr. 4. tl. 134. gr. Í a-lið 187. gr. segir að hafsbotnsdeild Alþjóðlega hafréttardómsins skuli samkvæmt XI. hluta og viðaukum sem snerta hann hafa lögsögu í deilumálum víðvíkjandi starfsemi á alþjóðlega hafsbotnssvæðinu, þar á meðal deilumálum milli aðildarríkja um túlkun eða beitingu XI. hluta og viðaukanna sem snerta hann. Hafsbotnsdeildin hefur því einungis lögsögu í deilumálum viðvíkjandi starfsemi á alþjóðlega hafsbotnssvæðinu.Fræðimenn hafa rannsakað hvort ríki geti byggt málsaðild sína fyrir alþjóðlega dómstóla á grundvelli reglunnar um að sá eigi sök sem vilji (l. actio popularis) gegn strandríki sem ákveður ekki ytri mörk landgrunns þess utan 200 sjómílna frá grunnlínum á grundvelli tillagna landgrunnsnefndarinnar. Spurningin sem þeir hafa reynt að svara er hvort hverju og einu aðildarríki að hafréttarsamningnum sé heimilt að grípa til aðgerða til að verja hagsmuni alþjóðakerfisins til varðveislu alþjóðlega hafsbotnssvæðisins sem er hluti af sameiginlegri arfleifð mannkyns. Það er ekkert í hafréttarsamningnum sem heimilar eða bannar slíka málsaðild. Leita verður því til almennra reglna þjóðaréttarins. Í Suðvestur-Afríkumálinu frá 1966 hafnaði Alþjóðadómstólinn þeim hugmyndum að reglan um að sá eigi sök sem vilji ætti sér stoð í þjóðarétti. Í málinu komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að hugmyndir um að reglan um að sá eigi sök sem vilji þekkist í landsrétti sumra ríkja þekkist sú málsaðild ekki í þjóðarétti. Þó að þjóðaréttur hafi þróast meira í þá átt að heimila að sá eigi sök sem vilji málsaðild er talið að aðildarríki hafréttarsamningsins geti ekki verið aðili máls vegna sameiginlegra hagsmuna ríkja heims án þess að eiga sjálft lögvarða hagsmuna að gæta.Fræðimaður hefur kastað fram þeirri hugmynd að Alþjóðahafsbotnsstofnunin ætti að vera fulltrúi alþjóðakerfisins, þ.e. aðildarhæft, í slíkum málum og geta höfðað mál gegn ríkjum sem ákvarða landgrunn sitt óhóflega. Slíkt fyrirkomulag væri í samræmi við 2. tl. 45. gr. draga að samningi Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega hafsbotnssvæðið frá 1970 sem hefði gefið hinni svokölluðu Alþjóðlegu hafsbotnsmarkaendurskoðunar-nefnd vald til að hafa eftirlit með því hvort strandríki færu eftir ákvæðum samningsins um ákvörðun markalína. Ef ríki fór ekki eftir þeim átti nefndin að hafa vald til að semja við strandríki um lausn málsins og ef ekki leystist úr ágreiningnum átti nefndin að vera hæf til að höfða mál fyrir dómstóli sem átti að setja á laggirnar. Í þessu samhengi verður að benda á 4. tl. 134. gr. hafréttarsamningsins sem segir að ekkert í þeirri grein (sem fjallar um gildissvið XI. hluta sem fjallar um alþjóðlega hafsbotnssvæðið) hafi áhrif á ákvörðun ytri marka landgrunnsins samkvæmt VI. hluta. Ganga hugmyndir fræðimannsins því þvert á 4. tl. 134. gr.Sami fræðimaður heldur því fram að ríkjum gæti verið veitt slík málsaðild til að verja alþjóðlega hafsbotninn. Í sama streng tekur annar fræðimaður, en hann hefur bent á að þrátt fyrir að litið sé á alþjóðlega hafsbotnssvæðið og auðlindir þess sem sameigin-lega arfleifð mannkyns sem Alþjóðahafsbotnsstofnunin skuli gæta, njóti hvert og eitt ríki réttinda á alþjóðlega hafsbotninum og botnlögum hans, sbr. c-, d- og f-liðir 1. tl. 87. gr. hafréttarsamningsins. Þar að auki geti ríki talið að ytri mörk landgrunns annars ríkis hafi ekki verið ákvörðuð í samræmi við 76. gr. Í því tilfelli væri um að ræða deilu í skilningi Alþjóðadómstólsins og hægt að fara með þá deilu í skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurða. Sá hinn sami hefur bent á að ef annað ríki telur að aðildarríki að samningnum standi ekki við skuldbindingar sínar af trúnaði, sem þau hafa tekið á sig samkvæmt honum, gæti það höfðað mál gegn því ríki. Í mörgum málum fyrir alþjóðlegum dómstólum hefur slíkri röksæmdafærslu verið beitt, a.m.k. sem aukaröksemdafærslu.Skiptar skoðanir eru um hvaða þætti máls, sem snertir afmörkun ytri marka landgrunnsins utan 200 sjómílna, dómstóll eða gerðardómur geti tekið til skoðunar. Enginn alþjóðlegur dómur hefur fjallað efnislega um slíkt mál. Umræða um þennan þátt er frekar nýtilkomin. Líklegt er að það verði einkum tvö mál sem verða í brennidepli á næstu árum í þessu samhengi, þ.e. hvernig skýra skuli orðin „á grundvelli“ og hvert framhaldið verði í alþjóðakerfinu ef dómur kemst að þeirri niðurstöðu að nefndin hafi túlkað 76. gr. á rangan hátt.Fræðimaður telur að dómur muni ekki taka efnislega afstöðu til vísindalegs og tæknilegs mats landgrunnsnefndarinnar. Skoðun dóms í þeim tilfellum myndi einungis vera formlegs eðlis, þ.e. hvort nefndin hafi farið út fyrir valdmörk sín. Í því samhengi má spyrja hvar mörk lagalegra svo og vísindalegra og tæknilegra þátta liggja. Það er ekki ljóst. Hafa verður í huga að ákvæði 76. gr. hafréttarsamningsins innihalda ýmis vísindaleg hugtök. Taka má sem dæmi að greinin fjallar um neðansjávar- og úthafshryggi. Með hliðsjón af því má spyrja hvort dómur geti fjallað um í hvaða flokk tiltekinn hryggur fellur. Einnig er hægt að spyrja hvort dómur geti einungis veitt almennar leiðbeiningar um hvernig túlka skuli efni 76. gr. eða hvort hann geti tekið fyrir ákveðin svæði og skoðað hvort nefndin hafi beitt 76. gr. hafréttarsamningsins á réttan hátt á því svæði. Við þessum spurningu eru engin skýr svör enn sem komið er. Álitamál af þessu tagi eiga líklega eftir að koma upp á næstu árum.Sami fræðimaður heldur því fram að ríki geti haft uppi kröfu í máli um ytri mörkin að túlkun og beiting 76. gr. hafréttarsamningsins sé röng af hálfu landgrunnsnefndarinnar og að dómur sem myndi dæma í slíku máli sé ekki bundinn af túlkun nefndarinnar á 76. gr. hafréttarsamningsins eða öðrum ákvæðum hans. Byggir sú skoðun á því að það er forsenda fyrir gildi tillagna nefndarinnar að þær séu byggðar á 76. gr., sbr. a-liður 1. tl. 3. gr. II. viðauka við hafréttarsamninginn. Því má draga þá ályktun að ef dómur hnekkir tillögur nefndarinnar á skyldan um „á grundvelli“ ekki við. Ákvörðun strandríkis um ytri mörk landgrunns þess sem byggir á slíkri tillögu getur þ.a.l. ekki verið endanleg og bindandi. Fræðimaðurinn heldur því fram að það sé háð forsendum sem niðurstaða dóms byggist á hvort strandríki þurfi að ákveða ytri mörk landgrunns síns á nýjan leik eða hvort það þurfi að leggja fyrir nefndina nýja eða endurskoðaða greinargerð. Fræðimaðurinn gerir því ekki ráð fyrir að nefndin taki tillögur sínar til endurskoðunar enda geti hún ekki breytt þeim afturvirkt. Þrátt fyrir að nefndin sé ekki formlega bundin af dómi gerðardóms eða dómstóls, enda ekki aðili máls, þyrfti hún við samningu nýrrar tillögu að taka tillit til dómsins þar sem hún er alþjóðastofnun og sem slík bundin að þjóðarétti.Aðildarríki hafréttarsamningsins geta óskað eftir ráðgefandi áliti frá Alþjóðlega hafréttardómnum, sbr. reglu 138 í málsmeðferðarreglum dómsins. Í þeirri reglu segir að dómurinn megi veita ráðgefandi álit um lögfræðilegt álitaefni ef samkomulag milli ríkja tengt tilgangi hafréttarsamningsins áskilur sérstaklega að hægt sé að biðja dóminn um slíkt álit. Hafa verður í huga að álit dómsins eru ekki bindandi. Þrátt fyrir það geta þau nýtst til að skýra lagaleg álitaefni um landgrunnið.

Baráttan um landgrunnið VII – HATTON ROCKALL

#40 - 01-09-2007

Ísland hefur gert tilkall til landgrunns á þremur svæðum fyrir utan 200 sjómílurnar. Hér verður Hatton-Rockall svæðið tekið til skoðunar.
Við dýptar-, þyngdar- og segulmælingu á landgrunninu á 8. áratugnum uppgötvaðist setlagadæld undan Mið-Norðurlandi en þar eru setlög þykkust á landgrunninu og því líklegust til að geyma olíu eða gas. Líklegt þykir út frá jarðfræðilegu sjónarmiði að olía finnist við Jan Mayen og á Hatton-Rockall svæðinu enda svipar þeim til svæða þar sem þegar hefur fundist olía við Noregsstrendur og norðan við strendur Bretlands. Ísland hefur gert tilkall til landgrunns á þremur svæðum fyrir utan 200 sjómílurnar eins og kom fram í fyrstu grein þessarar greinaraðar. Hér á eftir verður Hatton-Rockall svæðið tekið til skoðunar.Þann 9. maí 1985, einum og hálfum mánuði áður en Ísland fullgilti hafréttarsamninginn, gaf utanríkisráðherra út reglugerð nr. 196/1985 varðandi afmörkun landgrunnsins til vesturs, í suður og til austurs og tók þegar gildi, samkvæmt 6. gr. hennar. Reglugerðin virðist hafa verið mótleikur íslenska ríkisins gegn útspili Danmerkur, Bretlands og Írlands í deilu ríkjanna um yfirráð á Hatton-Rockall svæðinu. Sú afmörkun sem birtist í reglugerð nr. 196/1985 byggir á hugmyndum dr. Manik Talwani, jarðeðlisfræðings og sérfræðings í landgrunnsmálum, en hann var sérstakur ráðunautur íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki. Hann taldi að því er varðar jarðeðlisfræði að Bretland og Írland séu skorin frá svæðinu með Rockall-trogi svokölluðu og dýpi Færeyjarsundsins, sunnan við eyjarnar raski landgrunnskröfum þeirra. Ísland gæti aftur á móti rakið landgrunn sitt til svæðisins án þess að rekast á landgrunnshlíð annars lands. Bent skal á að haft var eftir Steinari Þ. Guðlaugssyni, jarðeðlisfræðingi hjá Orkustofnun, í Morgunblaðinu þann 27. maí 2000 að umræddar kröfur Íslendinga hafi verið byggðar á tiltækum kortum. Draga má þá ályktun af orðum Steinars að sjálfstæð og ítarleg rannsókn hafi ekki farið fram á því svæði sem Ísland gerði tilkall til með reglugerðinni þrátt fyrir að ríkar kröfur séu gerðar til þeirra gagna sem notuð eru við afmörkun hafsvæða. Í því samhengi er rétt að benda á að afar erfitt getur verið að finna hlíðarfótinn, en hann gegnir veigamiklu hlutverki í þeim formúlum sem notaðar eru við afmörkun landgrunnsins. Svo virðist sem íslenskir ráðamenn hafi verið óþreyjufullir eftir niðurstöðu í þessu máli og hafði það e.t.v. áhrif á framvindu mála. Haft var eftir Eyjólfi Konráði Jónssyni, þáverandi formanni utanríkismálanefndar Alþingis, í Morgunblaðinu þann 7. júlí 1984 að „[þ]essar samningaviðræður hafa [...] dregist á langinn og nú er óviðunandi fyrir okkur að bíða lengur. Þess vegna hljótum við einhliða að taka okkar réttindi í samræmi við alþjóðalög.“Bretar mótmæltu efni umræddrar reglugerðar harðlega þann 16. júní sama ár, m.a. á þeim grundvelli að hún ætti sér ekki nokkra stoð í þjóðarétti. Ýmislegt er athugavert við reglugerðina. Hér verður haldið fram að heppilegra hefði verið að setja kröfur Íslands fram í formi yfirlýsingar en í formi innlendrar löggjafar. Byggist sú skoðun einkum á því að reglugerðin virðist ekki eiga sér stoð í lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn skulu stjórnvöld setja reglur um rannsóknir og hagnýtingu auðlinda landgrunnsins. Í reglugerð nr. 196/1985 eru hvorki settar reglur um rannsóknir né hagnýtingu auðlinda landgrunnsins. Reglugerðin fjallar einungis um afmörkun landgrunnsins. Með rúmri lögskýringu væri e.t.v. hægt að túlka hugtakið hagnýtingu þannig að það nái yfir hugtakið afmörkun þar sem það hlýtur að vera forsenda hagnýtingar auðlinda að svæðið sem hagnýtingin fari fram á sé skýrt afmarkað. Þeirri skýringu er hins vegar hafnað. Ef löggjafinn hefði viljað veita framkvæmdavaldinu heimild til að afmarka ytri mörk landgrunnsins gagnvart öðrum ríkjum, hefði verið eðlilegast að setja þá heimild í 7. gr. laganna sem fjallar um afmörkun svæða milli ríkja.Viss þversögn kemur fram í reglugerðinni. Af 3. gr. reglugerðarinnar má ráða að Færeyjar, Bretland og Írland eigi ekki rétt til landgrunns til vesturs utan 200 sjómílna þar sem landgrunn Íslands liggur að línu dreginni 200 sjómílum frá grunnlínum nágrannalandanna. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur hins vegar fram að leita beri samkomulags milli Íslands og annarra hlutaðeigandi landa um endanlega afmörkun landgrunnsins í samræmi við almennar reglur þjóðaréttar. Hægt er að halda því fram að utanríkisráðherra hafi talið sig frekar vera að gefa yfirlýsingu um tilkall Íslands til svæðisins en að afmarka það endanlega. Ef utanríkisráðherra hefur hins vegar talið sig vera að afmarka landgrunnið endanlega hlýtur sú nálgun að teljast sérstök, þ.e. að ríki afmarki fyrst yfirráðasvæði sitt og semji síðan um ytri mörk sama svæðis sem þegar er búið að afmarka þó aðrir eigi ekki rétt til þess.Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ákvæði 76. gr. hafréttarsamningsins séu lögð til grundvallar, þar sem við á til að ákveða ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna frá grunnlínu. Þrátt fyrir þá fullyrðingu geta ytri mörk landgrunnsins, eins og þeim er lýst í reglugerðinni, ekki verið endanleg og bindandi í skilningi 8. tl. 76. gr. samningsins. Samkvæmt töluliðnum skal strandríki leggja upplýsingar um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna frá grunnlínunum, sem víðátta landhelginnar er mæld frá, fyrir nefnd um mörk landgrunnsins. Nefndin skal þvínæst gera tillögur til strandríkja um mál sem snerta ákvörðun ytri marka landgrunnsins. Mörk grunnsins, sem strandríki hefur ákveðið á grundvelli þessara tillagna, skulu vera endanleg og bindandi, þ.e.a.s. ætlast er til að landgrunnsnefndin fjalli um greinargerðir strandríkis og geri tillögur sínar áður en strandríkið ákveður mörkin þar sem boðið er að strandríki skuli ákvarða mörkin á grundvelli tillagna nefndarinnar. Nefndin verður því að hafa lokið störfum áður en strandríkinu er heimilt að hefjast handa um útfærsluna. Í ljósi þessa getur afmörkun ytri markalínu íslenska landgrunnsins eins og hún birtist í reglugerð nr. 196/1985 ekki talist „endanleg og bindandi“ í skilningi 8. tl. 76. gr. þar sem reglugerðin er ekki samin á grundvelli tillagna nefndarinnar.Íslenskum stjórnvöldum til varnar verður að benda á, að á þessum árum og árunum á eftir var ekki mikill sáttatónn í breskum og írskum stjórnvöldum í deilu ríkjanna um umrætt hafsvæði og ekki mikill vilji af hálfu breskra stjórnvalda að ræða þennan málaflokk við íslensk stjórnvöld. Undir árslok 1988 sömdu Bretland og Írland um skiptingu landgrunns milli ríkjanna Það gerðu ríkin með því að draga svokallaða jafnlengdarlínu. Hún var dregin jafnlangt frá ströndum ríkjanna og var lengd hennar ekki takmörkuð við 200 sjómílna fjarlægð frá ströndum þeirra þrátt fyrir að ríkin hafi ekki verið aðilar að hafréttarsamningnum á þeim tíma en færð hafa verið fyrir því sterk rök að slík ríki geti ekki gert tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna frá grunnlínum. Línan náði þvert yfir Hatton-Rockall svæðið og skipti því þannig milli ríkjanna tveggja. Ísland mótmælti þessum samningi á þeim forsendum að hann skerti rétt þess á svæðinu og væri í algjöru ósamræmi við reglur hafréttarsamningsins um aðferðir við afmörkun landgrunns. Af þessu er ljóst að íslensk stjórnvöld voru ekki ein um að standa ekki lögformlega rétt að afmörkun landgrunnsins á þessu tímabili.Eins og komið hefur fram í þessum greinaflokki skal strandríki leggja upplýsingar um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna frá grunnlínunum, sem víðátta landhelginnar er mæld frá, fyrir landgrunnsnefndina. Íslensk stjórnvöld hafa unnið skipulega að slíkri greinargerð um árabil. Í ágúst 2001 kynntu utanríkis- og iðnaðarráðherra sameiginlega skýrslu, um undirbúning greinargerðar til landgrunnsnefndarinnar um mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna. Kröfur Íslands byggja á því að náttúruleg framlenging landsins er rakin eftir Reykjaneshrygg og Íslands-Færeyjahryggnum í suðurátt. Gert var ráð fyrir að skila greinargerðinni árið 2005 og kynna hana munnlega fyrir landgrunnsnefndinni árið 2006. Henni hefur hins vegar ekki verið skilað þegar þessi orð eru skrifuð.Fyrstu fjórhliða viðræður ríkjanna sem deila um landgrunnsréttindi á Hatton-Rockall svæðinu fóru fram þann 11. október 2001. Eftir fundinn lýsti Halldór Ásgrímsson því yfir að fundurinn hafi verið mjög jákvæður og gagnlegur og ákveðið hafi verið að halda annan fjórhliða fund í kjölfarið. Í máli Halldórs kom fram að til að lausn fengist á afmörkun landgrunnsins á Hatton-Rockall svæðinu þyrfti tvennt að koma til. Annars vegar samkomulag milli aðila um skiptingu svæðisins á milli þeirra eða það yrði nýtt sameiginlega og hins vegar yrði að nást niðurstaða um ytri mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlegum hafsbotni með hliðsjón af tillögum landgrunnsnefndarinnar. Í fréttatilkynningu frá því í nóvember 2004 birtist sama afstaða, þ.e. að þessir tveir þættir þurfi að koma til svo að samkomulag náist. Jafnframt kom fram að ríkin þurfi sameiginlega að leggja greinargerð eða greinargerðir fyrir landgrunnsnefndina um ytri mörk landgrunnsins, þ.e. mörkin milli landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnssvæðisins, og ákvarða þau með hliðsjón af tillögum nefndarinnar. Í nýlegri grein Tómasar H. Heiðar, núverandi þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins, kemur fram að viðræðurnar um Hatton-Rockall málið hafi verið gagnlegar og m.a. snúist um ákvörðun ytri marka svæðisins og hugsanlegar aðferðir til skiptingar þess milli aðila. Af Íslands hálfu hafi verið lögð á það áhersla að ekki sé raunhæft að ná samkomulagi um ytri mörk svæðisins nema í samhengi við skiptingu þess sem sé lögfræðilegt og pólitískt viðfangsefni. Af þessum sökum verði að ná samkomulagi um skiptingu svæðisins, þ.m.t. um hugsanleg sameiginleg nýtingarsvæði, áður en sameiginleg greinargerð um ytri mörk svæðisins sé lögð fyrir landgrunnsnefndina og hún geti fjallað um þau.Af ofansögðu virðist Hatton-Rockall deilunni miða í samkomulagsátt. Er það í samræmi við efni fréttatilkynningar um fund þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Geirs H. Haarde, og Bretlands, Jack Straw, frá því 18. janúar 2006. Í henni kom fram að þeir telji að Hatton-Rockall málið sé í réttum farvegi. Öldurnar virðast því hafa lægt frá því á níunda áratugnum og líklegt er að samningaviðræður á grundvelli þjóðaréttar muni leysa þessa deilu.Efni greinarinnar er tekið úr Bjarni Már Magnússon. (2007). Stefna íslenska ríkisins í hafréttarmálum 1982-2006. M.A. ritgerð: Háskóli Íslands. Félagsvísindadeild.

Baráttan um landgrunnið VIII – SÍLDARSMUGAN OG REYKJANESHRYGGUR

#41 - 05-09-2007

Í þeim miklu deilum sem hafa staðið um Hatton-Rockall hefur oft á tíðum gleymst í þjóðmálaumræðunni að Ísland á einnig rétt til landgrunnsins í suðurhluta Síldarsmugunnar og á Reykjaneshrygg.
Í þeim miklu deilum sem hafa staðið um Hatton-Rockall hefur oft á tíðum gleymst í þjóðmálaumræðunni að Ísland á einnig rétt til landgrunnsins í suðurhluta Síldarsmugunnar og á Reykjaneshrygg.Íslendingar hafa á undanförnum árum átt tæknilegt samstarf við Norðmenn, Dani og Færeyinga um mælingar á landgrunninu í Síldarsmugunni. Þann 1. júní 2006 sagði Geir H. Haarde frá því að vikurnar áður hafi farið fram óformlegar viðræður milli Íslands, Noregs og Færeyja um hugsanlega skiptingu landgrunnsins í Síldarsmugunni. Þokast hafi í samkomulagsátt og vonir stæðu til þess að unnt yrði að ljúka málinu á næstunni. Þann 20. september 2006 var undirritað samkomulag um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna milli Íslands, Færeyja, meginlands Noregs og Jan Mayen í suðurhluta Síldarsmugunnar. Sú skipting landgrunnsins er þó með fyrirvara um að aðilum takist hverjum fyrir sig með greinargerð til landgrunnsnefndarinnar að sýna fram á tilkall sitt til jafnstórs hafsbotnssvæðis og samkomulagið kveður á um að hann skuli fá í sinn hlut. Í Morgunblaðinu þann 27. maí 2000 var haft eftir Sveinbirni Björnssyni, deildarstjóra auðlindadeildar Orkustofnunar, að miðað við þá vitneskju sem menn hafi í dag um hafsbotninn í Síldarsmugunni sé ólíklegt að þar megi finna olíu í jörðu. Hafsbotninn sé hluti af úthafsskorpu þar sem lítið sé um olíu og að fyrsta kastið sé þetta í raun landvinningastefna í Síldarsmugunni.Ísland er eina ríkið sem gerir tilkall til landgrunnsréttinda á Reykjaneshrygg. Vegna 6. tl. 76. gr. hafréttarsamningsins sem kveður á um að ytri mörk landgrunnsins á neðansjávarhryggjum skuli ekki vera lengra en 350 sjómílur frá grunnlínunum sem víðátta landhelginnar er mæld frá getur Ísland ekki gert tilkall til landgrunnsins á Reykjaneshrygg lengur en 350 sjómílur. Ekki eru miklar vonir bundnar við að olía finnist á Reykjaneshrygg. Ísland hefur ekki sent greinargerð til landgrunnsnefndarinnar varðandi Reykjaneshrygg en gerir það væntanlega von bráðar.

Rauði herinn um höfin blá

#42 - 12-12-2007

Í gær bárust fregnir um að rússneskt flugmóðurskip, ásamt ellefu öðrum herskipum og að öllum líkindum kafbátum, væru á leið inni í íslenska efnahagslögsögu suðaustur af landinu. Á fréttavefnum Vísi var fullyrt að flotadeildin þyrfti ekki að leita leyfa til að fara inn í efnahagslögsöguna en hún mætti ekki fara inn í landhelgina án leyfis. Fullyrðingin er ekki alls kostar rétt.
Í gær bárust fregnir um að rússneskt flugmóðurskip, ásamt ellefu öðrum herskipum og að öllum líkindum kafbátum, væru á leið inni í íslenska efnahagslögsögu suðaustur af landinu. Á fréttavefnum Vísi var fullyrt að flotadeildin þyrfti ekki að leita leyfa til að fara inn í efnahagslögsöguna en hún mætti ekki fara inn í landhelgina án leyfis. Þetta er ekki alls kostar rétt.Á alþjóðlegum hafsvæðum og í efnahagslögsögunni gildir meginreglan um frelsi til siglinga. Í landhelginni er staðan hins vegar önnur. Samkvæmt 17. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna hafa skip allra ríkja rétt til friðsamlegrar ferðar um landhelgina í samræmi við samninginn. Það er því ljóst að herskip sem og önnur skip hafa fullan rétt til friðsamlegrar ferðar um landhelgina að nánar uppfylltum skilyrðum (sjá fyrir neðan merkingu hugtakana herskip, ferðar og friðsamlegrar ferðar).Íslensk löggjöf er í samræmi við 17. gr. hafréttarsamningsins. Af d-lið 2. gr. tilskipunar nr. 44/1939 um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasvæði má ráða að herskipum sé frjálst að sigla viðstöðulaust gegnum íslenska landhelgi. Í þessu samhengi er rétt að benda á þá sérreglu er gildir um kafbáta og önnur neðansjávarför í landhelginni en samkvæmt 20. gr. hafréttarsamningsins skulu þau sigla ofansjávar og hafa fána sinn uppi. Sambærilegt ákvæði er að finna í umræddri tilskipun.Nú kann einhverjum að finnast þessar reglur ekki þjóna íslenskum hagsmunum þar sem herskipum erlendra ríkja sé heimilt að sigla of nálægt landi. Undirritaður er þó á því að svo sé ekki. Aðild Íslands að NATO ásamt tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin leika lykilhlutverk í vörnum ríkisins. Hreyfanleiki sjóherja Bandaríkjanna og annarra aðildarríkja NATO skipta miklu fyrir íslenska hagsmuni. Því minni takmarkanir sem eru á ferðum herskipa því minni tími fer í að fara milli staða. Hreyfanleikinn þjónar auk þess hagsmunum ríkja heims þegar þarf að stilla til friðar og tryggja valdajafnvægi á órólegum svæðum. Taka má sem dæmi að hreyfanleiki sjóherja er ein af þeim hugmyndum sem liggja VII. kafla sáttmála hinna sameinuðu þjóða til grundvallar sem fjallar um hvernig ríki heims geta gripið til aðgerða vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása.Aukin umsvif Rússa í Norðurhöfum er annað viðfangsefni. Nauðsynlegt er að reyna skilja ásetning Rússa og takast á við hann með raunsæjum hætti. Ísland mun ekki leika lykilhlutverk í því verkefni. Hins vegar mun Ísland hafa hlutverki að gegna vegna landfræðilegrar legu ríkisins. Það hlutverk verður að takast á við svo sem með eflingu Landhelgisgæslunnar.

29. gr. Skilgreining á herskipum

Í samningi þessum merkir „herskip“skip sem telst til hers ríkis, ber hin ytri merki til að

auðkenna slík skip af þjóðerni þess, er undir stjórn yfirmanns, sem stjórn ríkisins hefur formlega

skipað og nafngreindur er í viðeigandi herþjónustuskrá eða á jafngildan hátt, og er með áhöfn

undir venjulegum heraga.18. gr. Merking ferðar

1. Ferð merkir siglingu um landhelgina í því skyni:

a) að fara um hana án þess að koma inn á innsævi eða að leggjast á skipalægi eða að

hafnarmannvirki utan innsævis; eða

b) að halda inn á eða út af innsævi eða að leggjast á slíkt skipalægi eða að slíku hafnarmannvirki.

2. Ferð skal vera óslitin og greið. Ferð felur þó í sér rétt til að nema staðar og varpa

akkerum en aðeins að svo miklu leyti sem það er samfara venjulegri siglingu ellegar reynist

nauðsynlegt af óviðráðanlegum ástæðum eða vegna neyðar eða til að veita mönnum, skipum

eða loftförum í háska eða neyð aðstoð.19. gr. Merking friðsamlegrar ferðar

1. Ferð er friðsamleg svo framarlega sem hún stofnar friði, góðri reglu eða öryggi

strandríkisins ekki í hættu. Þessa ferð skal fara í samræmi við samning þennan og aðrar reglur

þjóðaréttar.

2. Ferð erlends skips skal talin stofna friði, góðri reglu eða öryggi strandríkisins í hættu ef

það fæst við einhverja af eftirfarandi athöfnum í landhelginni:

a) hótun um valdbeitingu eða beitingu valds gegn fullveldisrétti, landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði

strandríkisins eða á annan hátt í bága við meginreglur þjóðaréttar sem

geymdar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna;

b) æfingu eða þjálfun með vopn af hvaða tegund sem er;

c) aðgerð til upplýsingaöflunar sem stofnar vörnum eða öryggi strandríkisins í hættu;

d) áróðursaðgerð til að hafa áhrif á varnir eða öryggi strandríkisins;

e) flugtak, lendingu eða töku loftfars um borð;

f) skot, lendingu eða töku hernaðartækis um borð;

g) lestun eða losun vöru, móttöku eða afhendingu gjaldeyris ellegar ferð manna um borð eða

frá borði, andstætt lögum og reglum strandríkisins í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða

heilbrigðismálum;

h) vísvitandi og alvarlega mengun sem brýtur gegn samningi þessum;

i) veiði;

j) framkvæmd rannsókna- eða mælingastarfsemi;

k) aðgerð sem miðar að afskiptum af fjarskiptakerfum ellegar annarri aðstöðu eða útbúnaði

strandríkisins;

l) aðra iðju sem er ekki í beinum tengslum við ferð.

Romney: Íhaldsmaður af Guðs náð… eða hvað?

#43 - 08-01-2008

Auðjöfurinn og fv. ríkisstjóri Massachusetts Mitt Romney hefur af mörgum verið kallaður óskakandidat flokkseigandafélags Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann er ýmsum kostum búinn en er þó jafnframt umdeildur.
Auðjöfurinn og fv. ríkisstjóri Massachusetts Mitt Romney hefur af mörgum verið kallaður óskakandidat flokkseigandafélags Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann er ýmsum kostum búinn, þykir glæsilegur, á sand af seðlum til að auglýsa sig, er af góðum Repúblikanaættum og stefnumál hans bera vott um íhaldssemi í félagslegum efnum (sem þykir mjög fínt hjá mörgum vestanhafs). Hann er þó jafnframt umdeildur og virðist líklegur til að fara í ansi hart í baráttu sinni ef eitthvað er að marka ásakanir úr herbúðum andstæðinga hans.Það sem vinnur helst gegn honum er að hann er mormóni og er sagður skipta um skoðun eftir því hvernig vindar blása. Kannanir hafa bent til þess að einn fjórði kjósenda Repúblikanaflokksins sé ekki neitt voðalega opinn fyrir að velja forsetakandídat sem er mormóni. Aftur á móti hefur heyrst gagnrýni úr röðum evangelíka sem telja Romney ekki vera nógu mikinn mormóna. Vandlifað er í henni veröld.Afstaða Romneys til vissra umdeildra málaflokka hefur breyst nokkuð frá því hann sóttist eftir sæti öldungarþingmanns árið 1994. Mest áberandi eru sinnaskipti hans til fóstureyðinga og til réttinda samkynhneigðra. Skoðanir hans hafa breyst í íhaldssama átt, furðu mikið að sumra mati. Andstæðingar Romneys hafa stokkið á sinnaskiptin, notað hvert tækifæri til að benda á þau og uppnefnt hann flip-flop Romney.Samkvæmt Romney eru grunnstoðir Bandaríkjanna fjölskyldan, herinn og efnahagurinn. Stefna Romneys í félagslegum efnum, frá lögleiðingu kannabisefna til byssueignar almennings, höfðar nokkuð vel til kristinna íhaldsmanna. Romney verður seint settur í flokk með frjálslyndum mönnum.Stefna Romneys í efnahagsmálum þarf ekki að koma á óvart. Hann er almennt stuðningsmaður skattalækkana, styður frjáls milliríkjaviðskipti og vill að Bandaríkin séu óháð öðrum ríkjum þegar kemur að orkumálum.Utanríkisstefna Romneys þykir nokkuð lík stefnu núverandi valdhafa í Hvíta húsinu. Romney studdi innrásina í Írak, fjölgun hermanna þar og er ekkert á þeim buxunum að senda hermennina heim. Hann útilokar ekki beitingu kjarnorkuvopna gegn Íran ef ekkert annað dugar, er mótfallinn að forseti Bandaríkjanna ræði við ráðamenn ríkja sem eru fjandsamleg Bandaríkjunum og er hlynntur fjölgun innflytjenda til Bandaríkjanna svo lengi sem þeir eru þar löglega.Margar yfirlýsingar Romneys varðandi utanríkismál hljóta að stuða hinn venjulega Íslending, t.a.m. telur Romney að tvöfalda eigi Guantanamo og að óvinir Bandaríkjanna sem teknir eru höndum í Írak eigi að vera geymdir í Guantanamo þar sem þeir hafa ekki aðgang að lögmönnum sem þeir myndu hafa á bandarískri grundu. Romney er stuðningsmaður svokallaðra “enhanced interrogation techniques” en það eru harkalegar aðferðir sem notaðar eru við upplýsingaöflun í hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum.Þrátt fyrir að Romney væri ekki líklegur til að ná árangri með stefnumál sín á Íslandi á margt sem hann stendur fyrir hljómgrunn meðal íhaldssamra Bandaríkjamanna. Hvort Mitt Romney höfði til annarra en þeirra er ólíklegt.

-------------------

www.mittromney.com

Realismi: konungur kenninganna

#44 - 29-01-2008

International politics, like all politics, is a struggle for power. Whatever the ultimate aims of international politics, power is always the immediate aim...
Upphaf realisma sem kenningar innan alþjóðasamskipta má rekja til síðustu aldar, líkt og upphaf fræðigreinarinnar sjálfrar. Fylgismenn kenningarinnar halda því þó fram að uppruna þeirra hugmynda sem endurspeglast í realisma sé hægt að rekja enn lengra, til skrifa þeirra Þúkýdídesar, Machiavelli, Hobbes og Rousseau. Hægt er að líta á realisma sem mótsvar þeirra hugmynda sem endurspeglast í svokölluðum idealisma. Grunnforsenda þeirrar stefnu var að fólk ætti sameiginleg markmið eins og frið, velferð, heilsu og að stofnanir væru sköpunarverk mannanna, og ættu að geta uppfyllt þarfir þeirra. Idealisminn hafði jafnframt pólitískt markmið. Honum var ætlað að hafa áhrif á hugmyndir og gjörðir manna. Stefnan skoðar heiminn eins og hann ætti að vera og fellur því í flokk svokallaðra gildisvísinda (e. normative science). Realismi hefur hins vegar ekkert markmið í sjálfu sér, hann einkennist af pósitivisma, þ.e. leitast við að lýsa heiminn eins og hann er.Sagnfræðingurinn E. H. Carr er iðulega nefndur sem upphafsmaður realismans innan alþjóðasamskipta en hann gagnrýndi idealismann í bók sinni The Twenty Years Crisis sem fyrst var gefin út árið 1939. Það er hins vegar Þjóðverjinn Hans Morgenthau sem fluttist til Bandaríkjanna fyrir seinna stríð sem talinn er hafa stuðlað mest að útbreiðslu kenningarinnar einkum og sér í lagi með bók sinni Politics among Nations sem fyrst var gefin út árið 1948. En í hverju fólst gagnrýni þessara manna? Carr vildi rannsaka alþjóðasamskipti eins og þau væru en ekki eins og þau ættu að vera. Hann vildi skoða staðreyndir og greina orsakir og afleiðingar þeirra. Hann kallaði eftir aðferðarfræði í líkingu við aðferðarfræði raunvísinda til að skoða alþjóðasamskipti. Morgenthau var sama sinnis.Á uppgangstíma realismans geysaði kalt stríð milli tveggja vígvæddra stórvelda. Hafa verður þá staðreynd í huga þegar fjallað er um kenninguna. En um hvað snýst hún annars? Realisminn snýst í grófum dráttum um valdabaráttu fullvaldra ríkja í stjórnlausum heimi þar sem megintilgangur ríkja er að lifa af og tryggja öryggi sitt. Gengið er út frá því að ríki geti ekki treyst hvert öðru, ríki geti einungis stólað á sig sjálf. Vandamálin sem ríki standi frammi fyrir séu hernaðarlegs eðlis. Hápólitík (e. high politcs) svo sem stríð, öryggi og hernaðarvald sé umfjöllunarefni alþjóðasamskipta. Innan ríkja er friður, þar er skipulag ríkjandi og þar á sér stað framþróun. Það sem gerist innan þeirra er alþjóðamálum hins vegar óviðkomandi. Innanríkis- og utanríkismál eru því eins og svart og hvítt í heimi realismans. Lykilhugtök realismans eru sjálfsforræði, öryggi, valdajafnvægi, skynsemi og þjóðarhagsmunir. Markmiðið er ekki að stuðla að friði í sjálfu sér heldur valdajafnvægi sem leiðir til stöðugleika.Taka verður fram að bent hefur verið á að realisminn er ekki ein samheldin stefna heldur hefur hann mörg afbrigði. Það eru hins vegar völd sem útgangspunktur sem gerir það að verkum að þessi afbrigði falla í sama flokk. Segja má að Morgenthau lýsi vel þessari valdahugsun í byrjun þriðja kafla bókar sinnar Politics among Nations. Þar staðhæfir hann að alþjóðastjórnmál, líkt og öll stjórnmál, séu barátta um völd. Jafnframt segir hann að hver svo sem endanlegur tilgangur alþjóðastjórnmála er, þá séu völd alltaf fyrsta markmiðið. Við endurútgáfu bókarinnar setti Morgenthau fram sex meginreglur realismans. Sú sem hefur einna mest verið gagnrýnd er sú að í stjórnmálum ríki hlutlægar reglur sem eigi rætur sínar í mannlegu eðli.Erfitt er að fjalla um realismann án þess að víkja örfáum orðum að neo-realisma sem kom fram á sjónarsviðið í lok áttunda áratugar síðustu aldar. Kenningin var sett fram sem mótsvar við gagnrýnendum realismans. Helsti kennismiður neo-realismans var Bandaríkjamaðurinn Kenneth Waltz. Neo-realisminn víkur frá þeirri grunnhugmynd Morgenthau, að í stjórnmálum ríki hlutlægar reglur sem eigi rætur sínar í mannlegu eðli. Waltz hélt því fram að uppbygging alþjóðakerfisins sé lykilþáttur í mótun hegðunar ríkja. Lykilatriðið er að rannsaka uppbyggingu kerfisins og hverja og einstaka einingu (ríki) en ekki samskiptin á milli ríkja. Sú kenning hefur verið harðlega gagnrýnd líkt og realisminn.Realisminn hefur verið gagnrýndur harðlega af mörgum og frá mismunandi sjónarhornum. Þeir fyrstu til að gagnrýna realismann voru svokallaðir behaviouralistar. Sú gagnrýni var fyrst og fremst aðferðarfræðileg. Þeir sem aðhylltust þá stefnu gagnrýndu m.a. grunnforsendu realismanns um að í stjórnmálum ríki hlutlægar reglur sem eigi rætur sínar í mannlegu eðli. Þeir gagnrýndu jafnframt að ekki væri hægt að skilgreina með hlutlægum hætti þrjú lykilhugtök realismans, völd, valdajafnvægi og þjóðarhagsmuni.Plúralismi nefnist annar kenningarhópur sem gagnrýnt hefur realismann. Þeir sem aðhyllast hann fallast á að ríki séu mikilvægir gerendur í heimi alþjóðasamskiptanna en benda á þau séu ekki einu gerendurnir. Ríkjasamtök, svo sem Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, eru dæmi um aðra gerendur. Alþjóðleg stórfyrirtæki svo sem IBM og svokölluð óháð félagasamtök (e. NGO´s) eins og Amnesty International spili einnig rullu. Plúralisminn bendir á að ekki sé hægt að líta á ríki sem einn geranda líkt og realisminn gerir. Það er ekki einungis hápólitík sem á að vera viðfangsrefni alþjóðasamskipta samkvæmt plúralismanum heldur einnig svokölluð lágpólitík (e. low politics), t.d. efnahags-, umhverfis- og félagsleg málefni. Plúralisminn gagnrýnir heimsmynd realismans. Fylgismenn plúralisma benda á að realisminn lítur ekki til alþjóðlegrar samvinnu svo sem innan vébanda Sameinuðu þjóðanna þegar fylgismenn hans tala um stjórnlaus alþjóðasamskipti fullvaldra ríkja. Jafnframt benda þeir á að stríð sé ekki það eina sem á sér stað milli ríkja. Ríki séu háð innbyrðis svo sem á sviði umhverfis- og efnahagsmála. Það sem gerist í einu ríki geti haft talsverð áhrif á annað, Chernobyl slysið hafði t.a.m. mikil áhrif utan Sovétríkjanna. Þeir sem aðhyllast plúralisma hafa komið með þá kenningu að alþjóðastjórnmál hafi skapað reglur um háttsemi ríkja. Margar af þessum reglum sé almennt viðurkenndar og iðulega sé farið eftir þeim. Hægt er að halda áfram að telja upp hvernig plúralisminn hefur gagnrýnt realismann, en það sem aðgreinir etv. plúralismann mest frá realismann þegar á heildina er litið er að sýn plúralismans er mun bjartari á alþjóðasamskipti en sýn realismans.Annar kenningahópur sem gagnrýnt hefur realismann eru svokallaðar gagnrýnar kenningar (e. Critical Perspective). Hópurinn samanstendur af ýmsum straumum og stefnum sem hafa það sameiginlegt að standa fyrir utan kerfið og spyrja hvernig það hafi orðið til. Kenningarnar spyrja verufræðilegra spurninga eins og: „Hvernig komumst við að því sem við höldum að við vitum?“ Þessar kenningar reyna að skoða samhengi hlutana og sögulega þætti í alþjóðasamskiptum. Fjöldahreyfingar og stéttir eru gerendurnir samkvæmt kenningunum. Það er ekki stjórnleysi sem einkennir samskipti ríkja heldur er það stigveldi, stigveldi drottnandi ríkja og ríkja háðum þeim. Kenningarnar sjá efnahagsleg tengsl sem uppsprettu valds og hernaðarvald sem tæki til að drottna efnahagslega. Um gildisvísindi er að ræða; þeir sem aðhyllast kenningarnar ræða um heiminn eins og hann ætti að vera. Ólíkt realismann sjá sumir sem aðhyllast þessar kenningar framtíð fyrir sér þar sem hætt verði að notast við hernaðarvald og ríkjafyrirkomulag, heimsmynd þar sem stigveldi breytist í jafnræði og átök að samhljómi. Gagnrýnar kenningar bjóða upp á ummyndandi sýn, enduruppbyggingu frá rótum, sem hnattvæddar fjöldahreyfingar sjá um að koma í verk.Hvað sem líður þessari gagnrýni á realismann virðist lítið hagga stöðu kenningarinnar innan alþjóðasamskiptanna. Sannleikskornið í kenningunni virðist vera of sterkt til að hægt sé að kaffæra kenningunni. Menn eins og prófessor Mearsheimer við Chicago háskóla o.fl. munu sjá til þess að realisminn lifi góðu lífi næstu áratugina og eiga svör við erfiðum álitaefnum.

Ríkið, ESB og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi

#45 - 13-02-2008

Á Íslandi tíðkast talsvert samráð milli stjórnvalda og hagsmunaaðila eins og annars staðar á Norðurlöndunum. Í þeim efnum eru sjávarútvegsmál engin undantekning.
Á Íslandi tíðkast talsvert samráð milli stjórnvalda og hagsmunaaðila eins og annars staðar á Norðurlöndunum. Í þeim efnum eru sjávarútvegsmál engin undantekning. Í skýrslunni -Fiskveiðiauðlindin, Ísland og Evrópusambandið- frá 2004 sem unnin var af starfshópi á vegum utanríkis- og sjávarútvegsráðuneytsins og hagsmunasamtaka í íslenskum sjávarútvegi er að finna áhugaverða lýsingu á tengslum hagsmunaaðila og stjórnvalda:„[A]ð málum koma yfirleitt ríkisvald og hagsmunaaðilar og hægt [er] að ljúka málum skilvirkt og á skömmum tíma [...] Óformlegt samband stjórnvalda og hagsmunaaðila er einnig stundum virkt, og unnt er að taka ákvarðanir um tæknilegar verndaraðgerðir hratt, í samvinnu stjórnvalda, vísindamanna, útgerðar og sjómanna.“Jafnframt kemur fram í skýrslunni að það sé grundvallaratriði að allar ákvarðanir séu teknar í svo miklu samráði við atvinnugreinina sem unnt er. Íslenskt samfélag sé þannig að boðleiðir milli atvinnugreina og stjórnvalda séu stuttar. Það gefi einstakt tækifæri til að gera ákvarðanir þannig úr garði að þær mæti skilningi þeirra sem þeim fylgja og þar með náist frekar það markmið sem að sé stefnt með reglusetningunni.Segja verður að samstarf íslenska ríkisins og LÍÚ hafi verið það náið að oft á tíðum hafi mörkin á milli LÍÚ og ríkisvaldsins verið ógreinileg. Taka má nokkur dæmi þessu til stuðnings. Í samningsnefnd Íslands sem náði samkomulagi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í janúar 2007 sátu þrír menn, fulltrúar utanríkis-, og sjávarútvegsráðuneytisins og svo framkvæmdastjóri LÍÚ. Á fyrsta fundi aðila strandríkjasamnings um stjórnun kolmunnaveiða sem fór fram í október 2006 var annar þeirra er skipaði sendinefnd Íslands stofnvistfræðingur LÍÚ. Á 27. fundi fiskimálanefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem fram fór í byrjun mars 2007 var stofnvistfræðingur LÍÚ einn af sjö nefndarmönnum. Á síðasta ári tók sami stofnvistfræðingur þátt í fyrri viðræðulotunni um fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri LÍÚ, í síðari viðræðulotunni. Það hafa þeir varla gert með öðru móti en að vera í sendinefnd Íslands. Í ljósi þessara upplýsinga þarf engar málalengingar til að sýna fram á að LÍÚ hafi mjög mikil áhrif á málefni hafsins og þá einkum þau er lúta að auðlindanýtingu þess.Málum er öðruvísi hagað hjá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Bent hefur verið á að hlutur hagsmunaaðila í sjávarútvegi í ákvarðanatökuferlinu innan Evrópubandalagsins sé rýr. Í núgildandi reglugerð um vernd og sjálfbæra nýtingu fiskiauðlinda innan hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu nr. 2371/2002 er komið til móts við þessa gagnrýni að nokkru leyti. Í 31. gr. reglugerðarinnar er t.a.m. kveðið á um svæðisbundin ráðgjafarráð er gegna því hlutverki að vera framkvæmdastjórninni til ráðgjafar um fiskveiðistjórnun á ákveðnum haf – eða fiskveiðisvæðum. Þrátt fyrir að hagsmunaaðilar séu nú í meira mæli hafðir með í ráðum við ákvarðanatökuna hjá framkvæmdastjórninni verður að telja að langt sé í land að þeir séu jafn nátengdir ákvarðanatökuferlinu eins og á Íslandi. Það verður því að telja líklegt að áhrif LÍÚ myndu minnka ef Ísland gengi í ESB. Af skýrslunni Fiskveiðiauðlindin, Ísland og Evrópusambandið virðist sem íslenskum hagsmunaaðilum sé kunnugt um þetta. Hlýtur sú vitneskja að hafa neikvæð áhrif á afstöðu öflugasta hagsmunahóps á sviði sjávarútvegs á Íslandi til aðildar Íslands að ESB.

Baráttan um landgrunnið IX- Jan Mayen og Svalbarði

#46 - 04-06-2008

Mikið er masað um þróun mála á Norðurheimsskautinu. Athygli almennings og fjölmiðla verður sífellt meiri á svæðinu. Rekja má þá þróun til vaxandi mikilvægis Norðurheimsskautssins í alþjóðastjórnmálum. Þá þróun má aftur rekja til aukins aðgengi að auðlindum þar í kjölfar loftslagsbreytinga og tækniþróunar sem og opnunar siglingaleiðarinnar um Norður-Íshafið milli Kyrrahafs og Norður-Atlantshafs. Í þessum pistli verður athyglinni beint að þeim hafsvæðum sem Ísland getur gert landgrunnskröfur til í Norðurhöfum.
Mikið er masað um þróun mála á Norðurheimsskautinu. Athygli almennings og fjölmiðla verður sífellt meiri á svæðinu. Rekja má þá þróun til vaxandi mikilvægis Norðurheimsskautssins í alþjóðastjórnmálum. Þá þróun má aftur rekja til aukins aðgengi að auðlindum þar í kjölfar loftslagsbreytinga og tækniþróunar sem og opnunar siglingaleiðarinnar um Norður-Íshafið milli Kyrrahafs og Norður-Atlantshafs. Í þessum pistli verður athyglinni beint að þeim hafsvæðum sem Ísland getur gert landgrunnskröfur til í Norðurhöfum.Ísland getur ekki gert frekari kröfu til landgrunns í norðurátt þar sem búið er að afmarka markalínu landgrunnsins (og efnahagslögsögu) á milli Íslands og Grænlands annars vegar og hins vegar Íslands og Jan Mayen/Noregs. Segja má að landgrunn (og efnahagslögsaga) Grænlands og Jan Mayen loki þannig á hafsvæði Íslands, þ.e. Ísland á ekki landsvæði að Norðurheimsskautinu. Hins vegar á Ísland viss réttindi við Jan Mayen auk þess sem Svalbarðasamningurinn frá 1920 á að tryggja Íslandi viss nýtingaréttindi.Jan MayenÞann 28. maí 1980 undirrituðu fulltrúar Íslands og Noregs samkomulag um fiskveiði- og landgrunnsmál og 22. október 1981 samkomulag um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Samkomulög þessi öðluðust gildi 2. júní 1982 eftir að hafa verið fullgilt nokkru áður af ríkjunum tveimur. Þann 11. nóvember 1997 var síðan samþykkt viðbótarbókun við samkomulögin sem öðluðust gildi 27. maí ári síðar.Samkomulagið frá 1981 kveður á um nokkurs konar sameiginlegt nýtingarsvæði beggja vegna landgrunnsmarka Íslands og Jan Mayen. Samkvæmt samningnum á Ísland rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á norska hluta svæðisins og Noregur rétt á 25% þátttöku á íslenska hluta svæðisins. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál frá því í apríl á þessu ári er stefnt að því að ganga fljótlega frá samkomulagi við Noreg á grundvelli Jan Mayen samningsins um meginreglur svonefndrar einingarnýtingar auðlinda á olíusvæðum sem liggja beggja vegna markalína.SvalbarðiSvalbarði nýtur sérstakrar stöðu í þjóðarétti. Um landsvæðið gildir sérstakur samningur frá 1920. Samningurinn kveður á um yfirráð Noregs yfir eyjunum, en frá þeirri meginreglu eru mikilvægar undantekningar, meðal annars eiga ríkisborgarar aðildarríkja og skip þeirra skýrt og ótvírætt sama rétt og Norðmenn til auðlindanýtingar en Norðmönnum er heimilt að grípa til verndaraðgerða. Þær verða þó að koma jafnt niður á borgurum aðildarríkjanna. Ástæða þess að Noregi var falin yfirráð á eyjunum var nálægðin við eyjarnar. Með þeirri skipan mála var ekki ætlunin að veita Noregi sérstakan efnahagslegan ávinning. Þvert á móti var það annað markmið samningsins að tryggja rétt annarra ríkja til auðlindanýtingar á eyjunum.Samkvæmt Svalbarðasamningnum geta Norðmenn því ekki einir gert tilkall til auðlinda landgrunnsins sem og annarra auðlinda á hafsvæðinu við Svalbarða. Fullveldisréttindi þeirra til auðlindanýtingar þar takmarkast af jafnræðisreglu Svalbarðasamningsins.Í þessu samhengi verður að benda á að þann 17. ágúst 2004 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að því að vísa deilu Íslendinga og Norðmanna um síldveiðar á Svalbarðasvæðinu til Alþjóðadómstólsins. Umrædd deila snýst í grunninn um heimild Norðmanna til að setja reglur sem eiga sér ekki stoð í Svalbarðasamningnum. Dómur Alþjóðadómstólsins yrði væntanlega þýðingarmikill fyrir alla auðlindanýtingu á Svalbarðasvæðinu. Ekkert er minnst á þessa fyrirhugaða málsókn Íslands á hendur Norðmönnum í fyrrnefndri skýrslu utanríkisráðherra frá því í apríl á þessu ári. Velta má vöngum yfir hvort almenningur eigi ekki rétt á að vita í hvaða farvegi málið er enda varðar það mikilvæga framtíðarhagsmuni.Örstutt, almenn og einfölduð umfjöllun um plúralisma í alþjóðasamskiptum

#47 - 29-06-2008

Umfjöllun um alþjóðastjórnmál er yfirhöfuð frekar slöpp hérlendis. Þessum lítilfjörlega og ómerkilega pistli er ætlað að bæta örlítið þar úr. Hér á eftir verður fjallað með afskaplega óskipulegum og einfölduðum hætti um eina af kenningum alþjóðasamskiptanna og hún borin saman við realisma.
Umfjöllun um alþjóðastjórnmál er yfirhöfuð frekar slöpp hérlendis. Þessum lítilfjörlega og ómerkilega pistli er ætlað að bæta örlítið þar úr. Hér á eftir verður fjallað með afskaplega óskipulegum og einfölduðum hætti um eina af kenningum alþjóðasamskiptanna og hún borin saman við realisma.Plúralismi er ein af þremur helstu kenningarhópunum í alþjóðasamskiptum í dag ásamt realisma og strúktúralisma. Hann á rætur sínar að rekja til seinni hluta 7. áratugarins. Kenningin er náskyld plúralisma innan stjórnmálafræðinnar og rekja má uppruna hennar þangað. Þeir sem aðhyllast kenninguna kalla sig yfirhöfuð ekki plúralista. Hugtakið varð fyrst og fremst til til að aðgreina þá sem aðhylltust svipuð sjónarmið í alþjóðasamskiptum frá öðrum. Innan plúralismans rúmast ýmsar stefnur og straumar en það sem sameinar plúralista fyrst og fremst er andstaðan við realismann. Plúralistar álíta að realisminn gefi ekki fullnægjandi skýringu á alþjóðasamskiptum dagsins í dag, sjónarhorn stefnunnar sé tímaskekkja og viðfangsefnið einfaldað um of. Flestir plúralistar aðhyllast positivisma, þeir leitast við að lýsa heiminum eins og hann er og hefur því stefnan ekkert markmið í sjálfu sér líkt og realisminn.Ástæða þess að stefnan nefnist þessu nafni er sú að andstætt realismanum sem telur ríki fyrst og fremst gerendurna á sviði alþjóðasamskiptanna, lítur stefnan svo á að gerendurnir séu fleiri. Ríkjasamtök, svo sem Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, eru dæmi um aðra gerendur. Alþjóðleg stórfyrirtæki svo sem IBM og svokölluð óháð félagasamtök (e. NGO´s) eins og Amnesty International spila einnig rullu. Einnig hefur verið bent á hryðjuverkahópa og kaþólsku kirkjuna sem gerendur í alþjóðasamskiptum. Taka verður þó fram að fylgismenn plúralismans líta enn á ríkið sem mikilvægan geranda.Eitt af því fyrsta sem plúralistar bentu á er að ekki sé hægt að líta á ríki sem einn geranda sem mótar stefnu eftir rökrænu ákvarðanatökuferli líkt og margir realistar geri. Bent hefur verið á að hægt sé að líkja ríki við stjórnanda hljómsveitar, hans hlutverk sé ekki að skapa tónlist heldur að stilla saman strengi hljómsveitarinnar. Það er því ekki ríkið sem skapar hagsmunina heldur er hlutverk þess að halda utan um þá, þ.e. stilla saman strengina. Jafnframt hefur verið bent á að til að skilja utanríkisstefnu ríkis verði að skoða málamiðlanir milli ríkisstofnana í harðri samkeppni um að ná fram því sem þær telja vera hagsmunamál sem vert er að berjast fyrir. Stofnanirnar séu ekki hlutlausar heldur berjist um að fá sínum stefnumálum framgengt í utanríkisstefnu ríkisins. Það sé því ekki rökræn ákvörðunartaka byggð á hlutlausum upplýsingum sem á sér stað innan ríkjanna heldur ákvarðanataka sem byggist fyrst og fremst á málamiðlunum.Plúralisminn gagnrýnir heimsmynd realismans. Hann hafnar hinu svokallaða billjardkúlumódeli og telur að alþjóðasamskipti líkist frekar kóngulóarvef. Ríki séu háð hvort öðru. Það sem gerist í einu ríki sérstaklega á sviði efnahags- og umhverfismála hafi áhrif á önnur ríki. Ríki séu háð innbyrðis. Ríki hafa því ekki fullkomið sjálfsforræði. Þessi áhersla á að ríki séu háð hvort öðru hefur dregið athygli að tveimur atriðum, þ.e. sameiginlegum hagsmunum, t.d. auðlindanýtingu hafsins, og samskiptum þvert á landamæri vegna þróunar á sviði fjarskipta, samgangna og viðskiptaPlúralistar líta ekki einungis til svokallaðrar hápólitíkur (e. high politics), sem fjallar að mestu leyti um stríð, öryggi og hernaðarmátt, líkt og realisminn gerir. Plúralisminn beinir einnig spjótum sínum að svokallaðri lágpólitík (e. low politics) sem snýr að málaflokkum eins og efnahags- og umhverfismálum og velferð manna. Þrátt fyrir það telja plúralistar að hernaðarmáttur sé mikilvægur. Hernaðarmáttur sé hins vegar ekki eins mikilvægur og áður þar sem valdbeiting við vissar aðstæður myndi ekki áorka neinu eða hreinlega ekki lengur vera valkostur í vissum aðstæðum.Þeir fylgismenn plúralismans sem ganga hvað lengst, tala um alþjóðasamfélag og sumir þeirra vilja jafnvel alheimsstjórn. Plúralistar dásama alþjóðastofnanir, t.d. Sameinuðu þjóðirnar, þar sem hægt er að þjóna sameiginlegum hagsmunum mannkyns. Plúralistar benda á að realisminn líti ekki til alþjóðlegrar samvinnu svo sem innan vébanda Sameinuðu þjóðanna þegar fylgismenn hans tala um stjórnlaus alþjóðasamskipti fullvaldra ríkja. Jafnframt benda plúralistar á að stríð sé ekki það eina sem á sér stað milli ríkja. Átök eru þó enn mikilvægur málaflokkur í augum plúralista. Nálgunin er þó önnur. Plúralistar benda á þjóðarétt, alþjóðlega dómstóla og framlag Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem dæmi um hvernig reynt er að leysa deilur með samvinnu í stað átaka.Plúralistar benda á að grundvallarreglan í alþjóðasamskiptum sé að ríki virði landamærahelgi og fullveldi annarra ríkja. Flest ríki virði þessar reglur þar sem það er þeim til hagsbóta. Ef allir gerendurnir í alþjóðasamskiptum myndu virða þessar reglur þá væri komið á sameiginlegt öryggi og hægt er að sneiða hjá sjónarmiði realismans um stríð allra gegn öllum.Hægt er að telja upp fleiri dæmi um hvernig plúralisminn hefur gagnrýnt realismann. Hér verður hins vegar staðar numið. Það sem aðgreinir etv. plúralismann mest frá realismanum þegar á heildina er litið er að sýn plúralismans er mun bjartari á alþjóðasamskipti en sýn realismans. Einhver myndi e.t.v. segja að plúralistar væru barnalegri en realistar.

Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ

#48 - 19-05-2009

Hugmyndir um friðlýsingu Íslands gegn kjarnorkuvopnum hafa fengið byr undir vænginn eftir valdatöku vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka. Í þessum pistli verður talað gegn hluta þeirra hugmynda sem uppi eru um slíka friðlýsingu.
Hugmyndir um friðlýsingu Íslands gegn kjarnorkuvopnum hafa fengið byr undir vænginn eftir valdatöku vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka. Í þessum pistli verður talað gegn hluta þeirra hugmynda sem uppi eru um slíka friðlýsingu.Í utanríkis- og Evrópumálakafla samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG kemur fram að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld muni beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi. Skoða verður þetta stefnumarkmið í samhengi við þau þingmannafrumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Slíkt frumvarp var síðast lagt fram í nóvember á síðasta ári en dagaði uppi í meðförum þingsins. Þar sem þingsályktunartillaga eða frumvarp til laga með sama eða svipuðu efni hefur níu sinnum verið lagt fyrir þingið má gera ráð fyrir að sambærilegt frumvarp verði lagt fram á þinginu sem sett var á föstudaginn sl.Í þessum pistli verður vikið að nokkrum atriðum í frumvarpinu sem orka tvímælis. Einkum og sér í lagi verður eitt afmarkað atriði í frumvarpinu frá því í nóvember tekið til skoðunar, þ.e. siglingar herskipa í efnahagslögsögunni sem flytja eða eru útbúin kjarnorkuvopnum.Í 7. gr. hins svokallaða NPT samnings frá 1968 (e. Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons) er viðurkenndur réttur ríkjahópa til að setja á laggirnar staðbundin kjarnorkulaus svæði. Af meginreglum þjóðaréttar leiðir að slíkir samningar eru einungis bindandi fyrir þau ríki sem eru aðilar að þeim. Benda verður á að í samningnum er ekki fjallað um einhliða rétt ríkja til að lýsa yfir slíku svæði. Þrátt fyrir það virðist sem hugmyndin að frumvarpinu sé sótt í umræddan samning.Samkvæmt 1. málsl. 1. gr. friðlýsingarfrumvarpsins gera lögin Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Gildissvið frumvarpsins er skilgreint í 2. mgr. 3. gr. Þar kemur fram að í heiti laganna, og annars staðar þar sem annað kemur ekki fram, merkir „Ísland“ íslenskt land, landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og allt íslenskt yfirráðasvæði samkvæmt lögum, þjóðarétti og ýtrustu fullveldisréttindum í og á landi, á og yfir hafsbotni, í sjó og ofan sjávar og í lofti.Gera verður nokkrar athugasemdir við þetta. Strandríki njóta ekki fullveldisréttar í efnahagslögsögunni heldur njóta þau þar tiltekinna fullveldisréttinda, einkum er varða nýtingu auðlinda og verndun og varðveislu hafrýmisins, sbr. 56. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt 55. gr. hafréttarsamningsins fer um réttindi og lögsögu strandríkisins og réttindi og frelsi annarra ríkja í efnahagslögsögunni eftir viðeigandi ákvæðum samningsins. Eitt þessara viðeigandi ákvæða er 58. gr. sem kveður m.a. á um að skip allra ríkja hafi rétt til frjálsra siglinga í efnahagslögsögunni líkt og gildir á úthafinu. Íslenska ríkið hefur því ekki málefnalega lögsögu yfir siglingum í sjálfu sér í efnahagslögsögunni samkvæmt hafréttarsamningnum. Í þessu samhengi skiptir engu hvort skip sé vopnað kjarnorkuvopnum eða flytji þau.Í 1. málsl. 12. gr, friðlýsingarfrumvarpsins kemur fram að íslensk yfirvöld skuli leita með bindandi samningum, grundvölluðum á alþjóðarétti við einstök ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir, eins víðtækrar alþjóðlegrar viðurkenningar á hinu friðlýsta svæði og kostur er. Nauðsynlegt er að benda á að ákvæðið stangast á við efni 3. tl. 311. gr. hafréttarsamningsins. Þar kemur fram að tvö eða fleiri aðildarríki mega gera samninga, sem breyta ákvæðum hafréttarsamningsins. Slík breyting gildir hins vegar einvörðungu í samskiptum þessara ríkja. Það er þó með þeim skilyrðum að þessir samningar snerti ekki ákvæði sem takmörkun á væri ósamrýmanleg virkri framkvæmd tilgangs og markmiðs samningsins. Það er enn fremur gert að skilyrði að þessir samningar skuli ekki hafa áhrif á beitingu grundvallarreglnanna, sem hann geymir, og að ákvæði þessara samninga hafi ekki áhrif á beitingu annarra aðildarríkja á réttindum sínum né rækslu þeirra á skyldum sínum samkvæmt hafréttarsamningnum.Ein af þeim grundvallarreglum sem hafréttarsamningurinn hefur að geyma er siglingafrelsi utan ytri marka landhelginnar. Slíkt frelsi er jafnframt eitt af markmiðum samningsins. Það er því alveg ljóst að þeir samningar sem íslenska ríkið hugsanlega gerði á grundvelli 12. gr. friðlýsingarfrumvarpsins um viðurkenningu á hinu friðlýsta svæði, eins og því er lýst í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins, færi í bága við 3. tl. 311. gr. hafréttarsamningsins þar sem slíkur samningur væri í ósamræmi við meginreglu hafréttarsamningsins um siglingafrelsi. Samningur sem gerður væri á grundvelli 12. gr. væri þar af leiðandi að vettugi virðandi.Að lokum er rétt að benda á að í 10. gr. frumvarpsins kemur fram að heimilst sé að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð eða gegnumferð farartækja án óþarfa viðdvalar í eða á sjó eða í lofti á alþjóðlegum leiðum að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum. Einnig segir að slíkar undanþágur geti þó aldrei tekið til svæðisins innan 12 sjómílna marka og lofthelginnar þar upp af. Þetta er nokkuð sérstakt ákvæði. Einkum í sér í lagi þar sem engar slíkar undanþágur eiga við um efnahagslögsöguna að þjóðarétti. Þar ræður siglingafrelsið ríkjum eins og bent hefur verið hér á.Í ljósi framangreinds er varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en að íslenska ríkið geti ekki bannað siglingar skipa sem flytja eða eru útbúin kjarnorkuvopnum í efnahagslögsögunni. Eins og rakið hefur verið hér að ofan þá fer bann við slíkum siglingum gróflega í bága við einn mikilvægasta samning sem íslendingar eru aðilar að, hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Hefur íslenska ríkið ekki eitthvað þarfara að gera en að styggja kjarnorkuveldin að óþörfu?...að vera eða vera ekki herloftfar...

#49 - 23-03-2010

Undirritaður hefur fylgst með umræðum um hollenska fyrirtækið E.C.A. Program og fyrirætlanir þess á Miðnesheiði. Sú umræða hefur farið í kunnuglegan farveg. Í þessum pistli verður í stuttu máli fjallað um herloftfarahugtakið að þjóðarétti og skoðað hvernig það kemur við sögu í þessu máli.
Undirritaður hefur fylgst með umræðum um hollenska fyrirtækið E.C.A. Program og fyrirætlanir þess á Miðnesheiði. Sú umræða hefur farið í kunnuglegan farveg. Í þessum pistli verður í stuttu máli fjallað um herloftfarahugtakið að þjóðarétti og skoðað hvernig það kemur við sögu í þessu máli.Skráning loftfara hefur töluverð réttaráhrif. Ein af þessum áhrifum eru að réttarreglur ríkisins sem loftfarið er skráð í gildir um farið. Sérreglur gilda um herskip og herloftför í þjóðarétti þar sem litið er á þau sem hernaðarlega og pólitíska einingu fullvalda ríkis. Réttaráhrifin við að flokka loftfar sem herloftfar eru miklar í stríðsrétti. Það á einkum við á ófriðartímum. Í samþykkt um alþjóðaflugmál frá 1947 (e. Convention on International Civil Aviation), er gerður greinarmunur á loftförum til kaupferða og ríkiskaupförum. Í a-lið 3. gr. samþykktarinnar segir að hún skuli eingöngu gilda um flugför til kaupferða en ekki ríkisflugfara. Hugtakið ríkisloftför er afmarkað nánar í b-lið greinarinnar sem kveður á um að flugvélar til herþjónustu, toll- eða löggæslu skuli álitnar ríkisflugför. Ekki er að finna skilgreiningu á flugvélum til herþjónustu í samþykktinni eða hvaða sérstöku réttarreglur gildi um slík för. Í lögfræðihandbók bandaríska sjóhersins er að finna skilgreiningu á herloftförum sem stundum er vitnað til. Samkvæmt henni eru slík loftför skilgreind í þjóðarétti sem öll loftför sem starfrækt eru af herliði ríkis og bera hin ytri merki til að auðkenna slík loftför af þjóðerni þess, eru undir stjórn einstaklings sem tilheyrir herliði ríkisins og er með áhöfn undir venjulegum heraga.Eins og sjá má þarf loftfar að uppfylla fjögur skilyrði til að flokkast sem herloftfar. (1) Það þarf að vera starfrækt af herliði ríkis; (2) bera hin ytri merki til að auðkenna slík loftför af þjóðerni þess; (3) vera undir stjórn einstaklings sem tilheyrir herliði ríkisins; (4) og vera með áhöfn undir venjulegum heraga. Öll skilyrðin þurfa að vera uppfyllt. Af fréttum að dæma virðist E.C.A. Program vilja skrá flugvélar sínar á Íslandi. Slík skráning hefur í för með sér að flugvélarnar lúta íslenskum lögum og reglum. Í íslenskum lögum og reglum er hvergi gert ráð fyrir herliði enda starfrækir Ísland ekki her og enginn vilji virðist vera til staðar að stofna her. Af þessu leiðir að ef flugvélar E.C.A. Program væru skráðar hérlendis gætu þær ekki talist herloftför og myndu þ.a.l. ekki njóta réttarstöðu slíkra fara.Af fréttum að dæma virðist sem flugvélar E.C.A. Program eigi fyrst og fremst að leika hlutverk óvinarins á heræfingum herja NATO-ríkja og bandamanna þeirra. Í þessu samhengi má benda á þá vel þekktu staðreynd að Ísland er eitt aðildarríkja NATO. Auk þess er vert að benda á að heræfingar eru ekki bannaðar að þjóðarétti. Það er meira segja hægt að líta á þær sem æskilegt fyrirbæri til að tryggja frið og öryggi í heiminum. Í tilviki E.C.A. Program mætti jafnvel halda því fram að fyrirætlanir fyrirtækisins þjóni íslenskum öryggis- og varnarhagsmunum svo ekki sé minnst á þá efnahagslegu.Góðar stundir

Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?

#50 - 24-03-2010

Í dag birtist grein í Fréttablaðinu um fyrirtækið E.C.A. Program sem hefur óskað eftir starfsleyfi á Keflavíkurflugvelli fyrir óvopnaðar orrustuþotur sem nota á í heræfingum. Í greininni er því haldið fram að veiting starfsleyfis til handa fyrirtækinu „myndi brjóta í bága við stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gera eigi Ísland að vettvangi fyrir friðarumræðu og leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnun í heiminum.“ Í þessum pisti verður spurt hvort þessi fullyrðing standist.
Í dag birtist grein í Fréttablaðinu um fyrirtækið E.C.A. Program sem hefur óskað eftir starfsleyfi á Keflavíkurflugvelli fyrir óvopnaðar orrustuþotur sem nota á í heræfingum. Í greininni er því haldið fram að veiting starfsleyfis til handa fyrirtækinu „myndi brjóta í bága við stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gera eigi Ísland að vettvangi fyrir friðarumræðu og leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnun í heiminum.“ Í þessum pisti verður spurt hvort þessi fullyrðing standist.Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs frá því í maí á síðasta ári er pólitísk yfirlýsing ekki lagaleg. Þeir sem bærir eru til að túlka samstarfsyfirlýsinguna eru því væntanlega þeir sem eru í forystu flokkana tveggja. Þrátt fyrir það ætla ég að leyfa mér að rýna í textann og athuga hvort fullyrðingin hér að ofan sé rétt. Til að nálgast viðfangsefnið er heppilegt að brjóta fyrrnefnda fullyrðingu niður í nokkra búta.1. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar segir að gera eigi Ísland að vettvangi friðarumræðu.2. Í stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að leggja áherslu á baráttu fyrir (a) friði og (b) afvopnun í heiminumÞað er rétt að í samstarfsyfirlýsingunni kemur fram að gera eigi Ísland að vettvangi friðarumræðu. Nánar tiltekið segir: „Ísland verði boðið fram sem vettvangur fyrir friðarumræðu, þar á meðal fyrir alþjóðlegar ráðstefnur og fundi fræðimanna og stjórnmálaleiðtoga um þau efni.” Undirritaður á erfitt með að sjá hvernig veiting starfsleyfis til fyrirtækis sem ætlar að bjóða upp á einhvers konar útleigu á óvopnuðum flugvélum mönnuðum óbreyttum borgurum til herja NATO ríkja og bandamanna komi í veg fyrir að Ísland verði boðið fram sem vettvangur fyrir friðarumræðu. Ég veit ekki betur en að friðarumræður fari fram víðs vegar um heim óháð heræfingum.Það er rétt að það kemur fram í umræddri samstarfsyfirlýsingu að Ísland eigi að leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnun í heiminum. Nánar tiltekið kemur fram í samstarfsyfirlýsingunni að „[r]íkisstjórnin leggur áherslu á baráttu fyrir [...] friði og afvopnun.” Til að skoða þetta atriði nánar er heppilegt að greina á milli baráttunnar fyrir friði og baráttunnar fyrir afvopnun.

Varðandi baráttuna gegn afvopnun þá á undirritaður erfitt með að sjá hvernig starfsemi E.C.A. Program hamli þessu áhersluatriði í utanríkisstefnu íslenska ríkisins. Nokkrar ástæður eru fyrir þessari skoðun. Í fyrsta lagi þá eiga flugvélar E.C.A. Program að vera óvopnaðar. Í öðru lagi verða væntanlega ekki sérstaklega framleidd vopn til notkunar í þessum æfingum. Í þriðja lagi er ekkert sem kemur í veg fyrir að Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir afvopnun þrátt fyrir þessa starfsemi. Minna má að Bandaríkjaforseti hefur talað fyrir kjarnorkuafvopnun þó svo að hann sé æðsti yfirmaður bandaríska heraflans sem eins og kunnugt er á í vopnuðum átökum í Afghanistan og Írak.Varðandi það atriði að ríkisstjórnin leggi áherslu á baráttuna fyrir friði þá verður að benda á að líta má á heræfingar sem æskilegt fyrirbæri til að æfa sjálfsvörn og koma í veg fyrir að ófriður brjótist út. Taka má sem dæmi að stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að hægt sé að beita hervaldi til að tryggja frið og stöðugleika. Stundum getur verið nauðsynlegt að beita slíku valdi ef önnur úrræði duga ekki. Nauðsynlegt er að herir séu vel æfðir til að geta sinnt því hlutverki.Í titli þessarar greinar er spurt hvort fyrirætlanir E.C.A. Program fari gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Eins og bent hefur verið á hér að ofan þarf það ekki að vera. Það er eins og um margt annað túlkunaratriði og fyrir þá sem fara um þessar mundir með stjórn ríkisins að ákveða.Kannski er það svo að þeir sem tala hvað hæst gegn fyrirætlunum E.C.A. Program. líti svo á að hlutir sem hægt sé að nota til illra verka séu þar af leiðandi ilir. Undirritaður deilir ekki þeirri skoðun.